Sjö feitar kýr

Nú í þessari viku gaf greiningadeild Landsbankans út nýja hagspá undir heitinu „Meiri vöxtur – minni þensla?” Í þessari spá, sem nær fram til ársins 2010, er gert ráð fyrir góðum hagvexti á tímabilinu og í raun mun betri en opinberar spár höfðu gert ráð fyrir.

Nú í þessari viku gaf greiningadeild Landsbankans út nýja hagspá undir heitinu „Meiri vöxtur – minni þennsla?” Í þessari spá, sem nær fram til ársins 2010, er gert ráð fyrir góðum hagvexti á tímabilinu og í raun mun betri en opinberar spár höfðu gert ráð fyrir. Fram kemur að væntarlegt hagvaxtarskeið verði keimlíkt því síðasta sem varði frá 1996-2000, þ.e. mikill hagvöxtur í nokkur ár sem endi snögglega.

Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir 4,2% hagvexti á þessu ári en Seðlabankinn hafði í sinni spá reiknað með 2¾% vexti. Munurinn fellst fyrst og fremst í því að Landsbankinn reiknar með mun meiri einkaneyslu en Seðlabankinn. Á næstu árum, 2003-2006 er svo áætlað að árlegur hagvöxtur verði um 5½% og er það fyrst og fremst vegna stóriðju. Eftir 2006 dregur úr stóriðjuframkvæmdum og er þá útlit fyrir samdrátt í landsframleiðslu. Umfang þessara framkvæmda er gríðarlega mikið á íslenskan mælikvarða þar sem gert er ráð fyrir að það sé um 200 milljarðar króna. Þessi upphæð svarar til um 23% af áætlaðri landsframleiðslu á árunum sem uppbyggingin stendur yfir.

Ekki er gert ráð fyrir að efnahagssveiflan sem nú er að hefjast einkennist af jafn mikilli þenslu og reyndin varð síðast. Á árunum 1995-96 var hagkerfið að taka við sér eftir áralanga stöðnun og því var töluverð uppsöfnuð fjárfestingar- og neysluþörf fyrir hendi sem ekki er nú. Einnig er mun meiri slaki á vinnumarkaði.

Í kjölfar þessarar spár hefur verið rifjuð upp frásögnin úr Fyrstu Mósebók Gamla testamentsins, 41. kapítula þar sem segir af draumförum Faraósins og hvernig Jósef réði þá:

„Faraó sagði við Jósef: Mig dreymdi að ég stæði á árbakkanum. Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, feitar á hold og fallegar útlits, og fóru að bíta sefgrasið. Og sjá, á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, renglulegar og mjög ljótar útlits og magrar á hold. Hefi ég engar séð jafn ljótar í öllu Egyptalandi. Og hinar mögru og ljótu kýrnar átu sjö fyrri feitu kýrnar.”

Jósef réði þennan draum á þann veg að hinar fyrri sjö kýr boðuðu sjö nægtarsöm ár, en seinni sjö boðuðu sjö hallærisár. Faraó brá þá á það ráð að safna vistum á góðu árunum sem nýtast ætti á hinum mögru.

Mörgum þykir ákveðin líking vera með þessari frásögn úr Bilíunni og hinni sjö ára hagvaxtaspá Landsbankans. Eðlilegt er að gera kröfur til yfirvalda um að vel sé haldið á málum, líkt og Faraóinn reyndi að gera í frásögninni hér að ofan, og því afstýrt að allt fari fjandans til í næstu niðursveiflu.

Reyndar er það svo að stjórnun efnahagsmála er í góðum höndum og er ástandið til að mynda mun betra núna en það var við lok síðustu niðursveiflu, sem varði mun lengur. Þokkalegt jafnvægi ríkir á flestum sviðum í hagkerfinu um þessar mundir. Viðskiptahalli er lítill, verðbólga er viðunandi og raungengi krónunnar er í góðu jafnvægi. Ríkisfjármál eru í betri horfum hér á landi en víðast hvar annars staðar. Á undanförnum árum hefur tekist að greiða niður skuldir ríkissjóðs með afgangi af rekstri ríkissjóðs og tekjum vegna einkavæðingar. Nú er svo komið að skuldir ríkissjóðs eru rétt um 19% af landsframleiðslu sem er í lægri kantinum meðal OECD ríkja.

En íslensk heimili eru verulega skuldsett miðað við það sem gerist í öðrum löndum. Á þessu ári er áætlað að skuldir heimilanna nemi tæplega 106% af landsframleiðslu. Íslendingar virðast enn vera brenndir af verðbólgubálinu sem hér brann áratugum saman þar sem fólk kepptist við að eyða því sem það aflaði í neyslu og steinsteypu, þar sem sparnaður borgaði sig engan veginn. Nú hefur bál óðaverðbólgunar verið slökkt og spá Landsbankans gerir ráð fyrir áframhaldandi jafnvægi verðólgunar á næstu árum, á bilinu 2½-3%.

Sparnaður og ráðdeild er dyggð sem við verðum öll að fara að temja okkur, því þó vissulega hvíli mikil ábyrgð þeim sem fara með hagstjórn, þá er hún engu minni hjá okkur einstaklingunum í landinu.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.