Nekt í tónlistarmyndböndum

Í sérstökum gestapistli fjallar Teitur Skúlason um þá þróun sem orðið hefur í tónlistarmyndböndum að sífellt meira bert hold er þar til sýnis. Hver ætli sé ástæðan fyrir því að nekt er orðin algengari og er ástæða til að bregðast við?

Undanfarið hefur nekt í sjónvarpi aukist, og þá sérstaklega í tónlistarmyndböndum. Þessi aukning hefur orðið til þess að rætt hefur verið um að banna tónlistarmyndböndin, unglingum til mikillar gremju. Hver ætli sé ástæðan fyrir því að nekt er orðin algengari og er ástæða til að bregðast við?

Öllum er ljóst að naktir kvenmannslíkamar eru mikið aðdráttarafl fyrir óharðnaða unglingspilta og því stíla framleiðendur þessara myndbanda vafalaust inn á þann auðvelda markað og nota fáklæddar, dansandi konur í vaxandi mæli. Þetta er einfaldlega sölumennska, einföld en örugg leið til að ná athygli og auka plötusölu fyrir viðkomandi tónlistarmann. Foreldrar ungra barna hafa hins vegar haft ýmislegt við þetta að athuga og heyrst hefur að ung stúlkubörn reyni að apa eftir því sem þær sjá á þessum myndböndum, foreldrunum til lítillar gleði. Nektin er farin að ganga ansi langt og hefur ein þekktasta tónlistarstöð heims, MTV, reynt að sporna við þróuninni með því að ritskoða öll þau myndbönd sem þar eru sýnd. Slíkt er hins vegar ekki til siðs hér á Íslandi á einu íslensku tónlistarstöðinni, Popptívi, þar sem engin ritskoðun er á myndefninu, aðeins á textum, og allan sólarhringinn má sjá nánast naktar konur hrista sig fyrir framan myndavélarnar.

Þar sem Popptívi er eina tónlistarstöðin á Íslandi og nær inn á flest öll heimili í landinu sést að hún hefur ansi breiðan áhorfendahóp. Óhætt er að áætla að hann nái frá 10 ára krökkum upp í þrítuga skallapoppara og því getur reynst erfitt að samræma kröfur þessara áhorfenda. Ómögulegt er að halda þessu óbreyttu því ekki geta 10 ára krakkar haft óheftan aðgang að slíku sjónvarpsefni. Nú nýlega hefur sú breyting orðið á að þau myndbönd sem innihalda mikinn dónaskap eru aðeins sýnd seint á kvöldin og er það til mikilla bóta. Önnur lausn er að ritskoða myndböndin eins og tíðkast á MTV en þá er málað yfir það myndefni sem talið talið er óæskilegt. Sú aðferð hefur ekki fest sig í sessi á Íslandi.

En ólíklegt er að sölumennska sé eina ástæðan fyrir þessari aukningu á nekt í myndböndunum. Annað sem væntanlega spilar inn í er rappmenningin. Nekt hefur einkum verið áberandi í rappmyndböndum en minna hefur borið á þeim í öðrum geirum tónlistariðnaðarins t.d. rokki. Mikið hefur borið á ýmis konar öfgum í myndböndum rapparanna, hvort sem það eru brjálæðislega dýrir bílar, vín, skartgripir, víð föt, eða mikið af fáklæddum konum. Þetta má ef til vill rekja til þess að oftast eru rappararnir strákar sem ólust upp í fátækt og síðan þegar þeir slá í gegn fá þeir einhvers konar kaupæði, þar sem þeir eru staðráðnir í að eyða eins miklu og hægt er í konur og bíla. Einnig ber mikið á samkeppni milli rapparanna þar sem þeir keppast um það hver á það mesta og það besta. Getur verið að þeir líti á konur sínar sem eignir? Þessi þróun stefnir í óefni. Eina lausnin í augsýn er að eins og öll tíska gengur rapptíska í hringi og áður en langt um líður verður það vonandi alveg úr tísku að hafa mikið af nöktum konum og almenna kvenfyrirlitningu í tónlistarmyndböndunum.

Nokkuð ljóst er að engin bein þörf er fyrir alla þessa nekt. Þó að henni væri sleppt myndi plötusala ekki stöðvast eða vinsældir tónlistarmannanna minnka. Góðir tónlistarmenn hafa hingað til komist ágætlega af án þess að hafa nakta kvennlíkama í myndböndum sínum. Þessi nekt og kvenfyrirlitning er tískubóla sem erfitt er að bíða aðgerðalaus eftir að spryngi. Enginn vill að börnin sín verði eftirlitslaus vitni að slíku myndefni og sérstaklega ekki meðan þau eru ung að aldri. Freistandi væri að komast að rótum vandans með því að banna tónlistarmönnunum að gefa út slík myndbönd en bönn af slíku tagi eru fáum að skapi. Einnig væri hægt að hefta miðlun nektarinnar með ritskoðun á sjónvarpsstöðvunum á svipaðan hátt og gert hefur verið á MTV.

En boð og bönn hafa sjaldan leyst slíkan vanda. Á endanum snýst þetta alltaf um ábyrgð foreldra á börnum sínum og hvernig þeir ala börnin sín upp. Það eru foreldrar sem eiga að hafa vit fyrir börnum sínum, stjórna áhorfi þeirra og kenna þeim að sú hegðun sem sést á skjánum er óeðlileg. Þegar öllu er á botninn hvolft eru foreldrar mun heppilegri uppalendur en ríkið.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Gestapistill (see all)