Eru Jón og Gunna á undanhaldi?

UngabarnNafnahefð Íslendinga er að breytast. Ekki nóg með að hlutur tvínefna hafi vaxið á síðustu áratugum heldur hafa undanfarin tíu til fimmtán ár fært okkur fjölda nýrra nafna. Kvenmannsnafnið Birta er algengasta nafn gefið stúlkum fæddum á árabilinu 1996-2001. Það er af sem áður var er önnur hver íslensk kona bar nafnið Guðrún eða Sigríður og enginn þótti maður með mönnum nema heita Jón eða Guðmundur.

Ungabarn„Birta slær í gegn” sagði í grein í Morgunblaðinu í vikunni og var vísað til þess að kvenmannsnafnið Birta væri algengasta nafn gefið stúlkum fæddum á árabilinu 1996-2001. Það er af sem áður var er önnur hver íslensk kona bar nafnið Guðrún eða Sigríður og enginn þótti maður með mönnum nema heita Jón eða Guðmundur. Ekki veit ég hvort dægurlagið Birta, sem Íslendingar fluttu í Eurovision hér um árið, eigi einhvern þátt í vinsældum Birtunafnsins, en víst er að fjölmargar litlar stelpur bera það nafn í dag. Jafnframt má draga þá ályktun að flestar þeirra heiti tveimur nöfnum, en um 78% barna á aldrinum 0-4 ára bera tvö nöfn.

Nafnahefð Íslendinga er að breytast. Ekki nóg með að hlutur tvínefna hafi vaxið á síðustu áratugum heldur hafa undanfarin tíu til fimmtán ár fært okkur fjölda nýrra nafna. Yngri kynslóðin virðist óhrædd við að skíra börn sín óhefðbundnum nöfnum og færri telja sig þurfa að fylgja gömlu hefðinni að láta börnin heita eftir öfum, ömmum og öðrum skyldmennum.

En skyldu hin hefðbundnu, áður algengustu, íslensku nöfn vera á undanhaldi? Er fólk hætt að skíra börn sín Jón, Guðrún, Guðmundur eða Sigríður? Svo virðist ekki vera, en í yfirliti Hagstofu Íslands yfir nöfn í Þjóðskrá 31. desember 2001 kemur fram, að Jón og Guðrún eru enn algengustu eiginnöfn á Íslandi. 3,8% núlifandi íslenskra karlmanna heita Jón og 3,6% íslenskra kvenna Guðrún. Til samanburðar má benda á að um miðja 19. öld báru 15,6% íslenskra karla nafnið Jón og um 13% kvenna hétu Guðrún. Stórt hlutfall, enda voru dæmi þess að systkini í stórum systkinahópum væru skírð sömu nöfnum. Ástæður þess voru eflaust fremur þær, að ólíklegt var að öll börnin kæmust á legg, en hugmyndaskortur foreldranna.

Í áðurnefndri frétt sagði einnig að tískusveiflur í nafngiftum væru áberandi og hlutur gamalgróinna mannanafna hefði minnkað. Það þarf ekki að leita lengra en á vefsíður barnanna á Barnalandi til að sjá að Gabríelum fjölgar á kostnað Guðmunda. Tískusveiflur hafa þó eflaust lengi verið til staðar í nafngiftum. Þær eru ófáar Evurnar á þrítugsaldri í dag og fjölmargir karlmenn af sömu kynslóð heita Bjarki.

Í dag bera 54% þjóðarinnar tvö nöfn, en einungis 18% fólks yfir 85 ára aldri. Algengustu tvínefni karla eru Jón Þór, en algengustu tvínefnin gefin drengjum fæddum á árabilinu 1996-2001 eru Andri Snær og Sindri Snær. Anna María er algengasta tvínefni kvenna og er jafnframt sú samsetning sem oftast var gefin stúlkum fæddum á umræddu árabili. Sara Lind, Eva María, að ógleymdri Rebekku Rut, sækja fast á hæla Önnu Maríu.

Frumleikinn í nafngift Íslendinga um þessar mundir er mikill, ef marka má úrskurði hinnar umdeildu mannanafnanefndar. Sum nöfnin eru reyndar aðeins of frumleg fyrir minn smekk, eins og til dæmis Lusifer, sem nefndin hafnaði. Það er engu líkara en foreldrar leggi fæð á börn sín með því að kjósa að skíra þau eftir djöflinum sjálfum. Kannski er þess ekki lengi að bíða að umsóknir um nafnið Kölska fari að sjást.

Nafnahefð Íslendinga er að breytast. En hversu vel öll þessi tískunöfn og samsetningar eiga eftir að eldast leiðir tíminn einn í ljós. Birta Sól er ósköp sætt nafn á lítilli stelpu en ekki er víst að það fari fullorðinni konu eins vel. Hitt er svo annað mál, að eftir fimmtíu ár mun forsetinn okkar kannski heita Náttsól Mist eða Adrían Neisti.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)