Úr takti við Ísland

Undanfarna daga hefur um fátt annað verið rætt á Íslandi en samninga stjórnarformanns og forstjóra Kaupþings Búnaðarbanka um launakjör þeirra hjá fyrirtækinu. Ýmislegt má gagnrýna um þessa tilteknu samninga en rót allra látanna er þó vafalaust sú að þarna var um nokkuð verulegar upphæðir að ræða. Ísland er víst ekki tilbúið fyrir svona samninga – en það þýðir þá væntanlega líka að Ísland sé ekki tilbúið til að verða „ríkasta land í heimi.”

Umræðurnar og upphlaupin í kringum kaupréttarsamninga þá sem stjórnendu Kaupþings Búnaðarbanka hafa nú fallið frá hafa verið fróðleg. Ýmislegt má gagnrýna um þessa tilteknu samninga en rót allra látanna er þó vafalaust sú að þarna var um nokkuð verulegar upphæðir að ræða.

Það er rétt sem komið hefur fram í umræðunni um kaupréttarsamninga stjórnenda Kaupþings Búnaðarbanka að heppilegt væri að kaupréttarsamningar á borð við þessa væru bornir undir hlutahafafundi. Á þetta sérstaklega við þegar um samninga við stjórnarmenn er að ræða. Slík afgreiðsla yrði vafalaust til góðs.

Hvað varðar samninga stjórnarformanns og forstjóra Kaupþings Búnaðarbanka verður einnig að teljast eðlilegt að fólk setji spurningarmerki við að við gerð samninganna sé miðað við gamalt kaupgengi, þótt skýringin sem gefin hefur verið – að miðað sé við þann tíma sem fyrri samningar féllu úr gildi – sé ekki svo galin. Það verður hins vegar að teljast nokkuð hæpið að forstjóri og stjórnarformaður hafi viljað færi á svo miklum hlutafjárkaupum ef gengi bréfa í bankanum hefði staðið í stað eða lækkað á því tímabili sem um ræðir.

Það er hins vegar ástæða til þess að staldra við og velta fyrir sér helstu ástæðu gremju landsmanna vegna þessara samninga. Helsta ástæðan, bæði í augum almennings og stjórnmálamanna, virðist nefnilega vera sú að upphæðirnar sem um ræddi hafi verið svo háar og „úr öllum takti við íslenskan raunveruleika.”

Svo það sé nú rifjað upp þá gaf staða Kaupþings Búnaðarbanka á hlutabréfamarkaði það til kynna fyrir helgi að ef stjórnendurnir tveir hefði selt bréfin þá hefðu hvor um sig hagnast um 350 milljónir króna á samningunum. Þetta er þó vitanlega mikil einföldun á staðreyndum málsins enda þurftu þeir Sigurður og Hreiðar Már að eiga bréfin í fimm ár áður en þeir gátu selt þau, og ef þeir hættu störfum hjá félaginu fyrir þann tíma þá hefði kauprétturinn fallið niður.

Í umræðum um þetta hefur verið byggt á ákaflega hæpnum forsendum; s.s. þeirri að það mætti gefa sér að Kaupþing – Búnaðarbanki héldi áfram að aukast að verðmæti eins og hann hefur gert á þessu ári. En það er vitaskuld ekkert gefið í þeim efnum og í raun er talan 350 milljónir hálfgert „skot út í loftið” um hvers virði kaupréttasamningur stjórnendanna tveggja hefði í raun verið.

Við getum allteins leikið okkur með þá hugmynd að vöxtur félagsins næstu fimm árin yrði sá sami og hann hefur verið þá fimm mánuði síðan það stóð í 156. Þá mætti allt eins áætla að hvor um sig hefði grætt ríflega þrjátíu milljarða á samningnum sem þeir sögðu frá sér. Það hefði auðvitað verið „úr takti við allan raunveruleika” enda væri Kaupþing Búnaðarbanki þá orðið tvö þúsund milljarða króna virði; eða verðmætari heldur en Bank of New York – og með sama áframhaldandi væri bankinn án vafa orðinn sá stærsti í heimi eftir tíu ár.

En það er óhætt að fullyrða að þeir sem geta spáð því fyrir með einhverri vissu hvers virði samningarnir yrðu í raun ættu að halda því fyrir sjálfa sig og reyna að koma spádómsgáfu sinni í verð – því ekki er offramboð á hlutabréfasérfræðingum sem geta séð fimm ár fram í tímann.

Stjórnarformaður Kaupþings Búnaðarbanka mun hafa haft í kringum fjóra og hálfa milljón króna í mánaðarlaun á síðasta ári og væntanlega hefur ekki væst um forstjórann heldur. Ef við gefum okkur að þeir hefðu aukreitis fengið greiddar 400 milljóna bónus fyrir að framlengja samning sinn við fyrirtækið í fimm ár. Þá hefði, með öllum fyrirvörum, mátt gera ráð fyrir að tekjur þeirra næmu um 150 milljónum á ári næstu fimm árin.

Það yrði væntanlega ekki vöntun á fólki sem teldi það mikla hneysu að þessir tveir menn fengju 150 milljónir í árslaun. Það er jú „úr öllum takti við íslenskan veruleika” – ekki satt?

Nú skal ekki um það deilt að 150 milljónir í árslaun er býsna hátt. Það er sennilega um helmingurinn af því sem Eiður Smári Guðjohnsen hefur í árslaun fyrir að skora mörk og auglýsa skófatnað. Og það er vafalaust sambærileg tala, þó líklega öllu lægri, en hún Björk Guðmundsdóttir fær fyrir að semja, spila og selja tónlist.

En varla eigum við eftir að sjá Sigmar Guðmundsson í Kastljósinu sitja andspænis Eiði Smára Guðjohnsen og spyrja: „Eiður Smári, ætlarðu virkilega að segja mér að þú myndir reyna að skjóta oftar framhjá ef þú fengir „bara” milljón á viku í staðinn fyrir fjórar?” – Eða Björk Guðmundsdóttur: „Þú ætlar þó ekki að segja mér það, Björk, að þú myndir syngja verr ef þú hefðir bara tuttugu milljónir í laun á ári?”

En það er víst þannig að fæstir gera athugasemdir við það þegar afreksfólk á sviði lista og íþrótta fær svimandiháar upphæðir fyrir vinnuna sína. Okkur finnst það einhvern veginn skiljanlegra að Eiður Smári fái fúlgur fjár fyrir hæfileika sína í knattspyrnu – sennilega af því að það er svo auðséð að enginn venjulegur maður gæti tekið við hlutverki hans í framlínu Chelsea.

En við eigum erfiðara með að átta okkur á því að forystumenn í fyrirtækjum geta búið yfir kostum sem eru síst minna verðmætir heldur en tónlistargáfa Bjarkar Guðmundsdóttur. Það þarf a.m.k. að hafa takmarkaða trú á áhrifamætti einstaklinga til þess að halda að fyrirtæki á borð við Kaupþing Búnaðarbanka hafi vaxið svo ævintýralega eingöngu vegna ytri aðstæðna eða tilviljanna.

Staðreyndin er sú að góðir stjórnendur og leiðtogar í fyrirtækjum hafa jafnfágæta kosti og afreksíþróttamenn – það er bara erfiðara fyrir okkur að átta okkur á því. Við getum nefnilega flest hugsað með okkur að við sjálf gætum allt eins stjórnað Kaupþingi eins og þessi Sigurður og þessi Hreiðar. En það er bara ekki þannig.

Á samkeppnismarkaði er hver ákvörðun dýr og þeir stjórnendur sem sýna að þeir taki oftar réttar ákvarðanir en hinir, taki mátulega áhættu á réttum tíma, velji sér rétta fólkið til að starfa með, sjái tækifæri sem hægt er að nýta o.s.frv. eru einfaldlega hluthöfum fyrirtækja sinna ómetanlegir.

Vera má að það sé „úr takti við íslenskt samfélag” að fyrirtæki á borð við Kaupþing nái alþjóðlegri fótfestu og stækki svo hratt sem raun ber vitni. Vera má einhverjum myndi líða betur ef íslensk fyrirtæki væri bara mátulega metnaðarlítil til þess að skapa ekki öldur í íslensku samfélagi. En ef það er virkilega það sem almenningur og stjórnmálamenn vilja þá hefur markaðs- og frjálsræðingsvæðing síðustu áratuga greinilega verið á misskilningi byggð. Ég vona, þrátt fyrir þessa „hysteríu”, að svo sé ekki.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.