Liðveisla úr Hafnarfirði

Íslenskt heilbrigðiskerfi er eitt það besta í heiminun og þannig viljum við hafa það. En það á við rekstrar- og skipulagsvanda að etja sem ekki sér fyrir endann á. Um síðustu helgi féllst Samfylkingin á þá góðu markaðslausn í heilbrigðismálum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi talað fyrir, þ.e.a.s. einkarekstur.

Íslenskt heilbrigðiskerfi er eitt það besta í heiminun og þannig viljum við hafa það. En það á við rekstrar- og skipulagsvanda að etja sem ekki sér fyrir endann á. Það má í raun segja að kerfið sé að komast í ákveðið öngstræti þar sem kostnaður þess eykst stöðugt, m.a. vegna breytrar aldursamsetningar þjóðarinnar. Við þessu þarf að bregðast. Sjálfstæðismenn eins og Ásta Möller hafa haldið uppi hugmyndum um að ná megi fram umbótum með því að færa verkefni frá ríki til einstaklinga, en jafnframt bent á nauðsyn þess að farið sé varlega til þess að gæði og aðgengi þjónustunnar minnki ekki.

Útgjöld íslenska ríkisins vegna heilbrigiðskerfisins er hlutfallslega með því mesta sem þekkist, en það er nauðsynlegt að nýta betur þá fjármuni sem varið er til þess. Hingað til hafa flestir vinstrimenn skellt skollaeyrum við öllum hugmyndum sjálfstæðismanna um fjölbreytt rekstrarform innan heilbrigðiskerfisins. Verður það að teljast óábyrg afstaða, sérstaklega í ljósi þess að lítið hefur farið fyrir ábendingum um það hvaða aðrar leiðir skuli fara til þess að leysa vandann. Einnig hefur afstaða Framsóknarflokksins, sem farið hefur með lyklavöld í heilbrigðisráðuneytinu, valdið miklum vonbrigðum.

Um síðustu helgi bárust þau tíðindi úr Hafnarfirði að landsfundur Samfylkingarinnar hefði samþykkt algjöra stefnubreytingu í þessum málaflokki. Flokkurinn féllst á þessa góðu markaðslausn í heilbrigðismálum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi talað fyrir, þ.e.a.s. einkarekstur. Reyndar heldur formaður Samfylkingarinnar að hann hafi verið að marka ný spor í íslenskum stjórnmálum og þegar honum er bent á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft þessa stefnu í nokkurn tíma, þá þverskallast hann við og heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn tali ávallt um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, ekki einkarekstur.

Slíkt er alrangt. Í ályktun síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins um heilbrigðismál segir meðal annars:

“Landsfundur leggur áherslu á að allir landsmenn búi við jafnrétti og valfrelsi og njóti fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Ríkisvaldið skal tryggja öllum landsmönnum þennan rétt og bera ábyrgð á fjármögnun heilbrigðisþjónustu”.

Ennfremur segir þar:

“Landsfundur hvetur til aukins samstarfs opinberra aðila og einkaaðila um rekstur einstakra þátta í heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að hagkvæmni og kostir einkarekstrar fái notið sín sem víðast. Fundurinn telur að í heilbrigðisþjónustu, jafnt sem öðrum atvinnugreinum, sé þörf fyrir framtak einstaklinga og minnkandi opinberan rekstur”

Í ályktun um heilbrigðismál á síðasta landsþingi Sambands ungra Sjálfstæðismanna segir:

“SUS leggur til að hið opinbera breyti núverandi rekstarformi í heilbrigðiskerfinu og leggi aukna áherslu á einkaframkvæmd. Það er mikilvægt að aðskilja þátt kaupanda og seljenda heilbrigðisþjónustu og skapa þannig svigrúm fyrir aðkomu einkaaðila að rekstrarþættinum. Hið opinbera hefði engu að síður eftirlit með að þjónustan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru en ber ekki lengur ábyrgð á rekstrinum. Hið opinbera á að hafa eftirlit með þvi að heilbrigðisþjónusta uppfylli ströngustu gæðakröfur en ekki endilega að veita slíka þjónustu. Frammistöðu rekstraraðila á að meta reglulega en slíkt veitir einkaaðilum aðhald. SUS bendir á að með aukinni einkaframkvæmd er hægt að nýta jákvæða eiginleika einstaklingsframtaksins í heilbrigðiskerfinu og aukin einkaframkvæmd ætti að leiða til aukinnar framleiðni og valfrelsi fyrir sjúklinga eins og reynslan hefur verið í öðrum atvinnugreinum.”

Það er mikið fagnaðarefni að Samfylkingin hafi kúvent algjörlega í þessu máli og skipað sér í lið með Sjálfstæðisflokknum. Er það sérstaklega gleðilegt þar sem nauðsynlegt er að breiðfylking myndist um lausn þessa alvarlega vandamáls.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.