Íþróttastjörnur á glapstigum

Eins og flestir íþróttaáhugamenn vita standa nú yfir í Bandaríkjunum réttarhöld yfir Kobe Bryant leikmanni Los Angeles Lakers. Bryant er sakaður um að hafa nauðgað unglingsstúlku á hótelherbergi en leikmaðurinn neitar sök. Um síðustu helgi bárust svo skelfilegar fréttir frá Bretlandi af nokkrum úrvalsdeildarleikmönnum í knattspyrnu sem eru sakaðir um hópnauðgun.

Eins og flestir íþróttaáhugamenn vita standa nú yfir í Bandaríkjunum réttarhöld yfir Kobe Bryant leikmanni Los Angeles Lakers. Bryant er sakaður um að hafa nauðgað unglingsstúlku á hótelherbergi en leikmaðurinn neitar sök. Um síðustu helgi bárust svo skelfilegar fréttir frá Bretlandi af nokkrum úrvalsdeildarleikmönnum í knattspyrnu sem eru sakaðir um hópnauðgun.

Kobe Bryant er líklega einn allra vinsælasti leikmaður NBA deildarinnar í körfuknattleik og að margra mati sá besti. Hann er þekktur um gjörvöll Bandaríkin og víðar og átrúnaðargoð margra. Krakkar reyna að apa eftir honum á leikvellinum og unglingsstúlkur girnast hann á öðrum forsendum. Fyrr í sumar sakaði ung stúlka hann um nauðgun eftir að hann bauð henni upp á hótelherbergi með sér.

Hafa ber í huga að maður telst saklaus þar til sekt hans er sönnuð og þangað til annað kemur í ljós er Kobe saklaus. Því miður er hægt að ímynda sér, og dæmi eru til um slíkt, að óprúttnir aðilar reyni að hafa íþróttastjörnur, kvikmyndaleikara eða tónlistarmenn að féþúfu með upplognum ásökunum. Má þar benda á ásakanir á hendur Michael Jackson um kynferðislega misnotkun sem hann staðfastlega neitaði en ákvað engu að síður að greiða töluverða upphæð til að ljúka málinu. Máli Bryants er ekki lokið og þar til dómstólar hafa kveðið upp úrskurð er óþarfi að vera með sleggjudóma og ýja að e-u sem ef til vill enginn fótur er fyrir. Öllu flóknara er málið á Englandi. Afar erfitt er að ímynda sér að e-r reyni að koma sér í sviðsljósið eða græða peninga með ásökunum um hópnauðgun knattspyrnumanna, mun erfiðara mál en ef um einn aðila væri að ræða.

Í ljósi mikilla vinsælda íþrótta og íþróttamannanna sjálfra, sem margir hverjir lifa eins og kvikmyndastjörnur og hafa sama stjörnuglampann yfir sér, eru þeir fyrirmyndir og átrúnaðargoð margra krakka. Þeir verða sem slíkir að setja gott fordæmi og varast að komast í sviðsljósið á röngum forsendum. Um síðustu helgi bárust mjög neikvæðar fréttir af knattspyrnumönnum í Englandi, ung stúlka sakaði sjö eða átta leikmenn úrvalsdeildarliða í knattspyrnu um hópnauðgun. Lögreglan í Bretlandi hefur varist allra frétta af málinu meðan hún rannsakar það og enn er á huldu hvaða leikmenn áttu hlut að máli.

Hér er um að ræða mjög alvarlegt mál og ef satt reynist er stúlkan fórnarlamb óafsakanlegs glæps þar sem gerendur hafa ef til vill ofmetið eigin aðdráttarafl og stjörnufans á kostnað saklausrar persónu. Verði umræddir leikmenn fundnir sekir um glæp af breskum dómstólum ætti enska knattspyrnusambandið að fella eigin dóm. Þessir leikmenn ættu að fá ævilangt keppnisbann. Þessi hegðun er óafsakanleg og setur smánarblett á íþróttina og það væri engum greiði gerður með því að leyfa þeim að sparka í bolta aftur. Það verður að setja skýrt fordæmi um að svona hegðun sem og hver önnur glæpsamleg hegðun sé ekki liðin innan íþróttarinnar, hvorki af leikmönnum, stjórnendum eða áhangendum. Þó verður að fara varlega í sakirnar og forðast það að leikmennirnir verði gerðir að “fórnarlömbum” knattspyrnusambandsins því þeir eru svo sannarlega ekki hið rétta fórnarlamb í málinu.

Að lokum vil ég leggja til að Arsenal verði lagt í eyði á Anfield á eftir!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)