Fátt er svo með öllu illt …

Undanfarið hefur hinn digri olíusjóður Norðmanna verið nokkuð í umræðunni. Litlu minni er þó annar sjóður sem hinn umdeildi auðjöfur, Bill Gates, stofnaði. Sjóðurinn „The Bill and Melinda Gates Foundation“ er nú langstærsti góðgerðasjóður í heimi og mun í framtíðinni hafa mikil áhrif á heilbrigðismál þriðja heimsins.

Undanfarið hefur hinn digri olíusjóður Norðmanna verið nokkuð í umræðunni. Það er gott til þess að hugsa að frændur okkar í austri þurfa ekki að hanga á horriminni. Þeir eiga undir koddanum 8.000 milljarða íslenskra króna til mögru áranna. Bill Gates stofnaði sinn sjóð fyrir nokkrum árum og hefur dælt í hann sem samsvarar rétt um 2.000 milljörðum íslenskra króna, eða um fjórðungi af olíusjóði norðmanna.

Bill Gates varð ríkur á fyrirtæki sínu Microsoft, sem margir tölvunotendur elska að hata. Einokunartilburðir og aðrir viðskiptahættir fyrirtækisins hafa ekki lagst vel í fólk og þykir ýmsum þeir nýta aðstöðu sína á ósiðlegan, jafnvel ólöglegan hátt. Af því hafa sprottið ýmis málaferli. Þau hafa þó ekki haft mikil áhrif á fyrirtækið og nú er Gates, sem stofnaði fyrirtækið á sínum tíma og á enn stóran hluta í því, ríkasti maður heims.

En jafnvel fyrir ríkasta mann heims eru eru 2.000 milljarðar engir smáaurar. Gates hefur nú þegar afsalað sér meira en þriðjungi eigna sinna til sjóðsins og ætlar sér að eigin sögn að vera búinn að yfirfæra 95% þeirra áður en hann fer yfir móðuna miklu. Sjóðurinn er ekki sá eini sem starfar að líknarmálum, í Bandaríkjunum eru um 40 sjóðir sem hafa yfir 100 milljörðum króna eða meiru að ráða, og er sá næststærsti tæplega helmingur af stærð Gates sjóðsins.

Það sem er ólíkt með sjóði Gates og flestum öðrum stórum sjóðum er að það eru þróunarlöndin sem njóta góðs af honum, en ekki gamlir Norðmenn, ríkir olíufurstar, eða menntaelítan í Bandaríkjunum. Sjóðirnir, sem eru eðli málsins samkvæmt flestir í ríkustu löndum heims, gefa sjaldan peninga út fyrir landsteinana svo einhverju nemi. Trúarhópar, menningarstarfsemi og menntastofnanir eru mun vinsælli styrkþegar en sveltandi börn með malaríu eða eyðnismitaðar mæður.

Sjóður Gates er þó ekki sá eini sem horfir til þróunarhjálpar í styrkjum sínum. Ford sjóðurinn leggur einnig umtalsverða áherslu á slíka styrki, auk þess sem félagarnir Hewlett og Packard stofnuðu hvor sinn sjóðinn til að styrkja slík málefni.

Auðvitað er sjóðurinn ekki stofnaður af algerlega óeigingjörnum hvötum. Peningar Bill Gates voru að langmestu leyti bundir í hlutabréfum í Microsoft og ef Gates hefði reynt að losa stöðu sína þar með öðrum hætti hefðu margir túlkað það sem vantraust á félagið (sjóðurinn á enga hluti í Microsoft). Að sjálfsögðu fær hann líka framlögin dregin frá skatti. Mestu skiptir þó kannski að hann hafði legið undir nokkrum ámæli fyrir að standa sig illa í líknarmálum og bætti nokkuð sína ímynd með þessu.

En miðað við þá miklu athygli sem Ted Turner fékk þegar hann gaf um 75 milljarða króna til Sameinuðu Þjóðanna fer ekki mikið fyrir umfjöllun um Gates sjóðinn. Á Deiglunni var reyndar nýlega fjallað um eitt af verkefnum sjóðsins, baráttuna við malaríu, en fáir gera sér grein fyrir stærð hans. Sjóðurinn á vonandi enn eftir að stækka og hjálpa enn meira til í baráttunni við ömurleg lífsgæði margra í þessum heimi.

Húrra fyrir Gates!

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)