Um söngvakeppnir og samsæri

Deiglan veltir fyrir sér ýmsum samsæriskenningum í kjölfar háðulegrar útreiðar Íslands í söngvakeppni sjónvarpsstöðva.

Nú er Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva að baki og árangur Íslands veldur þorra landmanna miklum vonbrigðum eins og oft áður. Síðasta sætið í keppninni var töluvert frá væntingum landans. Bjarta hliðin er hins vegar sú að gærkvöldið var Íslendingum tilefni mikilla hátíðahalda langt fram eftir nóttu og þarf hver sá sem var ekki boðinn í einhvers konar Evrópuveislu í gær að fara að athuga alvarlega félagslega stöðu sína.

Íslenska ríkissjónvarpið sér um keppnina hér heima og allur gangur hefur verið á því hvernig staðið hefur verið að því að velja lagið. Ríkissjónvarpið tók upp á því á tíunda áratug síðustu aldar að velja lögin og flytjendur með gerræðislegum hætti og góðum árangri því Selma Björnsdóttir kom íslenska laginu í 2. sæti eftir harða baráttu um fyrsta sætið við ofmálaða sænska söngkonu. Í þeirri keppni mátti ekki miklu muna að Ísland ynni keppnina og hefði því hlotið þann heiður að fá að halda keppnina í kjölfarið.

Ef Selma hefði unnið á sínum tíma þá hefði það orðið mikil lyftistöng fyrir íslenska skattgreiðendur sem hefðu borgað herlegheitin með ánægju! Keppnin sjálf hefði eflaust orðið jafn skemmtileg og aðrar uppákomur sem ríkið skipuleggur fyrir okkur borgarana sbr. Kristnihátíð, bara með miklu stærra sniði og öll Evrópa hefði fengið að að dáðst af skipulagshæfileikum íslenska ríkisins.

Það er ekki hægt að fjalla um svona atburð án þess að setja fram samsæriskenningar.
Þrátt fyrir að forráðamenn sjónvarpsins hafi til þessa verið ófeimnir við að eyða skattpeningunum okkar þá bendir ýmislegt til þess að eftir frábæran árangur Selmu hafi forráðamenn Ríkissjónvarpsins fengið í magann og ekki treyst sér til að halda keppnina ( t.d. ekki víst hvort Júlíus Hafstein gæti tekið skipulagninguna að sér). Því var ákveðið að taka upp gömlu forkeppnina aftur. Forkeppnin er ágæt í sjálfu sér en á henni er sá galli að helstu hæfileikamenn landsins virðast halda að sér höndum a.m.k. þeir sem eru þekktir. Höfundar vinningslagsins í keppninni ráða því hverjir flytja lagið þannig að alls óvíst er hvort að hæfir flytjendur eða vinir höfundsins fara út fyrir Íslands hönd. Þrátt fyrir að gerræðislega aðferðin hafi þýtt það að við þyrftum að sitja hjá 1998 þá hefur hún skilað mun betri árangri þar sem árangur okkar með forkeppnisfyrirkomulaginu hefur verið grátlegur með fáum undantekningum. Ef satt reynist og RÚV er að reyna að spilla fyrir árangri Íslands með forkeppninni þá er skrítin staða kominn upp þar sem Ríkissjónvarpið vill ekki að liðið sitt vinni! Menn geta rétt ímyndað sér hvernig staðan væri ef framkvæmdarstjóri knattspyrnuliðs vildi ekki að liðið ynni!

Meðan Ríkissjónvarpið sér um keppnina koma upp hin furðulegustu mál. Þetta er örugglega eina keppnin sem Ísland tekur þátt í þar sem stjórnmálamenn geta haft puttana í stjórnun og fyrirkomulagi keppninnar. Eftir á að hyggja þá er það alveg með ólíkindum að Mörður Árnason sem er í Útvarpsráði fyrir hönd Samfylkingarinnar skuli hafa ætlað að troða skoðunum sínum í keppnina burt séð frá því hvort eitthvað var til í þeim. Krafa Marðar um að íslenska lagið yrði flutt á íslensku ber í versta falli vott um mikinn þjóðernisrembing en í besta falli vott um leynda drauma um það að íslensku keppendurnir kæmu fram í Parken í íslenska þjóðbúningnum eða lopapeysum og ekki myndi skemma fyrir ef einhver þeirra héldi á hrífu. Mörður hefur eflaust talið að hugmyndir hans myndu falla í kramið og íslenska þjóðin með fjallkonuna í broddi fylkinga myndu sameinast um hugmyndir hans og Samfylkingarinnar og gott ef þau myndu ekki henda bandaríska innrásarhernum af Miðnesheiði í leiðinni. Íslenska þjóðin er svo vitlaus að hún skilur ekki að það er best fyrir hana að Eurovisionlagið sé flutt á íslensku og enginn þorir að velta því fyrir sér hvar við værum ef við hefðum ekki gáfumenn eins og Mörð Árnason til að leiðbeina okkur. Þetta er alveg í takt við það sem Samfylkingin hefur gert frá stofnun þ.e. að koma með misvitrar hugmyndir um hvað sé best fyrir þjóðina. Síðan kemur hún alveg af fjöllum þegar að kjósendur taka ekki vel í hugmyndirnar og skiptir að lokum um stefnu til að þóknast fjöldanum. Enda dró Mörður tillögu sína til baka þegar hann sá að hún myndi ekki auka hans pólítíska frama eða stuðla að framgangi Samfylkingarinnar. Það er hins vegar alltaf gott að vera vitur eftir á eins og Össur Skarphéðinsson sem ekki gat stillt sig um að segja í Silfri Egils í dag að hann teldi að íslenska lagið hefði fengið mun fleiri stig ef það hefði verið flutt á íslensku. Vonandi lætur íslenka þjóðin þetta sér að kenningu verða og hlýðir næst þegar Mörður og Össur ákveða eitthvað fyrir okkur enda er það hlutverk stjórnmálamanna eins og þeirra að hafa vit fyrir okkur sauðsvörtum almúganum.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.