42

Það gekk á ýmsu og jafnvel sumir liðsfélagar áttu erfitt með að samþykkja veru hans í liðinu til að byrja með, en þegar þeir urðu vitni að hótunum og móðgunum sem hann varð daglega fyrir snérust flestir þeirra smám saman og vildu frekar samsama sig með fyrirmyndarmanninum sem hafði annan húðlit, heldur en fordómafullu fautunum sem voru eins og þeir sjálfir á litinn.

Síðastliðinn föstudag helgi gat verið erfitt að greina í sundur leikmenn í bandarísku hafnaboltadeildinni. Að minnsta kosti gekk ekki að stóla á númerin á treyjunum, því þeir voru allir með töluna 42 á bakinu.

Eins og lesendur bókarinnar Hitchhikers Guide to the Galaxy muna þá er sú tala einmitt sjálft svarið æðstu spurningunni um „lífið, alheiminn og allt“. En þótt allir leikmenn deildarinnar klæðist treyjum með þessu númeri þennan eina dag þá hefur það ekki að gera með skáldsöguna góðu. Það kemur ekki heldur skáldsögunni við að alla aðra daga en 15. apríl er leikmönnum deildarinnar stranglega bannað að bera þetta númer.

42 er semsagt heilög tala í hafnaboltanum. Kannski má segja að ástæðan sé skyld, en ekki tengd, svarinu við lífsgátunni—en umfram allt er það þó algjör tilviljun að það sé einmitt talan 42 sem nýtur þessara helgi. Sjö gengur sex sinnum upp í hana og þrír fjórtan sinnum—og það eru líka helgar tölur—en það er ekki ástæða þess að treynúmerið 42 er bannað alla daga nema þennan eina þegar allir bera það.

Ástæðan er sú að 15. apríl 1947 varð Jackie Robinson fyrsti blökkumaðurinn til þess að spila fyrir lið í atvinnumannadeildinni í liði með hvítum leikmönnum. Hann hafði ekki áður borið númeri 42 en var úthlutað því þegar hann komst í liðið. Það var ekki tilviljun að hann var valinn til þess að vera fyrsti blökkumaðurinn í deildinni. Hann var yfirburðaíþróttamaður, átti að baki glæstan feril í körfubolta, ruðningi og frjálsum íþróttum—en það sem réð mestu var að framkvæmdastjóri Dodgers taldi að hann hefði til að bera skapgerð til að umbera svívirðingar, hótanir og ofbeldi, án þess að missa stjórn á skapi sínu.

Þótt það fari ekki saman til lengdar að vera yfirburðamaður í íþróttum en svara ekki fyrir sig—þá komst Robinson í gegnum fyrsta tímabilið sitt, með væntingar og vonir svo margra á sínu breiða baki, með yfirvegun og tign. Það gekk á ýmsu og jafnvel sumir liðsfélagar áttu erfitt með að samþykkja veru hans í liðinu til að byrja með, en þegar þeir urðu vitni að hótunum og móðgunum sem hann varð daglega fyrir snérust flestir þeirra smám saman og vildu frekar samsama sig með fyrirmyndarmanninum sem hafði annan húðlit, heldur en fordómafullu fautunum sem voru eins og þeir sjálfir á litinn.

Sagan segir að einhverju sinni hafi óvenjumargar líflátshótanir borist og lögreglan á staðnum óttaðist að ekki væri hægt að tryggja öryggi Robinson. Leikmennirnir veltu vöngum yfir þessari stöðu í búningsklefanum fyrir leikinn þegar einn þeirra fékk snilldarhugmynd. „Hvernig væri að við klæddum okkur allir í búning númer 42. Þá veit gaurinn ekkert hvern okkar hann á að skjóta.“

Íþróttirnar hafa í sögu Bandaríkjanna oft verið vettvangur jákvæðra breytinga í tengslum við samskipti ólíkra hópa og kynþátta. Það er líka erfitt að hatast út í fólk sem klæðist sama búningi og maður sjálfur og keppist að sama markmiði. Og þetta er boðskapurinn með þeirri ágætu hefð að 15. apríl ár hvert klæðast allir leikmenn deildarinnar sama númeri og minnast hugrakka mannsins sem gekk inn á Ebbets völlin í Brooklyn á þeim degi árið 1947 í skjannahvítum Dodgers búningi númer 42.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.