Tilfinningagreind

TilfinningagreindHvað veldur því að sumt fólk, jafnvel með háa greindarvísitölu, fer halloka í lífinu? Og hvað veldur því að einstaklingur, með lægri greindarvísitölu en næsti maður, nær ótrúlegum árangri á ýmsum sviðum? Svarið við þessu er tilfinningagreind.

Tilfinningagreind Í sumar kom til landsins þekktur kennismiður á sviði sálfræðinnar. Sá heitir Howard Gardner, en hann setti fram fyrir tuttugu árum svokallaða fjölþáttagreindarkenningu. Sú kenning hefur haft mikil áhrif á hverskonar kennslu víðsvegar um heim. Daniel Goleman er annar kennismiður á sviði sálfræðinnar , hann hefur orðið fyrir miklum áhrifum af rannsóknum Gardners. Goleman hefur doktorsgráðu í sálfræði frá Harvard og hefur m.a. unnið sem blaðamaður á The New York Times, þá hefur hann skrifað bækur um tilfinningagreind.

Hvað veldur því að sumt fólk, jafnvel með háa greindarvísitölu, fer halloka í lífinu? Og hvað veldur því að einstaklingur, með lægri greindarvísitölu en næsti maður, nær ótrúlegum árangri á ýmsum sviðum? Svarið við þessu, að mati Goleman, er tilfinningagreind.

Tilfinningagreind er í raun eiginleikar sem flest fólk hefur að einhverju leyti. Til þessara eiginleika teljast hæfileikinn til að hvetja sjálfan sig til dáða, sjálfsstjórn, skapstilling, einbeiting, agi, samkennd og eftirvænting. Umfram allt felur tilfinningagreind í sér hæfileikann til að lesa eigin tilfinningar og að þekkja tilfinningar annarra.

Hvaða máli skipta þessir eiginleikar ? Jú, komið hefur í ljós að þeir einstaklingar sem náð hafa langt í lífinu, hvort sem það er í einkalífi eða á vinnumarkaði hafa þessa eiginleika í ríkari mæli en aðrir. Greindarvísitala hefur aðeins takmarkað forspárgildi, en talið er að hún skýri aðeins um 20 % af árangri einstaklinga, hin 80 % koma því frá öðrum þáttum s.s tilfinningagreind.

Eins og tilfinningalegt læsi er talið hafa mikil áhrif á árangur fólks getur tilfinningalegt ólæsi jafnframt haft mikil áhrif. Goleman telur að lítil tilfinningagreind, eða tilfinningalegt ólæsi, geti verið ástæða fyrir árásargirni hjá einstaklingum og jafnvel ástæða þess að þeir fremji ofbeldisverk af einhverju tagi. Þá geti það leitt til ýmissa félagslegra vandamála, eins og fíkniefnaneyslu, og jafnvel andlegra veikinda. Í heimi þar sem andleg vanlíðan fer vaxandi og ýmis tilefnislaus ofbeldisverk eru framin, er nauðsynlegt að gefa þessum eiginleikum gaum, sem Goleman kallar tilfinningagreind.

Talið er að tilfinningagreind megi rækta og efla með einstaklingum. Hún sé því ekki alltaf meðfædd, heldur megi beinlínis kenna hana. Til að ná sem bestum árangri þarf að byrja snemma, helst strax í barnæsku. Það mætti jafnvel kenna námsefni í grunnskólum sem miðaði að því að kenna börnum að efla þessa eiginleika. Slíkt hefur verið reynt erlendis og hafa rannsóknir sýnt að það gefi góða raun.

Undanfarið hefur komið fram í fjölmiðlum, að foreldrar barna í grunnskólum telja að kennsla og námsefni í stærðfræði sé ekki nægjanlega gott, þar sem einkunnir á samræmdum prófum séu svo lágar. Ekki vil ég fullyrða neitt um það en vafalaust má bæta ýmislegt er lýtur að kennslu hér á landi, hvort sem það væri til að efla stærðfræðikunnáttu barna og unglinga eða tilfinningalegt læsi þeirra.

Latest posts by Ingunn Guðbrandsdóttir (see all)