Faraldurinn aldrei „í jafnvægi“

Markaðir leita í jafnvægi. Ef íbúðir vantar verða íbúðir dýrari. Þeir sem byggja íbúðir græða meira. Fleiri íbúðir verða byggðar. Verð lækkar.

En það leitar ekki allt í jafnvægi. Faraldrar gera það ekki.

Ef hver smitaður einstaklingur smitar að jafnaði 1,01 einstakling mun faraldurinn springa út og allir munu sýkjast á endanum.

Ef hver smitaður einstaklingur smitar að jafnaði 0,99 einstakling mun faraldurinn á endanum deyja út.

Við sjáum það á smitgrafinu á Íslandi. Þegar 10 manna samkomutakmarkanir eru settar ár deyr faraldurinn út. Þegar samkomutakmarkanirnar eru komnar upp fyrir 100, þegar áhorfendur mæta á leik íþróttakappleiki og leikhús opna fjölgar smitum á ný. Faraldurinn er aldrei í jafnvægi.

Við sjáum þannig nokkuð bein tengsl nýgengi og umfangi samkomutakmarkana. Nú er smitfjöldi að aukast, það byrjaði nokkurn veginn 10 dögum eftir páska þegar margir hlutir opnuðu á ný. Seinasta stóra bylgja (þessi í haust) hófst einmitt 10 dögum eftir heilmiklar tilslakanir. Líklegast er má fullyrða að þær tilslakanir (í september 2020) hafi verið of snemmbúnar.

Margir spá mikið í landamærunum. Opnun sundlauga og leikhúsa kallaði ekki á sömu hlaðvörpin með áhyggjufullum álitsgjöfum og þegar héraðsdómur dæmdi skyldudvöl á sóttvarnarhóteli ólögmæta. Samt var fyrirséð að þær myndu auka líkur á smitum.

Nú held ég því ekki fram að aðgerðir á landamærum skipti engu máli. Þær gera það augljóslega. En haldi einhverjir því fram að aðgerðir á landamærum séu auðveldari og árangursríkari leið til að halda faraldrinum í skefju, og hafi meiri áhrif á þróun hans en aðgerðir innanlands þá er það ekki fullyrðing sem lesa má út úr þeim gögnum sem almenningur hefur aðgang að.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.