Ríkissprotar

RíkissprotarPistlahöfundur er orðinn langþreyttur á endalausu væli stjórnmálamanna um línuívilnanir, landbúnaðarstyrki og innflutningshöft og horfir upp á rótgróin íslensk stórfyrirtæki þiggja óbeinan ríkisstuðning á borð við framleiðslustyrki, skattaundanþágur og sjómannaafslætti. Getur ekkert íslenskt fyrirtæki borið sig án ríkisafskipta?

RíkissprotarFyrir þremur til fjórum árum síðan, í blóma síðasta góðæris, var mikil gróska í íslensku atvinnulífi og nýjum fyrirtækum skaut upp eins og gorkúlum. Síðan þá hefur markaðurinn tekur hressilega dýfu og mörg af þessum svokölluðu sprotafyrirtækjum hafa farið í þrot eða neyðst til að hætta rekstri. Ástæður að baki þessari þróun virðast ekki vera ýkja margar. Sumar viðskiptahugmyndir voru einfaldlega lélegar og áttu aldrei að komast á koppinn, sum fyrirtæki náðu aldrei flugi því tækni- og efnahagsþróun varð með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í áætlunum og önnur fyrirtæki fengu einfaldlega ekki fjármögnun í þann tíma sem þau þurftu til að ná jákvæðu tekjuflæði.

En sem betur fer eru enn mörg sprotafyrirtæki á lífi og gera má ráð fyrir að þau veiti nokkur þúsund Íslendingum atvinnu á ári hverju og stuðli að nauðsynlegri nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Framtíð margra þeirra er hins vegar ótrygg því umhverfið er enn óstöðugt og nánast ekkert áhættufjármagn fáanlegt á markaðinum. Sprotfyrirtæki eru mörg hver háð fjármögnun frá áhættufjárfestum, bönkum eða fjársterkum einstaklingum og þegar tæknibólan sprakk og fjármagnsheimurinn fékk þynnkukast höfðu mörg sprotafyrirtæki engin tækifæri til að framlengja líf sitt – þrátt fyrir að mörg þeirra væru að ná ágætum árangri.

Sumir fjármálamenn vitna í Darwin gamla og segja þessa þróun vera náttúrulega, þeir hæfustu lifi af, og það taki því ekki að vera að fást við þessi vandræða-sprotafyrirtæki. Þannig hafa bankar til að mynda algjörlega lokað á fjármögnun sprotafyirtækja og einbeita sér að öflugum vaxandi viðskiptavinum eins og Marel, Össur, Pharmaco eða Bakkavör. En menn gleyma því að þessi öflugu fyrirtæki voru eitt sinn sprotafyrirtæki og börðust sum hver í bökkum við að halda sér á lífi. Það gleymist líka að stór hluti sölutekna þessara frambærilegu íslensku fyrirtækja kemur frá nýsköpun – nýjum vörum sem e.t.v. voru þróaðar innan fyrirtækisins einu eða tveimur árum fyrr. Það er því nýsköpun og íslenskt hugvit sem tryggir okkur framtíðarsýn í efnahagsmálum.

Staðan á íslenskum fjármálamarkaði er ekki góð um þessar mundir fyrir fyrirtæki í leit að áhættufjármagni. Fyrir 2-3 árum vorum margir áhættufjárfestingarsjóðir að störfum og fjársterkir einstaklingar tóku virkan þátt í uppbyggingunni. Í dag er svo að segja enginn að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, nema e.t.v. Byggðastofnun. Enda hafa sum sprotafyrirtæki gripið til þess ráðs að flytja starfsemi sína út á land til að eiga einhverja möguleika á áhættufjármögnun. Nýsköpunarsjóður atvinnulifsins er tómur og segja má að starfsemi Þróunarfélagsins, Eignarhaldsfélags Alþýðubankans og Íslenska hugbúnaðarsjóðsins hafi verið lögð niður. Það er ekki óalgengt að fyrirtæki þurfi fimm til tíu ár til að fullþróa vörur og byggja upp sölunet, það sanna dæmin með Össur, Marel, Flögu og fleiri íslensk fyrirtæki. En verði þetta gap viðvarandi á íslenskum fjármálamarkaði má ætla að góð tækifæri fyrir íslenskan efnahag fari í súginn. Við viljum vera á meðal ríkustu þjóða heims og til þess þurfum við að þróast frá hráefnisframleiðslu (ál- og fiskiðnaði) yfir í fullvinnslu afurða.

Það er ljóst að umhverfi til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi er ekki hagstætt og við því verður að bregðast skjótt. Pistlahöfundur er ekki mikill talsmaður ríkisstyrkja og telur að nýsköpunarfyrirtæki geti staðið undir sér að því gefnu að rétt umhverfi sé til staðar og telur að stjórnvöld eiga að einbeita sér að þvi verkefni. Pistlahöfundur er hins vegar orðinn langþreyttur á endalausu væli stjórnmálamanna um línuívilnanir, landbúnaðarstyrki og innflutningshöft og horfir upp á rótgróin íslensk stórfyrirtæki þiggja óbeinan ríkisstuðning á borð við framleiðslustyrki, skattaundanþágur og sjómannaafslætti. Getur ekkert íslenskt fyrirtæki borið sig án ríkisafskipta?

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)