Hættulegir stjórnmálamenn

Deiglan fjallar um hættulega stjórnmálamenn í ljósi breytinganna á lögum um tóbaksvarnir.

Hér á Deiglunni hefur verið rætt töluvert um ofvirka stjórnmálamenn. Ofvirkir stjórnmálamenn halda að þeir þurfi að hafa afskipti af öllum hlutum og ekkert sé of smátt til að verðskulda lagasetningu. Þegar ofvirkir stjórnmálamenn eru farnir að ganga á og ógna grundvallarréttindum borgaranna með atorku sinni þá eru þeir orðnir hættulegir. Margt bendir til þess að stjórnmálamenn séu nú að færa sig upp á skaftið og tali í auknum mæli fyrir lagasetningu sem ganga á þessi grundvallarréttindi.

Sem dæmi má nefna að fyrir nokkrum árum voru samþykktar heimildir til að setja upp hraðamyndavélar lögreglu sem tóku eingöngu myndir af borgurunum þegar þeir gerðust brotlegir við umferðarlögin. Í kjölfarið voru samþykktar heimildir fyrir uppsetningu eftirlitsmyndavéla lögreglu sem taka myndir af öllum sem kjósa að vera niður í miðbæ, hvort sem þeir eru að brjóta af sér eður ei. Síðan komu eftirlitsmyndavélar í skóla sem tóku myndir af ósjálfráða börnum sem urðu að sæta eftirlitinu þar sem skólaskylda er í landinu. Heimildir til notkunar myndavéla til eftirlits þróuðust sem sagt frá því að taka eingöngu myndir af þeim sem frömdu afbrot í það að hafa eftirlit með öllum til að klófesta einstaka brotamenn. Svona stigmögnun skerðinga á grundvallarréttindum borgaranna er stórhættuleg.

Nýlega voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um tóbaksvarnir. Mikið hefur verið fjallað um nýju lögin og finnst mörgum þau vera full öfgakennd. Mikilvægasta breytingin er í 3. tl. 3. mgr. 7. gr. laganna en þar er hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar tóbaksvörutegundir bönnuð til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra. Til að halda mönnum við efnið er refsiheimild í 19. gr. laganna sem kveður á um að sá sem brýtur gegn ákvæðum greinarinnar skuli sæta sektum en fangelsi allt að tveimur árum séu sakir miklar eða brot ítrekað.

Það er líklegt að þetta bann við fjölmiðlaumfjöllun brjóti í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um tjáningarfrelsi. Tjáningarfrelsi er hluti af grundvallarmannréttindum borgaranna og einn af hornsteinum lýðræðis. Það er verulegt áhyggjuefni ef stjórnmálamenn setja lög sem ganga gegn eða takmarka það grundvallarmannréttindi manna sem tjáningarfrelsið er. Hagsmunirnir af því að banna umfjöllun um tóbak eru miklu minni en hagsmunir borgaranna af því að njóta óhefts tjáningarfrelsis. Þess ber að geta að dómstólar hafa að sjálfsögðu lokaorðið um það hvort ákvæðið brjóti gegn stjórnarskránni.

Hættulegastu stjórnmálamennirnir hljóta að vera þeir sem styðja slíkar skerðingar á grundvallarréttindum og berjast fyrir þeim. Stigmögnun á lagasetningu sem skerðir tjáningarfrelsi virðist vera rétt að hefjast. Í opnu Morgunblaðsins í gær eru breytingunum á tóbakslögunum gerð góð skil og er þar m.a. viðtal við Jónínu Bjartmarz formann heilbrigðis og tryggingarnefndar um breytingarnar. Þar spyr blaðamaður Morgunblaðsins Jónínu að því af hverju þurfi að einskorða þetta við tóbak? Hvað verður bannað að ræða um næst?

Jónína Bjartmarz, formaður heilbrigðis og tryggingarnefndar Alþingis svarar:

“Ég get séð fyrir mér eitthvað svipað varðandi áfengi. Eitthvað álíka. Við vitum að það þarf ekki að annað en að fara inn á netið til að finna heilmikla umfjöllun og rök fyrir lögleiðingu fíkniefna. Og ýmis áróður er þar líka fyrir áfengis og tóbaksneyslu. Við verðum því að spyrna við fótum ef við ætlum að koma í veg fyrir að auglýsingagildið vegi þyngra en það sem lagt er í forvarnir”

Ef einhvern tímann var ástæða til að óttast dugnað stjórnmálamanns þá er það nú. Jónína Bjartmarz boðar með þessu stórfelldustu ritskoðun og atlögu að tjáningarfrelsi í sögu íslenska lýðveldisins. Þingmaðurinn virðist ætla að reyna að banna umfjöllun um áfengi á sama hátt og umfjöllun um tóbak verður bönnuð eftir 1. ágúst næstkomandi þegar breytingarnar á tóbaksvarnarlögum taka gildi. Þingmaðurinn notar einnig tækifærið til að boða innrás á Internetið til að stöðva skoðanaskiptin og tjáninguna sem er þar. Það á sem sagt að stöðva alla umræðu um tóbak, áfengi og fíkniefni.

Þingmaðurinn nefnir lögleiðingu fíkniefna sem eitt dæmi um óæskilegt efni á Internetinu en eins og flestir vita þá hafa margir netmiðlar fjallað um þetta efni sem er pólitískt hitamál út um allan heim. Það að þingmaðurinn vilji ritskoða pólitískt mál er ekki sæmandi í því lýðræðisríki sem við búum í. Það skiptir engu máli í þessu sambandi að meirihluti þjóðarinnar og þingheims er á móti lögleiðingu eiturlyfja. Menn verða að hafa rétt til að tjá skoðanir sínar í lýðræðisþjóðfélagi, sama hvað meirihlutanum finnst um málefnið.

Það vekur athygli að þingmaður skuli sérstaklega taka fram að á Internetinu skuli finnast efni sem hann vill ritskoða. Internetið hefur verið þyrnir í augum þröngsýnna stjórnmálamanna um allan heim vegna þeirrar líflegu og óheftu umræðu sem þar á sér stað. Út um allan heim hafa mannréttinda- og hagsmunafélög barist gegn þessum árásum stjórnmálamanna og víða farið með sigur að hólmi. Því miður er það nú staðreynd að íslenskur stjórnmálamaður vill takmarka skoðanaskiptin á Internetinu. En hvers vegna ætti þingmaðurinn að nema staðar við innlendar heimasíður um lögleiðingu fíkniefna, tóbak og áfengi? Frakkar hafa eftirminnilega bannað erlendar heimasíður sem selja minjagripi frá nasistum. Það hlýtur að vera metnaðarmál fyrir þingmanninn að stöðva alla umfjöllun um þetta efni, hvort sem hún er íslensk eða erlend! Þetta gæti orðið næsta skref hjá þingmanninum eftir að hann er búinn að skerða tjáningarfrelsið og skoðanaskiptin á innlendum heimasíðum og væri í rökréttu framhaldi af því sem á undan er gengið.

Venjulega þegar stjórnmálamenn leggja fram vondar tillögur er hægt að sofa rótt í þeirri vissu að hinir þingmennirnir felli tillöguna. Það sem gefur fulla ástæðu til óttast ummæli Jónína Bjartmarz er sú staðreynd að hún er stjórnarþingmaður, formaður heilbrigðis og tryggingarnefndar og sú staðreynd að þingheimur hefur áður samþykkt möglunarlaust atlögu að tjáningarfrelsinu í breytingunum á tóbaksvarnarlögum.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.