Eiga dýr einhvern rétt?

Flestir eru þeirrar skoðunar að menn eigi rétt til lífs. Þetta er raunar einn af hornsteinum viðtekinnar siðfræði í okkar heimshluta. Það er hins vegar athyglisvert hversu skörp skil við gerum flest milli manna og annarra dýra.

Flestir eru þeirrar skoðunar að menn eigi rétt til lífs. Þetta er raunar einn af hornsteinum viðtekinnar siðfræði í okkar heimshluta. Það er hins vegar athyglisvert hversu skörp skil við gerum flest milli manna og annarra dýra. Flest umgöngumst við dýr (þ.e. önnur dýr en menn) eins og hverja aðra eign sem eigandinn hefur full yfirráð yfir og má drepa ef því er að skipta. Þannig er það til dæmis ekki talið neitt sérstakt tiltökumál að mörg hundruð þúsund klaufdýr séu drepin þegar gin og klaufaveiki kemur upp í Bretlandi. Reyndar sárnar mönnum fjárhagslegt tjón en enginn leiðir hugan að því hvort slíkar aðgerðir kunni að orka tvímælis frá siðferðislegu sjónarmiði. Án þess að blikkna „farga” menn dýrunum í stórum stíl.

Kristin trú á vísast stóran þátt í þessum kyndugleika siðferðis okkar mannanna. Á sjötta degi skapaði guð manninn eftir sinni mynd og sagði að hann skyldi „drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.” Mörg hver erum við hins vegar hætt að taka bókstaflega það sem stendur í biblíunni. En hvaða önnur ástæða gæti verið að baki þeim skörpu skilum sem við drögum flest milli manna og annarra dýra?

Margir vísa til skynsemis mannanna. Auðvelt er hins vegar að finna dæmi um dýr sem eru skynsamari en ákveðnar manneskur. Apar og margar tegundir æðri spendýra eru til dæmis skynsamari en kornabörn eða heilaskaddaðar manneskjur. Ef kornabörn eiga rétt til lífs er þá ekki eitthvað pínulítið einkennilegt við það að hundar og spendýr séu svo gott sem réttdræp?

Heimsspekingurinn Peter Singer kallar þennan tvískinnung tegundahyggju sem hann telur vera jafn heimskulega frá siðferðislegu sjónarmiði og kynþáttahyggja og kynjahyggja. Singer telur að að svo miklu leyti sem dýr eru skynsamar verur sem geta fundið fyrir sársauka og vellíðan eigi þau að vera hluti af siðferðilegu samfélagi okkar. Grunnregla að mati Singer er að ekki megi taka minni hagsmuni eins fram yfir meiri hagsmuni annars innan þessa samfélags. Með þessa reglu til hliðsjónar telur hann meðferð okkar mannanna á dýrum á margan hátt ósiðlega. Hann spyr til dæmis hvort ekki sé verið að taka minni hagsmuni okkar mannanna fram yfir meiri hagsmuni dýra þegar snyrtivörufyrirtæki lætur efni sem notað er í shampoo drúpa ofaní augun á kanínum þar til þær blindast til þess að athuga hversu mikið þær þola. Einnig má spyrja sig hvort verið sé taka minni hagsmuni fram yfir meiri þegar dýrum er slátrað til þess eins að við getum gætt okkur á gómsætri steik.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.