Almenningssamgöngur í Reykjavík – Er léttlestarkerfi lausnin?

Samgöngunefnd Reykjavíkur hefur víst pakkað niður í ferðatöskur enda ætlar hún í vettvangsferð út fyrir landsteinana að skoða almenningssamgöngur í evrópskum borgum á stærð við Reykjavík. Eitt af því sem nefndin hyggst leggja sérstaka áherslu á að skoða eru léttlestar enda telur hún grundvöll fyrir rekstri þeirra í Reykjavík.

Samgöngunefnd Reykjavíkur hefur víst pakkað niður í ferðatöskur enda ætlar hún í vettvangsferð út fyrir landsteinana að skoða almenningssamgöngur í evrópskum borgum á stærð við Reykjavík. Eitt af því sem nefndin hyggst leggja sérstaka áherslu á að skoða eru léttlestar enda telur hún grundvöll fyrir rekstri þeirra í Reykjavík.

Árni Þór Sigurðsson formaður samgöngunefndar var í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær og talaði þar um almenningssamgöngur í höfuðborginni. Eins og flestir vita sem hafa nýtt sér þjónustu strætisvagnanna að þá eru þeir alltaf á eftir áætlun og það tekur óratíma að komast milli staða. Árni sagði þó að kerfið væri í gagngerri endurskoðun og að breytingar tæku gildi um mitt næsta ár sem miðuðu að því að byggja á fáum stofnleiðum þar sem tíðni ferða væri mikil og síðan tengingu við þessar stofnæðar inn í úthverfin. Ekki byltingarkennd hugmynd en vonandi að hún skili tilætluðum árangri því óhætt er að segja að almenningssamgöngum í Reykjavík sé verulega ábótavant og ástandið óvíða verra.

Það gæti verið spennandi kostur að koma upp léttlestakerfi í Reykjavík. Í það minnsta á þessum örfáu stofnæðum. Lestarnar ganga fyrir rafmagni og eru því hljóðlátar og menga ekki neitt. Þær ferðast eftir sérstökum teinum og eru því óháðar umferð nema ef vera skyldi á umferðarljósum við gatnamót. Þær ná auk þess um 100 km hraða á klukkustund og ættu því að vera töluvert skilvirkari og fljótari milli staða en strætisvagnar. Gallinn er að sjálfsögðu kostnaðurinn en talið er að hver kílómetri af léttlestarkerfi kosti um einn milljarð króna.

Árni Þór benti á að til samanburðar sé áætlaður kostnaður við mislæg gatnamót Kringumýrarbrautar og Miklubrautur um 10-12 milljarðar fyrir utan tilfallandi kostnað við nærliggjandi gatnamót. Þó Árni hafi ýjað að því, er erfitt að sjá að léttlestarkerfi geti komið í staðinn fyrir mislæg gatnamót á einum umferðarþyngstu gatnamótum höfuðborgarsvæðisins og víðar. Léttlestarkerfi er eflaust möguleg framtíðarlausn til að létta umferðarþungann í höfuðborginni en ljóst er að áhrifa færi ekki að gæta fyrr en að mörgum árum liðnum, jafnvel allt að 10-20 árum. Enn sem komið er, er einkabíllinn einfaldlega auðveldasta og fljótlegasta leiðin til að komast milli staða. Ekki verður séð að breyting verði á því í bráð, jafnvel þó að hugmyndir um léttlestarkerfi verði að veruleika.

Líklega hefur samgöngunefndin nú sem áður litið fram hjá einfaldri leið til að auka eftirspurn eftir almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og þar með gera það kleift að koma á fót hagkvæmu kerfi hvort sem það inniheldur léttlestar eða ekki. Nauðsynleg undirstaða hlýtur að vera frekari þétting byggðar. Það mun aldrei verða hagkvæmt að reka eða nota almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu þegar stefnan er að þenja byggðina út í ystu mörk borgarinnar. Um leið og byggðin verður þéttari breytast forsendur almenningssamgangna verulega, bæði fyrir rekstraraðila og notendur. Það eru miklir möguleikar fyrir þéttingu byggðar í Reykjavík. Augljósasta leiðin er að færa flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Hvernig væri nú að byrja á því áður en hugmyndir um léttlestarkerfi eða aðrar byltingarkenndar leiðir fyrir almenningssamgöngur verða að veruleika?

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)