Ber hag kjósenda fyrir brjósti

Konur hafa verið lítt áberandi í kosningaslagnum á Bretlandi undanfarnar vikur. En dúndurfyrirsætan Jordan Price sem er sjálfstæður frambjóðandi í Stretford og Urstrom kjördæmi er engin venjuleg kona.

Konur hafa verið lítt áberandi í kosningaslagnum á Bretlandi undanfarnar vikur. Margrét Thatcher stelur þó senunni í hvert skipti sem hún kemur fram og er lifandi sönnun þess að konur geta náð á toppinn í breskri pólitík hafi þær hæfileikana til þess. Það hefur vakið athygli meðal þeirra sem á annað borð finnst það skipta máli að talsvert færri konur eru í framboði í kosningunum nú en árið 1997 eða alls 631 kona í ár samanborið við 685 konur árið 1997. Konum í breska þinginu á því eftir að fækka talsvert eftir kosningarnar 7. júní n.k. en úr röðum stjórnarliðanna í Verkamannaflokknum hafa sjö þingkonur ákveðið að sækjast ekki eftir þingsæti nú.

Margir vilja trúa því að konur eigi erfitt uppdráttar innan stóru flokkanna og sé jafnvel haldið niðri af körlum. Hvort um er að ræða áhugaleysi meðal breskra kvenna á pólitík eða hvort einhver önnur ástæða er það baki ætla ég ekki að dæma en ef konur á Bretlandi telja að þær séu ekki að uppskera eins og þær sá í stóru flokkunum þá ættu þær etv. að fara að fordæmi dúndurfyrirsætunnar Jordan Price sem er sjálfstæður frambjóðandi í Stretford og Urstrom kjördæmi.

Jordan Price er engin venjuleg kona. Fyrir utan það að vera kærasta Dwight Yorke, framherjans í Manchester United, hefur hún unnið það sér til fræðgar að sitja fyrir berbrjósta í hinum ýmsu tímaritum. Jordan, sem er frá Brigthon Sussex og heitir réttu nafni Katie Price, á nokkuð marga stuðningsmenn, flestir karlmenn, og telja sumir að hún eigi eftir að velgja mótherja sínum úr Verkamannaflokknum, Beverly Hughes, hressilega undir uggum.

Aðalstefnumál Jordan er að allir eigi að eiga rétt á ókeypis lýtaaðgerðum og augljóst að Jordan ber hag kjósenda fyrir brjósti í þessum málum en sjálf hefur hún farið í hvorki fleiri né færri en þrjár brjóstastækkanir. Það má virða Jordan fyrir hugdirfsku hennar og góðan ásetning en aðgerðir á borð við brjóstastækkanir ættu að mínu mati ekki að greiðast af skattgreiðendum. Auk þess hafa bústin brjóst Jordan greinilega reynst góð fjárfesting því þau hafa fært henni gull og græna skóga.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.