Ert þú réttkynhneigður?

Ýmsum brygði í brún ef tekið yrði upp á því að fjalla um gagnkynheigð og samkynhneigð með orðunum réttkynhneigð og svo rangkynhneigð (eða örvkynhneigð). Enda þykir nú sem betur fer smekklaust að gagnrýna þá sem hneigjast til sama kyns. En ansi margir halda að það hafi tekist að hleypa samkynhneigðum einum inn í musteri réttlætingarinnar, en skella hurðinni á nefið á þeim sem stunda aðra óhefðbundna kynhegðun. Þeir hafa rangt fyrir sér.

Ýmsum brygði í brún ef tekið yrði upp á því að fjalla um gagnkynheigð og samkynhneigð með orðunum réttkynhneigð og svo rangkynhneigð (eða örvkynhneigð). Enda er þykir nú sem betur fer smekklaust að gagnrýna þá sem hneigjast til sama kyns. En ansi margir halda að það hafi tekist að hleypa samkynhneigðum einum inn í musteri réttlætingarinnar, en skella hurðinni á nefið á þeim sem stunda aðra óhefðbundna kynhegðun. Þeir hafa rangt fyrir sér.

Ýmsir kunna þegar að hafa staldrað við orðasambandið „óhefðbundin kynhegðun“ þegar vísað er til þess sem oft er kallað „afbrigðileg kynhegðun“. Þar er átt við kynhegðun svo sem sýniþörf, gægjufíkn, kvalalosta, bindingar, munalosta, hópkynlíf og fleira. Víst er að mörgum þyki fullgott að nota orðið afbrigðilegt um þessar langanir, en jafnvíst er að fyrir 30 árum þótti líka fullgott að nota orð eins og „kynvillu“ eða „öfuguggahátt“ um samkynhneigð, og „sjálfsflekkun“ eða „sjálfssaurgun“ um sjálfsfróun (Ensk-íslensk orðabók Ísafoldar, 1972).

Það er af ýmsu að taka þegar rætt er um kynhegðun. Meðal þeirra hugtaka sem fólk grípur til þegar lýsa skal æskilegri hegðun eru orð eins og geðslegt, eðlilegt, Guði þóknanlegt, löglegt, fallegt, náttúrulegt, og svo auðvitað rétt. Þessi hugtök eru misgagnleg, og því miður er þeim oft ruglað saman.

Það er til dæmis ljóst að fátt myndi teljast „náttúrulegt“ í kynlífi annað en trúboðastellingin án getnaðarvarna. Sumir halda því líka fram að slíkt kynlíf sé það eina sem sé „Guði þóknanleg“, á meðan aðrir telja sig vita að guð samþykki aðra kynhegðun, til dæmis samkynhneigð. „Eðlilegt“ er það sem almennt er stundað í tilteknu samfélagi á tilteknum tíma. Slík hegðun er svo í flestum tilfellum leidd í lög (eða lög sem banna hana afnumin), svo hún verður „lögleg“. Í sumum tilfellum getur þó eðlileg og almennt stunduð hegðun verið bönnuð til lengri tíma, þótt þeim lögum sé ekki framfylgt.

Hugtakið „geðslegt“ er enn sjálfmiðaðra en framangreind hugtök, og fer tilfinning hvers einstaklings alfarið eftir uppeldi og innrætingu hans. Sem dæmi má nefna að á Íslandi í dag er til þónokkuð af fólki sem finnst „ógeðslegt“ að sjá tvo einstaklinga af sama kyni kyssast, einfaldlega vegna þess að það var alið upp við það að slíkt væri röng hegðun. Sumir túlka þessa ógeðstilfinningu á versta hátt og telja sig geta leitt af tilfinningunni að samkynhneigð sé röng. Sennilega eru þó fleiri sem gera sér grein fyrir því að þeirra tilfinning er afleiðing gamaldags hugsunarháttar, og reyna að breyta þeirri tilfinningu.

Hugtakið „rétt“ (í skilningnum siðferðislega rétt) er svo af þveröfugum meiði runnið. Flestir hallast að því að ekki sé bara hægt að halda því fram að eitt sé rétt og annað sé rangt án þess að rökstyðja það með einhverjum hætti. Því hafa siðfræðingar eytt miklum tíma í að reyna að finna einhvers konar frumreglur sem nota má til að rökstyðja hvort tiltekin hegðun eða aðgerðir séu réttar eða rangar.

Því miður er sú leit ekki á enda, en nokkur siðferðisleg kerfi eru til sem uppfylla þau skilyrði að frumreglur þeirra eru ekki í mótsögn hver við aðra, og af þeim leiðir hegðun sem hægt er að samrýma hugmyndum fólks um það sem er gott og rétt. Gullna reglan, „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“ er ein af slíkum frumreglum. Önnur er sú sem hægrimenn miða oft við, og segir að sérhver maður hafi rétt til að fara sínu fram, svo lengi sem slíkt stangast ekki á við rétt annarra. Sú þriðja segir að sérhver maður skuli í sérhverjum aðstæðum leitast við að gera það sem hámarkar hamingju heimsins. Þessar reglur leiða ekki til sömu niðurstöðu í öllum tilfellum, en eitt eiga þær þó allar sameiginlegt:

Af öllum þessum grunnreglum leiðir að kynhegðun sem stunduð er með upplýstu samþykki allra aðila er siðferðislega rétt, hvort sem um er að ræða einn, tvo eða fleiri einstaklinga, af hvaða kyni sem þeir eru, og sama hvað kynhegðunin kallast.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)