Öflugur þjóðbanki?

„Í miðborg höfuðborgarinnar, rís tilkomumikill turn stærsta banka landsins hátt yfir byggingarnar í kring…“

„Í miðborg höfuðborgarinnar, rís tilkomumikill turn stærsta banka landsins hátt yfir byggingarnar í kring. Eins og venja er um allan heim er bankinn í eigu ríkisins. Eins og flestir slíkir bankar á hann í miklum fjárhagserfiðleikum. Margir af stærstu skuldunautum bankans eru í vanskilum, og margir þeirra eru flæktir í alvarleg hneykslismál. Einn þeirra til dæmis, sem átti víst að vera kvikmyndaframleiðandi, er í vanskilum með gríðarhátt lán og hefur þar að auki verið sakfeldur fyrir glæpsamlegt athæfi í Bandaríkjunum, svikist undan tryggingu og horfið sporlaust. Annar stór skuldunautur kastaði sér í sjóinn og drukknaði eftir að alvarleg svik komust upp innan eins af fyrirtækjum hans. Báðir þessir viðskiptavinir bankans voru tengdir valdhafandi stjórnmálaflokki landsins þegar lán þeirra voru veitt. Uppsafnað tap bankans er 30 milljarðar Bandaríkjadala. Þrátt fyrir að mikið af þessu tapi skýrist af slakri áhættustjórnun á meðan bankinn freistaði þess að verða stærsti banki í sinni heimsálfu á stór hluti rætur sínar að rekja til svika.

„Tilraunir bankans til þess að rétta við fjárhag sinn hafa ekki gengið eftir. Bankinn átti stóran hlut í einu af arðvænlegustu fyrirtækjum landsins. En þegar stjórnendur bankans reyndu að selja hlutinn hæstbjóðanda, tók ríkisstjórnin fram fyrir hendurnar á þeim og gerði þeim að selja hlutinn til handa stofnanda fyrirtækisins á einn fjórða af markaðsvirði hlutarins. Stofnandinn reyndist vera náinn vinur forseta landsins.

„Hvar er þessi banki? Hann heitir Crédit Lyonnais og er í Frakklandi. Hann hefur tapað 30 milljörðum Bandaríkjadala við það að reyna að verða stærsti banki Evrópu. En þessi banki gæti verið nánast hvar sem er í heiminum. Svipaðar sögur má segja af ríkisreknum bönkum í tugum annarra landa í Vestur- og Austur-Evrópu, Suður-Ameríku og Asíu.”

Með þessari dæmisögu (sem birtist hér í þýðingu undirritaðs) hefst bókin Grabbing Hand: Government Pathologies and Their Cures eftir hagfræðingana Andrei Shleifer og Robert Vishny. Mér þótti viðeigandi að leyfa lesendum Deiglunnar að njóta þessarar dæmisögu (sem er vitaskuld sönn) í tilefni af því að Vinstrigrænir lögðust í síðustu viku gegn sölu ríkisbankanna og töluðu fyrir því að öflugur þjóðbanki í eigu ríkisins yrði þess í stað starfræktur hér á landi.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.