Bíddu, hver er það aftur?

Staða Ian Duncans Smith innan Íhaldsflokksins er afar slæm. Í pistli dagsins veltir Baldvin Þór Bergsson fyrir sér framtíð formannsins og möguleikum Íhaldsmanna á sigri í næstu þingkosningum.

Ian Duncan Smith á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Hann sætir rannsókn vegna meintra ólöglegra greiðslna til eiginkonu sinnar úr opinberum sjóðum, honum hefur mistekist að nýta sér óvinsældir ríkisstjórnar Tonys Blair í kjölfar innrásarinnar í Írak og nú virðist sem hvort tveggja stuðningur þingmanna og hins almenna flokksmanns fari hverfandi.

En það er ekki bara Ian Duncan Smtih sem er í vandæðum. Íhaldsflokkurinn breski er að deyja út, í orðsins fyllstu merkingu. Meðalaldur flokksmanna er einhver staðar á bilinu 65-70 ár og ungliðahreyfing flokksins telur litlu fleiri en Samband ungra sjálfstæðismanna. Jafnvel þótt uppreisnargjarnir þingmenn hvísli sín á milli að nauðsynlegt sé að velta foringjanum úr sessi, þá er erfitt að finna hentugan arftaka.

Í breska vikublaðinu The Economist fjallar Bagehot um ársþing Íhaldsflokksins sem fór fram um daginn og mögulega eftirmenn formannsins. Bagehot hefur löngum haft góða innsýn í starfsemi Íhaldsflokksins en hann lýkur pistli sínum á því að segja að Oliver Letwin sé maður framtíðarinnar. Íslenskir lesendur þurfa ekkert að skammast sín þótt þeir kannist ekki við nafnið því fæstir Bretar gera það heldur. Ef marka má The Economist ættu áhugamenn um bresk stjórnmál að fylgjast með þessu nafni á næstu mánuðum. Það gefur hins vegar góða mynd af stöðu Íhaldsflokksins að mögulegur formaður og þar af leiðandi forsætisráðherraefni sé hér um bil óþekktur. Reyndar sína kannanir það einnig að stór hluti bresku þjóðarinnar þekkir ekki Ian Duncan Smith.

Ian Duncan Smith komst til áhrifa innan Íhaldsflokksins með stuðningi Margrétar Thatcher. Enda hefur hann verið trúr arfleið hennar að flestu leiti og þykir vera einn ákafasti talsmaður frjálshyggju í flokknum. Þó lendir hinn hægri sinnaði Íhaldsflokkur í ákveðnum vandræðum þegar hann reynir að vinna hylli kjósenda með gagnrýni á ríkisstjórnina. Það er til að mynda vandséð hvernig það samræmist markaðsáherslum flokksins að mótmæla skólagjöldum á efri skólastigum og tilraunum til að auka samkeppni á milli skóla. Tilviljunarkenndur málflutningur í kringum Íraksstríðið hefur einnig verið gagnrýndur enda erfitt fyrir íhaldsmenn að gagnrýna hernaðaraðgerðir sem þeir styðja flestir heilshugar.

Ræða Tonys Blair á ársþingi Verkamannaflokksins var í huga margra prófsteinn á stuðning hans innan flokksins, Daginn áður hafði Gordon Brown, fjármálaráðherra og væntanlegur arftaki Blairs, haldið ræðu sem var fagnað í rúmar fjórar mínútur. Ræðu Blairs var fagnað í rúmlega sjö sem þótti sanna að hann væri ótvíræður foringi flokksins og leiðtogi landsins. Þegar Ian Duncan Smith hélt sína ræðu þurftu svipurnar, agameistarar flokksins, ganga um salinn til að koma í veg fyrir frammíköll og til að klappa á réttum stöðum í ræðunni.

Bæði þingmenn og flokksmeðlimir Verkamannaflokksins gera sér grein fyrir því að núverandi ríkisstjórn á góða möguleika á því að tvöfalda tíma sinn á valdastóli. Á sama tíma vita þingmenn Íhaldsflokksins að Ian Duncan Smith mun aldrei fanga hug og hjörtu þjóðarinnar á sama hátt og Tony Blair, og líklega gerir Ian Duncan Smith sér grein fyrir því sjálfur. Gera má ráð fyrir því að næst verði kosið til þings í Bretlandi vorið 2005. Helsta von Smith er sú að andstæðingar hans innan flokksins falli á tíma. 25 þingmenn flokksins þurfa að skrifa undir vantraustsyfirlýsingu til að knýja fram kosningu um nýjan formann. Hafi slík tillaga ekki verið samþykkt fyrir áramót er ólíklegt að Ian Duncan Smith verði felldur, enda óráðlegt að skipta um stjóra í brúnni þegar kosningabaráttan er hafin.

En hvort sem Íhaldsflokkurinn gengur til kosninga undir forystu Ian Duncans Smith eða einhvers annars er afar hæpið að ríkisstjórn Blair falli. Þrátt fyrir að ríkisútgjöld séu smátt og smátt að aukast, þrátt fyrir að miðstýrðar reglugerðir íþyngi opinberum þjónustustofnunum og þrátt fyrir óvinsældirnar í kjölfar Íraksstríðsins er Verkamannaflokkur Tonys Blair ennþá langbesti kostur kjósenda. Það er líklega helsti áfellisdómurinn yfir Íhaldsflokkinum og þá sérstaklega Ian Duncan Smith.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)