Siðferði manna: Ræðst það af rökum eða reiði?

siðfræðiNýlegar rannsóknir sem birtar eru í vísindatímaritinu Science varpa athyglisverðu ljósi á það hvort afstaða fólks til siðferðilegra álitaefna ræðst af rökhyggju eða tilfinningum. Svo virðist sem fólk láti tilfinningarnar stundum hlaupa með sig í gönur.

siðfræðiHvernig tekur fólk afstöðu til siðferðilegra álitaefna? Veltir fólk slíkum álitaefnum fyrir sér og reynir að komast að því hvað sé rökrétt að gera eða fer afstaða fólks eftir tilfinningu þess fyrir því hvað sé rétt og hvað rangt. Nýlegar rannsóknir sem birtar eru í vísindatímaritinu Science varpa athyglisverðu nýju ljósi á þessa spurningu. (Greinin er aðgengileg hér.)

Vísindamenn við Princeton háskóla og Pittsburgh háskóla gerðu tilraun þar sem þeir spurðu fólk hvernig það myndi bregðast við ef það stæði frammi fyrir siðferðilegum álitaefnum. Vísindamennirnir skrásettu svör fólksins en framkvæmdu þar að auki mælingar á því hvaða heilastöðvar fóru í gang á meðan fólkið var að hugsa um hverju það ætti að svara.

Fyrsta álitaefnið var eftirfarandi: Lest keyrir stjórnlaust eftir teinum og stefnir á fimm manns. Ef ekkert er að gert mun lestin keyra á fólkið og það mun deyja. Það eina sem getur bjargað fólkinu er ef rofa er snúið sem gerir það að verkum að lestin beygir yfir á aðra teina þar sem einn maður stendur. Ef rofanum er snúið mun þessi eini deyja en ekki hinir fimm. Ættir þú að snúa rofanum?

Helmingur þeirra sem tóku þátt í tilrauninni vour spurðir þessarar spurningar og flestir aðspurðra svöruðu að þeir myndu snúa rofanum.

Hinn helmingurinn var hins vegar spurður út í annað skylt álitaefni: Lest keyrir stjórnlaust eftir teinum og stefnir á fimm manns. Ef ekkert er að gert mun lestin keyra á fólkið og það mun deyja. Þú stendur við teinana og við hlið þér stendur maður. Það eina sem getur bjargað fólkinu á teinunum er ef þú ýtir manninum sem stendur við hlið þér út á teinana í veg fyrir lestina. Við þetta mun maðurinn deyja en lestin mun stöðvast áður en hún lendir á hinu fólkinu. Ættir þú að ýta manninum út á teinana.

Flestir aðspurðra svara þessari spurningu neitandi.

Frá siðferðilegu sjónarmiði er munurinn á afstöðu fólks til þessara álitaefna einkennilegur. Í báðum tilvikum eru afleiðingarnar þær sömu. Af hverju er afstaða fólks svona mismunandi? Heimspekingar hafa velt þessu fyrir sér lengi og hafa átt erfitt með að finna siðfræðireglur sem geta með góðu móti skýrt þennan mun.

Það athyglisverða sem kom í ljós í umræddri tilraun var að þegar fyrra álitaefnið var borið undir fólk fóru heilastöðvar sem hafa með rökhugsun að gera í gang. En þegar síðara álitaefnið var borið undir fólk fóru hins vegar heilastöðvar sem hafa með tilfinningar í gang. Svo virðist sem sú tilfinningalega streita sem það hefur í för með sér að þurfa að ýta einhverjum út á járnbrautarteina hafi borið rökhugsun fólks yfirliði í síðara dæminu.

Niðurstöður tilraunarinnar benda því til þess að afstaða manna til siðfræðilegra álitaefna ráðist ekki einvörðungu af rökleiðslu frá siðfræðilegum frumreglum heldur einnig af ósjálfráðum tilfinningaviðbrögðum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.