Skammsýn stefna í gengismálum

gengiJohn Snow mun í vikunni þrýsta á stjórnvöld í Kína og Japan að leyfa gjaldmiðlum sínum að hækka í verði. Þessi stefna stjórnvalda í Bandaríkjunum er skammsýn og eigingjörn. Hún lýsir einstöku skilningsleysi á aðstæðum í Kína og Japan.

gengiÁ næstu dögum mun John Snow, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, ferðast til Japan og Kína og ræða við þarlenda ráðamenn. Til umræðu verður meðal annars stefna þessara ríkja í gengismálum. Snow hefur lofað iðnfyrirtækjum í Bandaríkjunum að þrýsta á yfirvöld í Kína og Japan um að leyfa gjaldmiðlum landa sinna að hækka í verði.

Kína hefur síðastliðin 10 ár fylgt fastgengisstefnu gagnvart Bandaríkjadal. Undanfarin ár hefur Kína búið við viðvarandi viðskiptaafgang og umtalsvert innflæði gjaldeyris. Margir telja að fastgengisstefna kínveskra stjórnvalda haldi gengi gjaldmiðilsins mun neðar en það myndi vera ef gengi þess réðist á frjálsum markaði. Gengi japanska yensins ræðst á frjálsum markaði. Seðlabanki Japan hefur hins vegar að undanförnu selt gríðarlegt magn af yeni með það fyrir augum að koma í veg fyrir að gengi yensins hækki gagnvart dollar.

Aðgerðir kínverskra og japanskra stjórnvalda hafa sætt aukinni gagnrýni frá iðnfyrirtækjum, verkalýðsleiðtogum og stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum. Þessir aðilar telja að veikt gengi japanska yensins og kínveska yuansins komi niður á efnahag Bandaríkjanna og leiði til aukins atvinnuleysis þar í landi.

Það veldur vonbrigðum að fjármálaráðherra Bandaríkjanna ætli að taka undir þennan málfluttning. Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa af og til á síðustu áratugum sett þrýsting á ráðamenn í Japan um að hækka gengi yensins. Þessi þrýstingur hefur ef til vill haft einhver áhrif. Gengi yensins hefur í öllu falli hækkað gríðarlega á síðustu 30 árum, eða úr 360 yen/dollar í 120 yen/dollar. Þessi mikla hækkun hefur án efa átt þátt í því að orsaka þá löngu og djúpu kreppu sem hráð hefur Japan síðasta áratuginn.

Mikilvægur þáttur í því að koma hagkerfi Japans upp úr þessari kreppu og sigrast á þeirri verðhjöðnun sem hrjáir hagkerfið er að gengi yensins lækki. Þrýstingur frá Bandaríkjunum um hið gagnstæða er því einungis til þess fallin að gera stjórnvöldum erfiðara fyrir að koma japanska hagkerfinu á réttan kjöl.

Snow hefur lýst því yfir að hann telji að kínversk stjórnvöld eigi að leyfa gengi yuansins að ráðast á markaði. Stefnubreyting þess efnis af hálfu kínverskra stjórnvalda væri hins vegar mjög óæskileg. Hækkun á gengi yuansins myndi að öllum líkindum leiða til verðhjöðnunar þar í landi alveg eins og það hefur gert í Japan. Verðbólga í Kína í dag er nú þegar mjög lág. Skynsamlegri stefna væri að Seðlabanki Kína losaði um peningamálastefnu sína og leyfi verðbólgu að hækka upp í um 4% á ári. Slík stefna myndi hægt og bítandi leiða til þess að raungengi yuansins hækkaði og viðskiptaafgangur landsins minnkaði.

Fjármálakerfið í Kína er einfaldlega ekki nægilega þróað til þess að það ráði við fljótandi gengi og frjáls fjármagnsfluttninga. Það hefur sýnt sig á síðustu áratugum að ríki sem gefa gengi og fjármagnsflutninga frjálsa áður en þau hafa markað fjármálamörkuðum trausta umgjörð er sérstaklega hætt við fjármálakreppum. Það segir sig sjálft að fjármálakreppa í Kína er eitt það versta sem gæti hent hagkerfi heimsins.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum eiga að hafa skilning á því að fastgengisstefna hentar Kína vel og að Japan þarf á veikara yeni að halda. Til lengri tíma litið er mun mikilvægara fyrir bandaríska hagkerfið að hafa góðan hagvöxt í Kína og Japan sem skapar eftirspurn eftir bandarískum vörum en að reyna að koma höggi á þessi ríki með háu gengi til þess eins að geta haldið í nokkur störf í iðngreinum sem Bandaríkin hafa ekki lengur hlutfallslega yfirburði í.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.