Í gær, þann 20. nóvember, er 34 dagar voru til jóla, skipti útvarpsstöðin Létt 96,7 alfarið yfir á jólalögin. Jólastjarnan hafði þá fyrir þó nokkru hafið jólalaga-spiliríið og í dag getur maður verið viss um að heyra jólalög á flestum útvarpsstöðvum ef maður hlustar nógu lengi. Mjólkin og kókið eru komin í jólabúningin og jólaölið og piparkökurnar í búðirnar. Fyrstu viðbrögð mín við þessum voru: „Er eitthvað að?!“
Síðustu ár hefur mér fundist sem jólaundirbúningurinn hafi sífellt verið að færast framar og framar. Kringlan fer í jólabúninginn í byrjun nóvember, um svipað leyti og fyrstu jólalögin fara að heyrast í útvarpinu. Fyrstu jólavörurnar sá ég í búðunum í október í ár og það liggur við að maður verði stressaður yfir að vera ekki búin að skrifa jólakortin því þau eru búin að vera svo lengi í sölu.
Það eru margir sem eyða mikilli orku í að fárast yfir þessum snemmheitum jólanna. Það virðist vera sem of mikið jólaskap hjá sumum geti eyðilagt jólaskapið hjá öðrum. Mikið hefur verið rætt um það hvernig fjölmiðlar og auglýsendur keppast við að æsa upp í almenningi hið alræmda „jólastress“ í þeim tilgangi að græða peninga. Það er líklegast mikið til í því að slíkt búi að baki því hversu snemma jólaundirbúningur samfélagsins byrjar. Þegar ég fór hins vegar að velta þessu fyrir mér í dag komst ég að því að ef við breytum „jólastressinu“ í „jólaskap“ vega jákvæðu hliðarnar á því hversu snemma jólaæðið byrjar þyngra en hið neikvæða.
Nú er að fara í hönd myrkasti og kaldasti tími ársins. Það er nótt þegar við förum út á morgnanna og nótt þegar við komum heim á kvöldin. Mitt í öllu þessu myrkri eru jólin. Með jólunum koma kertaljós og sætindi, góður matur og jólaseríur, gleðistundir með vinum og fjölskyldu og svo mætti lengi telja. Á jólunum og við undirbúning þeirra leggur fólk sig fram um að gera öðrum gott og að njóta samvista við þá sem skipta þá mestu. Hvernig getur verið of mikið af því?
Það kann að virðast undarlegt fyrir einhverja að ég skuli vera að skrifa um jólin núna, föstudaginn 21. nóvember. Nú er að hefjast síðasta helgin áður en aðventan byrjar formlega. Njótið þess sem þessi tími hefur upp á að bjóða. Að hlúa að og gleðjast með vinum og fjölskyldu. Að hugsa um og hjálpa þeim sem minna mega sín. Að gera gott við þá sem manni þykir vænt um og taka við væntumþykju og vinarhótum frá öðrum. Aðventan kemur til með að líða hratt og fyrr en varir er komið nýtt ár og jólaseríurnar komnar ofan í kassa. Ef við byrjum snemma með jólaskapið í ár er líklegra að það endist lengur en jólaseríurnar. Væri kannski bara best að við værum alltaf í jólaskapi?
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008