Listanóttin lengri

Þegar ágústmánuður er hálfur liðinn er komið að hátíð þeirri sem helguð er menningu og listum. Menningarnótt hefur skipað sér kyrfilega sess á hátíðadagatali landsmanna og umfang hennar aukist til muna ár frá ári, og um leið hefur nóttina tekið að lengja.

Þegar ágústmánuður er hálfur liðinn er komið að hátíð þeirri sem helguð er menningu og listum. Menningarnótt verður haldin hátíðleg nú á morgun, en hún hefur á skömmum tíma, eða síðan hún var fyrst haldin árið 1996, skipað sér kyrfilega sess á hátíðadagatali landsmanna, kannski sér í lagi Reykvíkinga. Umfang hennar hefur að sama skapi aukist til muna ár frá ári, og er til að mynda talið að allt að 70.000 manns hafi komið saman í miðbæ Reykjavíkur til að skemmta sér saman við þetta tilefni í fyrra. Hátíðin er því sú fjölmennasta sem haldin er hér á landi.

Það sem helst er breytt frá því í fyrra, er að skipulögð hátíðardagskrá hefur verið lengd, en þó í þann enda sem vænlegri þykir t.d fyrir fjölskyldufólk eða þá sem erfiðara eiga um vik að bregða sér í bæinn að kvöldi til. Að líkindum er þetta gert m.a til að dreifa álaginu, en mannmergðin var slík fyrir ári að lá við slysum. Þá þótti einnig bregða fyrir helst til of mörgum menningarþyrstum og ölrjóðum foreldrum seint á ferli með börn sín, sem kann víst ekki góðri lukku að stýra. Í ár verður sömuleiðis öll öryggisgæsla hert til muna.

Setning hátíðarinnar verður uppúr hádegi á laugardag, um klukkustundu eftir að Reykjavíkurmaraþonið hefst, eða kl 13. Dagskráin samanstendur af fjöldanum öllum af stærri og smærri atriðum, og hafa skipuleggjendur að sögn vart haft undan að taka við upplýsingum um dagskrárliði sem listamenn og leikmenn bjóða fram í tilefni dagsins, og mun að líkindum bætast í dagskrána fram eftir kvöldi.

Miðbærinn mun iða af lífi, og ættu allir að geta fundið sér eitthvað til ánægju og yndisauka. Þar verður að finna leiktæki fyrir börnin, sögugöngur um gamla bæinn, garðagöngur um fallega garða, óperusöng, leikþætti, harmonikkuspil, graffiti, breikdans, ljósmyndasýningar, myndlistasýningar, vínsmökkun, leikbrúðusýningar, þjónahlaup, fjöltefli, vínsmökkun, djasstónleika, hestaleigu, húlakeppni, danssýningar, götuleikhús, lúðrasveitir, stefnumótaráðgjöf, vísindamaraþon, pallborðsumræður um Harry Potter, orgeltónleika, fótboltalistir, Nótt hinna löngu ljóða, kórsöng, línudans, stórtónleika á Miðbakka, nikkuball, fjöldasöng og ýmsa gjörninga og svo mætti lengi telja. Dagskránni lýkur síðan kl 23 með mikilli flugeldasýningu.

Ennfrekar verður Flughátíð á Reykjavíkurflugvelli þar sem boðið verður uppá ýmiss konar flugsýningaatriði. Í ráðhúsinu ráða síðan Siglfirðingar ríkjum en þeir eru sérlegir heiðursgestir listahátíðar í ár og standa þar fyrir glæsilegri skemmtidagskrá.

Hver og einn ætti því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, og er von að fólk taki menningarnóttina snemma og njóti dagsins og kvöldsins umvafið menningu og listum í hjarta Reykjavíkur, en gangi jafnframt hægt um gleðinnar dyr, svo ekki skyggi á.

Hægt er að nálgast dagskrá Menningarnætur hér.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.