Vonbrigðin í Cancun

fruits.jpgÞað fór illa í Cancun. Samningaviðræður um umbreytingar á kerfi alþjóðaviðskipta leystust upp án þess að hnikað hefði í samkomulagsátt og nú er óhætt að segja að svartýni, fremur en bjartsýni, sé ríkjandi varðandi framvindu Doha-ferlisins svokallaða. Þetta er áfall fyrir allar þjóðir heims.

fruits.jpgFátt er óumdeilt í heimi hagfræðinnar. Eitt er það þó sem engum bærilegum hagfræðingi dytti í hug að mótmæla; frjáls og óhindruð viðskipt gagnast öllum. Þrátt fyrir að bæði fræðin og dæmin sanni gildi þessarar kenningar virðist sem leiðtogum þjóða heims reynist ótrúlega erfitt að hrinda aðgerðum í þessa átt í framkvæmd. Sagt hefur verið um frjálsa verslun að hún sé eins og himnaríki; það vilji allir komast þangað – bara ekki alveg strax.

Ástæður fyrir þeirri tilhneigingu þjóðríkja til þess að setja upp tollamúra og hamla með öðrum hætti innflutning vöru frá útlöndum má rekja til löngu úreltrar hagspeki sem kallast kaupskaparstefna. Samkvæmt henni áttu þjóðríki að róa öllum árum að því að byggja upp sem stærstan forða af gulli og gjaldeyri og leiðin að því marki er vitaskuld sú að gera allt sem hægt er til þess að flytja vörur út; en flytja sem minnst inn í staðinn. Þessi hagspeki er í dag álitin ámóta gagnleg og jarðmiðjukenningin í stjörnufræði. Hún er einfaldlega röng.

En rök kaupskaparstefnunnar heyrast enn víða – og við þau rök hefur bæst fjöldinn allur af ad hoc rökum sem notuð eru til þess að réttlæta það að jafnvel þróuðustu og ríkustu þjóðir heims standi enn vörð um það úrelda sjónarmið að drifhjól hagkerfisins snúist betur eftir því sem neytendur kaupi minna af innfluttum vörum. “Veljum íslenskt,” er okkur sagt; og því er haldið fram að íslenskt grænmeti sé það “besta í heimi.” (Gæði íslenska grænmetisins má staðfesta með því að skoða eftirspurn eftir því t.d. á mörkuðum í Suður – Evrópu, þar sem, samkvæmt auglýsingunni, grænmetið er verra).

Alheimsviðskiptastofnunin (WTO) hefur það hlutverk og markmið að stuðla að því að viðskipti heimshluta á milli verði frjálsari og opnari. Þetta er öllum jarðarbúum til góðs. En það er auðvitað svo með WTO, eins og aðrar alþjóðastofnanir, að það eru aðildarríkin sem ráða stefnunni – og því miður virðast mörg þeirra vera ákaflega skammsýnar í mati sínu á hvað sé heppilegast fyrir þeirra lönd.

Ástæðurnar fyrir því að samningaviðræður í Cancun leystust upp eru fjölmargar. Helsta ástæðan er þó vitaskuld sú óskiljanlega þvermóðska evrópskra, japanskra og bandarískra samningamanna að neita að gera róttækar breytingar á tolla- og niðurgreiðslukerfum í hinum óarðbæra og fokdýra landbúnaði Vesturlanda og Japan. Talið er að landbúnaðarniðurgreiðsur þessara ríkja nema um einum milljarði bandaríkjadala á degi hverjum og benti James Wolfeson, forstjóri Alþjóðabankans, nýverið á það í blaðagrein að samtals nemi niðurgreiðslur Vesturlanda til innlendrar framleiðslu hærri upphæð en sem nemur allri þjóðarframleiðslu Afríku.

Að auki felst gríðarlega mikill óbeinn kostnaður í þessari glópastefnu iðnríkjanna því neytendur gjalda ekki aðeins fyrir fláræðið með hærri sköttum; heldur þurfa þeir einnig að greiða hærra verð fyrir verri landbúnaðarvörur (nema náttúrlega þeir sem geta keypt heimsins besta grænmeti á Íslandi).

Í Cancun tókst að mynda bandalag meðal þeirra ríkja sem ríkasta hagsmuni eiga að því að landbúnaðarstefnu iðnríkjanna verði bylt. Þessi ríki hafa ákveðið að gera ágreining um frelsi til fjármagnsflutninga og fjárfestinga í þróunarríkjunum þar til niðurstaða fæst í landbúnaðarmálunum. Þetta er góð þróun því með samstöðu fátækari ríkja er líklegt að þrýstingur aukist á stjórnvöld í iðnríkjunum að komast að samkomulagi sem felur í sér bæði hag iðnríkjanna og hag fátæku landanna. Sú niðurstaða er vitaskuld sú að frelsi ríki bæði á vöru- og fjármagnsmarkaði.

Þáttur Íslands í þessum viðræðum er að venju snautlegur. Við skipum okkur ávallt í flokk þeirra ríkja sem hvað mest vilja á sig leggja til þess að koma í veg fyrir að fátæk ríki fái aðgang að hinum fjársterku neytendum Vesturlanda.

Þessari stefnu verður að breyta jafnvel þótt það hafi að líkindum í för með sér verulega röskun á högum bænda. Í því sambandi er rétt að benda á ábyrgar og vel útfærðar tillögur Frjálshyggjufélagsins, sem leggur til að bændur fái skuldabréf frá ríkinu upp á núvirt verðmæti framleiðslustyrkja sinna (eina stóra upphæð sem er jafnhá og allir þeir styrkir sem þeir eiga von á miðað við núverandi kerfi ef það yrði óbreytt), en gegn því hætti ríkið algjörlega að niðurgreiða þennan atvinnuveg. Þá gætu grænmetisbændur t.d. tekið ákvörðun um hvort þeir treysti sér í alþjóðlega samkeppni um framleiðslu á “besta grænmeti í heimi” við ríki Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Ef þeir vilja það ekki þá hafa þeir nægt fjármagn í höndunum til að snúa sér að öðrum verkefnum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.