Stjörnuleit

Idol sönghæfileikakeppni, eða stjörnuleit er hafin á Íslandi. Velgengni stjörnuleitar og samnefndra sjónvarpsþátta, hefur verið við það sama í hverju því landi sem leitin hefur verið farið fram í og alls staðar slegið rækilega í gegn. Eitthvað við uppskriftina virðist óbrigðult til að heilla og draga fólk að skjánum.

Idol sönghæfileikakeppnin, eða stjörnuleit eins og hún hefur verið kölluð upp á íslensku, hóf göngu sína í Bandaríkjunum árið 2002. Leitin, eða öllu heldur sjónvarpsþættirnir sem gerðir voru um leitina urðu á skömmum tíma með allra vinsælasta sjónvarpsefni þar í landi. Velgengni stjörnuleitar og þáttanna, sem flokka má undir raunveruleikasjónvarp, hefur verið við það sama í hverju því landi sem leitin hefur verið gerð í og alls staðar slegið rækilega í gegn. Eitthvað við uppskriftina virðist óbrigðult til að heilla og draga fólk að skjánum.

Þátturinn gengur í stuttu máli út á það að finna hæfileikaríkan einstakling, söngvara og stjörnuefni, og gera úr viðkomandi sannkallaða poppstjörnu. Sá sem ber sigur úr býtum fær síðan m.a. að launum plötusamning, en viðkomandi hefur þá í gegnum ferlið auðvitað fengið þá klössun og kynningu sem til þarf til að sómasamleg stjarna geti fæðst og notið frægðarljóma á Íslandi.

Leið sigurvegara að enda regnbogans er þó nokkuð löng og ströng, enda eru óhemjumargir sem skrá sig að jafnaði til leiks í byrjun. Hér á landi hófst keppnin í lok ágústmánaðar, þegar um 1000 manns, hvaðanæva af landinu, þreyttu inntökupróf og fengu sitt tækifæri til að reyna að heilla dómarana, sem allir eru einmitt þekkt og reynd andlit úr tónlistarbransanum. Smám saman detta þeir síðan út sem ekki hljóta náð fyrir ‚eyrum’ dómaranna, og að lokum standa um 32 manns eftir, sem að komast til þess að fara upp á sviðið í Smáralind með hljómsveit á bak við sig. Þá fyrst hefst keppnin fyrir alvöru.

Í þáttunum tveimur sem þegar hafa verið sýndir á Stöð 2, hefur verið fylgst með útslættinum frá byrjun, og getur pistlahöfundur, sem bæði er áhugamanneskja um söng og aðdáandi Idolþáttanna bandarísku, ekki annað en látið vel af íslensku útgáfunni. Að minnsta kosti gefa fyrstu tónarnir tilefni til konunglegrar skemmtunar í framhaldi.

Hafandi fylgst með hinni bandarísku Idolstjörnuleit, sem var á köflum, alveg sérstaklega bandarísk (skilgr. tilfinningaþrungin og dramatísk), hafði pistlahöfundur nefnilega stórkostlegar efasemdir um að uppskriftin góða myndi ganga í spéhrædda Íslendinga. Áhyggjurnar hafa að minnsta kosti ennþá reynst tilefnislausar, því fjöldinn sem skráði sig til leiks fór langt fram úr vonum aðstandenda. Til að toppa lukkuna virðast íslenskir keppendur heldur ekki eiga í nokkrum vandræðum með að detta í gír dramatíkur, í gleði eða sorg allt eftir viðbrögðum dómara, og vera blátt áfram og bandarísk framan í myndavélina. Ekki skemmir síðan fyrir að þónokkrir virðast raunverulega geta sungið, þó svo að hinir sem það ekki geta séu jafnframt hin besta skemmtun. Þegar öllu er á botninn hvolft, lítur út fyrir að til staðar sé allt sem þarf til að skapa glimrandi skemmtun samkvæmt uppskriftinni góðu.

En hvað er það sem að dregur að skjánum?

Dreymir okkur kannski bara öll um að verða fræg? Eða dáumst við ef til vill óendanlega að hugrekki eða fífldirfsku þeirra sem láta vaða? Finnast okkur kannski gagnrýnin tilmæli og hnyttnar athugasemdir dómaranna fyndnar? Eða gefur þátturinn ef til vill svona greinilega innsýn í hugarheim verðandi stjörnu, sigra hennar og ósigra á sviði að svo fer að lokum að nýstirninu er samglaðst með breiðu brosi og sannfæringu um að með samviskusamlegu áhorfi og þáttöku í símakosningu hafirðu átt þátt í að skapa stjörnu. Spurning.

Hvar svo sem töfrarnir liggja, er ljóst að ef að stjörnuleitin heldur fluginu verða Idolteitlur haldnar um víðan völl á föstudagskvöldum í vetur.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.