Vantraustskosningar í Kaliforníu III

Ameríski draumurinn hefur heldur betur orðið að veruleika fyrir Arnold Schwarzenegger, sem erorðinn ríkisstjóri í Kaliforníu. Það sem er kannski enn ótrúlegra er að kosningarnar munu líklega ekki hafa neina stórkostlega eftirmála eins og ýmislegt benti til. Íbúar Kaliforníu bíða nú spenntir eftir að Arnold efni loforðin.

Arnold segist ætla að hlúa sérstaklega að velferð og menntun þrátt fyrir að þurfa að skera gríðarlega niður í ríkisútgjöldum.

Okkur Íslendingum finnst tveggja flokka kerfið vestan hafs oft hálf kjánalegt. Þótt til séu fleiri flokkar hafa þeir sjaldnast mikið vægi og við eigum oft erfitt með að heimfæra skoðanir okkar yfir í bandaríska flokkakerfið. Til að mynda virtist í síðustu forsetakosningum þar ytra sem frambjóðandi Græningjaflokksins, sem lengst var til vinstri, ganga lengra í markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins en allir íslensku flokkarnir.

Margir tengja repúblíkanaflokkinn við afturhald og kreddur og vísa til stuðnings margra flokksmanna við byssueign og andúð þeirra á fóstureyðingum og réttindum samkynhneigðra. Tortímirinn Arnold Schwarzenegger hefur þó sýnt fram á að ekki eru allir repúblíkanar á þessari línu því hann þykir talsvert frjálslyndari en hinn steríótýpíski repúblíkani.

Þrátt fyrir að kosningabaráttan hafi orðið gríðarlega hörð á lokasprettinum og hótanir glumið um kærur og klaganir virðist ekkert hafa orðið úr þeim. Sem betur fer, því löng málaferli og skrípaleikur í fjölmiðlum hefði einungis orðið til að draga enn frekar úr trúverðugleika bandarískra stjórnmála. Eins gæti verið að hótanirnar hafi einungis verið hluti af kosningaáróðri Gray Davis, sem þykir harður í horn að taka og gjarn á að nota neikvæðan áróður gegn andstæðingum sínum.

Þvert ofan í hrakspár mínar og annarra er Arnold kominn á fullt við endurskipulagningu stjórnsýslunnar og svokallað breytingaferli (transition) er þegar hafið. Þegar hafa 65 aðilar verið skipaðir í nefnd Arnolds til að vinna að endurskipulagningu. Þar er margt reyndra einstaklinga og vekur það vonir um að Arnold muni takast vel til að halda um stjórnartaumana. Athygli verkur að í hópnum eru m.a. tveir hagfræðingar sem voru efnahagsráðgjafar Ronald Reagan í forsetatíð hans (hversu traustvekjandi sem mönnum kann að þykja það).

Mikið hefur einmitt verið rætt um hvort Arnold ætli sér ekki einmitt að feta í fótspor Reagans, sem var vinsæll leikari sem kom við í ríkisstjórastól Kaliforníu á leið sinni í Hvíta húsið. Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna eru einungis barnfæddir Bandaríkjamenn kjörgengir til forseta, sem útilokar Austurríkismanninn. Bráðlega verður þó lögð fram tillaga til breytingar á þessu ákvæði og þykjast einhverjir sá að það sé einmitt sérstaklega gert í þágu Schwarzeneggers. Kálið er þó ekki sopið, því breytinguna þarf að samþykkja í öllum fylkjum Bandaríkjanna.

Arnold hefur tilkynnt að hans fyrsta embættisverk verði að afnema afar óvinsælan bílaskatt sem þrefaldaðist frá síðasta ári. Það verður fróðlegt að fylgjast með baráttu hans við gríðarlegan og vaxandi fjárlagahalla ríkissins. Sérstaklega með tilliti til þess að hann segist vilja hlúa sérstaklega að velferðar og menntamálum og meðal annars stefnu hans um að fækka í bekkjardeildum og hafa skóla fleiri en smærri.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)