Stríðið um álit almennings að hefjast

Hvalveiðar Íslendinga eru hafnar á ný. Hrefnufangarinn Sigurbjörg BA hélt til veiða skömmu eftir miðnætti í nótt. Vaxandi spennu gætir vegna hugsanlegra aðgerða erlendra aðila, einkum bandarískra stjórnvalda sem hafa ýjað að viðskiptaþvingunum vegna veiðanna. Hvalveiðar Íslendinga eru því hluti af heimsmálunum um þessar mundir.

Eins og kunnugt er ákvað Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra á dögunum að veiddar skyldu 38 hrefnur hér við land nú í ágúst og september. Tilgangur veiðanna er vísindalegur, þótt gera megi ráð fyrir því að veiðimennirnir selji afurðir veiðanna.

Vísindamenn telja að hrefnustofninn hér við land sé um 43.000 dýr og að hann éti árlega um 2 milljónir tonn af fiski. Það er auðvitað alveg ljóst að veiðar á 38 dýrum mun hvorki setja stofninn í hættu né munu þær slá á þau áhrif sem stofninn hefur á fiskistofna hér við land.

Allir gera sér grein fyrir því að hjá erlendum verndunarsinnum búa ekki vísindaleg sjónarmið að baki. Það er ekki til bjargar hrefnustofninum sem hið nafntogaða flaggskip Grænfriðunga Rainbow Warrior hefur sett stefnuna á Íslandsmið, en skipið er nú lengst suður í Atlantshafi og væntanlegt hingað í lok ágúst.

Það eru heldur ekki vísindaleg sjónarmið sem búa að baki því að hrefnuföngurunum er óheimilt að veiða ef aðrir bátar eru í sjónfæri. Það er hluti af áróðurstríðinu. Blóðrauður sjór og hrímhvítur kviður hrefnunnar við síðu íslensks hvalveiðibáts yrði dýrmætt myndefni í áróðurstríðinu sem nú er í uppsiglingu. Erlendir fjölmiðlar hafa þegar leigt hraðskreiða báta til að elta uppi íslensku hrefnufangarana.

Staðfesta íslenskra stjórnvalda

Sjávarútvegsráðherra hefur sýnt mikla staðfestu í þessu máli en hann er með ákvörðun sinni að framfylgja vilja Alþingis sem fram kemur í þingsályktun sem samþykkt var 10. mars 1999 að tillögu Guðjóns Guðmundssonar. Ályktunin er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land og tekur fram að ályktun þess frá 2. febrúar 1983 stendur ekki í vegi fyrir því. Veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og undir eftirliti stjórnvalda.

Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.

Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Undirbúningur miði að því að veiðar geti hafist sem fyrst. Kostnaður við kynninguna verði greiddur úr ríkissjóði. Öllu kynningarstarfi verði flýtt svo sem auðið er.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að undirbúa jarðveginn í samræmi við þessa ályktun löggjafans. Ekki ætla ég að þreyta lesendur með því að rekja þrautargönguna í Alþjóðahvalveiðiráðinu, en það er í öllu falli ljóst að ráðið hefur í grundvallaratriðum horfið frá upprunalegu hlutverki sínu. Íslensk stjórnvöld hafa verið staðföst í þessu máli en því miður hafa sjónarmið þeirra ekki náð fram að ganga innan ráðsins.

Hverjir eru hagsmunir Íslendinga í málinu?

Fyrir hvalveiðum hér við land liggja margvísleg rök. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að viðhalda jafnvægi í lífríkinu við landið. Fyrir þjóð sem á allt sitt undir fiskveiðum er einfaldlega ekki hægt að horfa upp á að ójafnvægi í lífríkinu leiði til hruns fiskistofnana. Vísindaveiðar á hval eru því fyllilega réttmætar og í raun bráðnauðsynlegar til að fylgjast með jafnvægi lífríkisins.

Í öðru lagi má ekki gera lítið úr því að hvalveiðar gætu skilað þjóðarbúinu talsverðum tekjum, ef þær verða verulegar og markaðir fyrir kjötið opnast. Þetta er tvö stór ef, en við megum ekki gleyma því að hvalveiðar voru blómlegur atvinnuvegur á sínum tíma. Störfin voru vel launuð og nam útflutningur hvalaafurða rúmlega 1% af útflutningsverðmætum okkar.

Í þriðja lagi snúast hvalveiðarnar svo auðvitað um sjálfsákvörðunarrétt fullvalda ríkis. Ætlum við Íslendingar að láta almenningsálit í Bandaríkjunum og löndum Evrópu stjórna því hvernig við nýtum okkar auðlindir? Auðvitað þýðir ekkert að berja hausnum við steininn ef markaðir opnast ekki fyrir afurðirnar en við megum ekki lifa sem gíslar almenningsálitsins í þessum löndum.

Að svo sögðu verður þó að gefa gaum sjónarmiðum þeirra sem telja að við ættum að staldra við og íhuga málið betur áður en hvalveiðar hefjast af fullum þunga. Í fyrsta lagi verður að vera tryggt að við getum selt afurðirnar. Þótt auðvitað megi halda því fram með réttu að veiðarnar séu nauðsynlegar til að vernda fiskistofna hér við land, er óhugsandi að menn fari út í stórfellt hvaladráp og urði síðan hræin, eða sökkvi þeim á hafi úti. Milliríkjaverslun með hvalveiðar var umfjöllunarefni mitt í pistli frá 18. júlí 2002, Mjór er mikils vísir.

Í öðru lagi er ljóst að taka verður tillit til þeirrar uppgbygginar sem átt hefur stað í ferðaþjónustu. Þar eru auðvitað miklir hagsmunir í húfi. Þó er spurning hvort áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hafi hugsanlega verið orðum aukin. Hvalaskoðun mun þó eflaust eiga erfitt uppdráttar en dagar hennar eru þó tæpast taldir eins og haldið hefur verið fram.

Í þriðja lagi yrði það okkur Íslendingum þungbært að takast á við stærstu efnahagsveldi heims í viðskiptastríði. Aðgerðir stjórnvalda, bæði í Bandaríkjunum og innan ESB, myndu mótast mjög af almenningsálitinu. Takist Grænfriðungum og öðrum að æsa almenning upp er ekki ósennilegt að við Íslendingar þyrftum að súpa seyðið af því.

Það verður því mjög spennandi að fylgjast með umræðunni um hvalveiðar Íslendinga í heimspressunni á næstu vikum. Ef við höfum einhvern tímann staðið frammi fyrir stríði um almenningsálit, þá er það nú. Það er afar mikilvægt að sjónarmið okkar um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins verði þar ofan á.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.