Færri félagar – minni áhætta

Svokölluð stjórn Heimdallar tók þá nýstárlegu ákvörðun í gær að láta fólk skrá sig tvisvar í félagið til að teljast fullgildir meðlimir.

Það var kannski ekki við því að búast að sú stjórn Heimdallar sem hlaut umboð sitt á svokölluðum aðalfundi félagsins 1. október sl. væri líkleg til þess að heiðra starfsreglur Sjálfstæðisflokksins frekar en fyrirrennari hennar. Og þó. Menn héldu kannski að svokallaður formaður félagsins hefði meint eitthvað með því þegar hann sagðist, í kjölfar ákvörðunar stjórnar sem hann sat sjálfur í, harma að inntökubeiðnum 1.152 nýrra meðlima hafi verið frestað fram yfir aðalfund.

En hann harmaði það greinilega ekki meira en svo að nú hefur stjórn Heimdallar ákveðið að útbúa alveg sérstakar reglur til þess að gera ungu fólki erfiðara um vik en áður að ganga til liðs við Heimdall og Sjálfstæðisflokksinn. Hin ferska sýn nýrrar stjórnar á útbreiðslu hugsjónarinnar er sú að fólk þurfi nú að skrá sig tvisvar í félagið áður en það telst til fullgildra meðlima.

Samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar þurfa þó ekki allir að skrá sig tvisvar. Svo virðist sem stjórnin hafi engar efasemdir um að þeir fjögur þúsund meðlimir, sem áður höfðu skráð sig í félagið á nákvæmlega sama hátt og þeir sem gengu í félagið fyrir aðalfund, hafi verið skráðir á röngum forsendum.

Vitaskuld ætti stjórn Heimdallar að senda öllum félagsmönnum bréf til þess að fá staðfestingu á því að þeir hafi í raunverulega í hyggju að vera félagsmenn í Heimdalli. Allt annað er tóm hræsni og sýnir best að raunverulegar hvatir að baki þessum furðulegu vinnubrögðum eru þær að tryggja að stjórnartaumarnir í félaginu fari ekki í hendurnar á fólki sem væri líklegt til þess að gera því eitthvað gagn.

Eða væri e.t.v. sniðugra að álykta sem svo að þeir sjötíu og einn sem mætti á aðalfund Heimdallar væru þeir einu sem hefði nægilega mikinn áhuga á starfinu til þess að hægt sé að samþykkja þá sem fullgilda meðlimi?

Er það ekki bara málið – að hafa félagið nógu fámennt svo að stöðugleikinn haldist nú örugglega – eða kannski svo stöðnunin og hnignunin fái nú örugglega að ganga sinn kúrs? Það virðist a.m.k. vera hugsunarhátturinn sem þessi formaður Heimdallar hefur að leiðarljósi í starfi sínu. Kannski honum þætti það bara þægilegast ef hann væri einn í félaginu – hann myndi þá ekki þurfa að hafa fyrir því að þiggja umboð frá fólki sem hugsanlega er ósammála honum eða hefur meiri trú á forystuhæfileikum einhvers annars.

Það er ljóst að miklu meiri þörf er á breytingum í starfsemi Heimdallar heldur en áður var talið. Þar er ekki einasta rekið máttlítið félag með nánast enga starfsemi heldur virðist sem núverandi stjórnarmönnum standi einnig algjörlega á sama um flest þau grundvallarsjónarmið sem Sjálfstæðisflokkurinn grundvallast á.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)