Lykilhlutverk Sameinuðu þjóðanna í Írak

IraqUn.jpgBandaríkjamenn og Bretar hafa varið miklum fjármunum í tilraunum sínum til þess að koma ró á í Írak en eru nú að verða uppiskroppa með fjármagn og úrræði. Því hefur bandalagið leitað til Sameinuðu þjóðanna um stuðning og hvetur aðrar þjóðir til að taka þátt í uppbyggingunni með því að senda hersveitir til Írak í friðargæslu.

IraqUn.jpgÞó að rúmlega fimm mánuðir séu liðnir frá því að bandalag hinna staðföstu þjóða frelsuðu Íraka undan hæl harðstjórans Saddams Husseins eru enn ekki komnar vísbendingar um að stöðugleiki geti ríkt í Miðausturlöndum. Bandaríkjamenn og Bretar hafa varið miklum fjármunum í tilraunum sínum til þess að koma ró á í Írak en eru nú að verða uppiskroppa með fjármagn og úrræði. Því hefur bandalagið leitað til Sameinuðu þjóðanna um stuðning og hvetur aðrar þjóðir til að taka þátt í uppbyggingunni með því að senda hersveitir til Írak í friðargæslu.

Skemmst er að minnast mikilla deilna innan Sameinuðu þjóðanna um hvort ráðast ætti inn í Írak og andstöðu leiðtoga stærstu Evrópuþjóðanna Þýskalands og Frakklands við innrásina. Þegar Bandaríkjamenn virtu ákvarðanir stofnananna að vettugi og hófu innrás með stuðningsmönnum sínum þótti mönnum sýnt að Sameinuðu þjóðirnar og Atlandshafsbandalagið hefði misst tilgang sinn og tilverurétt.

En málið var ekki svo einfalt. Vissulega voru hernaðarlegir yfirburðir Bandaríkjamanna nógu miklir til að ráðast inn í Írak án stuðnings Sameinuðu þjóðanna en eins og kom á daginn var það ekki nóg. Viðvaranir nokkurra Evrópuþjóða um að aðgerðin þyrfti að vera rökstudd pólitískum rökum voru ekki gripnar úr lausu lofti og nú er svo komið að erfiðlega reynist að sameina þjóðir heims um uppbyggingu Íraks.

Stuðningur Evrópuþjóðanna dugir þó skammt. Gera má ráð fyrir að Þýskaland og Frakkland geti í mesta lagi lagt um 10-15 þúsund hermenn til uppbyggingarstarfs og Bretland er á sínum ystu þolmörkum með um 10 þúsund hermenn í Írak. Þess má geta að um 140 þúsund bandarískir hermenn eru nú í landinu.

Hægt væri að leita til þjóða sem eiga auðveldara með að skilja staðhætti og eiga auðveldara með að aðlagast aðstæðum. Hafa menn t.d. lagt til að fá þjóðir eins og Indland, Tyrkland, Pakistan og Egyptaland til að taka þátt í friðargæslu í Írak en þær þjóðir hafa hins vegar neitað að taka nokkurn þátt nema að ályktun úr öryggisráði Sameinuðu þjóðanna komi til.

Bandaríkjamenn og Bretar gætu einnig þurft að fá stuðning Sameinuðu þjóðanna á öðrum sviðum. Ef að olíuauðæfi Íraka eiga að nýtast í uppbyggingu landsins er nauðsynlegt að hafa traust alþjóðasamfélagsins. Þær þjóðir sem taka þátt í viðskiptum með olíu frá Írak verða að vera vissar um að ágóði þeirra nýtist Írökum. Slíkt traust gæti verið byggt upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem jafnframt gætu fylgst með olíusölunni. Grunur um innrás í Írak hafi þjónað hagsmunum Bandaríkjamanna í olíumálum gæti flækt slík viðskipti mikið.

Þróun atburðarásarinnar í kring um Íraksstríðið hefur sýnt að Sameinuðu þjóðirnar eru fjarri því að vera úr sér gengnar. Þvert á móti er ljóst að uppbygging Íraks er að miklu leyti undir því komin að Sameinuðu þjóðirnar taki af skarið og sátt ríki um næstu skref. Án slíkrar sáttar er næsta víst að nauðsynlegur stöðugleiki á svæðinu mun ekki nást.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.