Metsölulistamannalaun

Sá nafnlausi eftir Gabríelu FriðriksdótturAlþingi ver ríflega 35 milljónum króna á ári til heiðurs eldri listamönnum, sem eiga það sammerkt að teljast sigurvegarar í íslensku listalífi. Á sama tíma er hverfandi stuðning að finna við upprennandi listamenn og Listaháskóli Íslands er starfræktur í húsnæði sem upphaflega var reist yfir Sláturfélag Suðurlands.

Sitt sýnist hverjum um verkið „Sá nafnlausi“ eftir Gabríelu Friðriksdóttur og óvíst hvort auðvelt reynist að koma verkinu í verð.

Hver kannast ekki við það að vakna á laugardagsmorgni, fá sér kaffibolla í Norræna húsinu og kíkja á nýlistasýningu hjá Gabríelu Friðriksdóttur. Spásséra síðan Fríkirkjuveginn endilangan í átt að Listasafni Íslands til að berja augum nýja innsetningu frá Agli Sæbjörnssyni og Ragnari Kjartanssyni.

Er bíngó í sal? Enginn?

Athugulum lesendum skal þó í upphafi bent á, að í pistlinum verður ekki beitt hinni svokölluðu „Ojbarasta listamannastyrkir — ég er í Heimdalli“-röksemdafærslu. Heldur þykir mér einfaldlega að úthlutunarkerfi listamannastyrkja sé ekki nægjanlega skilvirkt. Að mínu viti, eru styrkir til upprennandi listamanna skynsamleg fjárfesting sem ekki verður metin til fjár. Vel að merkja: Listamanna sem eru að stíga sín fyrstu skref. Á hinn bóginn er bara kjánalegt að veita styrki til þeirra sem þegar hafa sannað sig og eru fullfærir um að framfleyta sér með tekjum af list sinni. Rétt’upp hönd sem halda að Erró, Kristján Davíðsson og Matthías Jóhannessen þurfi á árlegri ölmusu frá ríkinu að halda.

Ef ég vildi reyna að líta út fyrir að vera gáfaður, myndi ég segja að ákvörðun Alþingis númer 02-982 1.70, um heiðurslaun til listamanna, orkaði tvímælis. En þar sem ég hefi engar slíkar ambissjónir segi ég bara það sama og flokkstjórinn minn í skólagörðunum sagði einu sinni við mig: „Halldór Benjamín, það er of seint bera áburð á rababarana þegar það er búið að borða þá“!

Ég bið lesendur um að afsaka hversu klisjukennd samlíkingin er — en því miður er hún sönn. Eins og staðan er í dag kýs íslenska ríkið að styrkja listamenn, og þó svo að ég sé sammála þeim ráðahag, er það efni í aðra umfjöllun hvort að slíkt geti talist skynsamlegt.

En að því gefnu, hljóta menn að sjá í hendi sér að heppilegra er að ríkið hlaupi undir bagga með þeim listamönnum sem ekki geta framfleytt sér með tekjum af list sinni, í stað þess að veita fjármagni til þeirra sem tróna á toppi sinna listgreina.

Það tekur langan tíma að byggja upp listamannaferil og fullljóst er að of mikið af hæfileikafólki heltist úr lestinni sökum fjárhagsvandræða. Slík afföll mætti minnka til mikils munar ef fjármagni væri veitt til hins breiða hóps ungs hæfileikafólks, sem árlega reynir að hasla sér völl innan hinna ýmsu listgreina.

Markmið heiðurslauna Alþingis er þó væntanlega, að heiðra styrkþegana fyrir vel unnin störf í þágu listar og þjóðarinnar allrar. Ef það er málið myndi mér finnast í senn svalara, skemmtilegra og ódýrara, að heiðra téða listamenn á einhvern annan veg en með mánaðarlegri millifærslu. Ég myndi t.d. gjarnan vilja fylgja fordæmi Kanans og heiðra listamenn fyrir vel unnin störf með því að gera afsteypu í gangstéttina af lófafari þeirra. Vetrargarðurinn í Smáralind væri afbragsstaðsetning.

Íslendingar eru nefnilega bara plebbar! Það hafði enginn heyrt um Ólaf Elíasson, ekki einu sinni Menntamálaráðherra, fyrr en hann opnaði sýninguna sína í Tate Modern — þrátt fyrir að bókaforlagið Phaidon hafi gefið út tæplega 200 blaðsíðna bók um verk hans fyrir nokkrum árum. En núna vilja allir vera memm. Það fyndna er hins vegar að Ólafur á íslenska ríkinu afar lítið að þakka. Allt frá því að hann útskrifaðist hefur hann hlotið styrki frá þýska- og danska ríkinu, sem ólíkt því íslenska, telja heppilegra að aðstoða unga listamenn við að koma undir sig fótunum, í stað þess að aðstoða listaelítuna við að koma sér upp sumarbústöðum.

Þess skal þó getið að úthlutanir úr öðrum sjóði, starfslaunasjóði listamanna, eru lofsvert framtak sem veita ber athygli. Þar fá styrki margir yngri listamenn, sem eðli listar sinnar vegna geta tæplega séð sér farborða, s.s. Arnaldur Indriðason, Diddú og Hallgrímur Helgason!

Og að lokum fyrir þá sem eru alfarið á móti styrkjum til listamanna, þá þætti mér skynsamlegt að nýta andvirði heiðurslaunanna til uppbyggingar á Listaháskóla Íslands. Enda hlýtur að vera frekar pirrandi fyrir nemendur, að þurfa að sækja nám sitt í byggingu sem upphaflega var reist yfir Sláturfélag Suðurlands. Ríflega 35 milljónir á ári myndu vafalítið hjálpa til á þeim bæ.

En svo er það náttúrulega heiðursstyrkþeginn og snillingurinn Þráinn Bertelsson. Hvort að rétt er að skipa Þráni Bertelssyni á bekk með ástsælustu listamönnum þjóðarinnar skal ég ekki fjölyrða um. En maður sem skrifar kvikmyndaperlu eins og Dalalíf — getur óhræddur leitað til mín persónulega um mánaðarlegan framfærslustyrk.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)