Raflíf, rómantík og ragnarök

Höfundur pistilsins og Deigluútgáfan ehf firra sig ábyrgð af hvers kyns tjóni eða skaða á eignum, líkama eða sál sem lestur þessa pistils kynni að valda hvort heldur með beinum eða óbeinum hætti.

Án þess að gera okkur fyllilega grein fyrir því lifum rafmögnuðu lífi. Flest sem við gerum er á einn eða annan hátt tengt eða háð rafmagni. Fréttir af rafmagnsleysi vestan úr heimi raska samt ekki ró okkar fram úr hófi og hugsum jafnvel til þess að fólk hafi þá bara gott af því að missa aðeins af sjónvarpinu og neyðast til að grípaí góða bók. Að sannir Íslendingar myndu ekki kippa sér upp við svona smámuni. Það er ágætt að spá í því á leið inn í helgina hvaða áhrif algjört rafmagnsleysi myndi hafa hér.

Það er náttúrulega ekki svo fjarstæðukennt að landið verði meira eða minna rafmagnslaust um helgina. Orkuveitan er að verða búin með peningana sína og þurfti að hækka gjaldskrá sína til að eiga fyrir flugeldunum sem hún ætlar að skjóta upp á morgun og aldrei að vita hvenær hún verður hreinlega að loka. Hvað ætlum við þá að gera til að hafa ofan af fyrir okkur?

Við erum ekki lengur vön því að rafmagnið fari, þó það hafi verið nokkuð algengt fyrir rúmum 15 árum síðan, sérstaklega um vetur. Þá var talað um að fólk snéri sér hvert að öðru og æfði eða praktíseraði að búa til börn. Það þótti rómantískt og allt að því sniðugt. Nú er hins vegar búið að rafvæða rómantíkina eins og allt annað. Fólk sendir ástarbréf í tölvupósti eða með sms, en ekki með „snailmail“. Og meira að segja stundar fólk „kynlíf“ á internetinu!

Í rafmagnsleysi hættir stór hluti heimilissíma einnig að virka, því þráðlausir símar þurfa rafmagn. Neyðarástand myndi einnig fljótt skapast því fólk gæti ekki hlaðið gsm símana nema í bílnum og yfirleitt eru ekki nema 2-3 bílar á hverju heimili, sem nægir engan vegin til að hlaða alla símana. Vídeótækin og sjónvörpin virka ekki frekar en bíóin. Og þeir sem ekki eru svo gamaldags að ganga með seðla á sér geta enga björg sér veitt því hraðbankar og posar virka tæplega. Enginn notar ávísanir lengur og allar verslanir hafa eflaust hent gömlu „strauvélunum“.

Örbylgjumaturinn í frystinum eyðileggst fljótt og bjórinn verður volgur. Skelfilegast er þó líklega fyrir djammfíklana að þeir geta ekki verslað með korti á barnum og tónlistin stöðvast á skemmtistöðunum. Sem gerir reyndar lítið til á Næsta bar við Ingólfsstræti því þar er aðeins leikin tónlist einn dag í mánuði.

Til öryggis mæli ég með því að fólk búi sig undir rafmagnsleysið sem er yfirvofandi um helgina. Meðal þess sem er rétt að gera er að kaupa birgðir af dósa- og þurrmat sem ekki þarf að kæla eða frysta. Taka út nægilega mikið af peningum og geyma þá í koddaverinu. Gæta þess að á heimilinu séu til jafnmargir bílar og farsímar. Hafa vararafstöð til að tengja við tölvuna og finna leið til að tengjast erlendum internetþjónustuaðila í gegnum farsímann.

Einnig er aldrei of varlega farið og ágætt að hafa skotvopn á heimilinu ef til óeirða eða borgarastyrjaldar skyldi koma.

Ég óska landsmönnum öllum góðrar helgar, með von um að þeir haldi ró sinni í þeim skelfingum sem helgin hefur í för með sér fyrir þá. Það er sérstakt að engir aðrir fjölmiðlar sjái ógnirnar sem Reykvíkingum stafar af þessari stærstu innanbæjarferðahelgi sumarsins líkt og þeir gerðu um verslunarmannahelgina. En svona er Deiglan – alltaf fyrst með fréttirnar!

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)