Orkan kostar sitt

Það hlýtur að vera vilji borgarbúa að stjórnmálamenn hætti í fjárfestingaleik með peninga almenningsfyrirtækis eða eyði þeim ekki í risavaxin skrifstofuhús. Enn fremur vilja borgarbúar borga lægri skatta. Sala á Orkuveitunni myndi uppfylla báðar þessar óskir. Sem Reykvíkingur myndi pistlahöfundur styðja hugmyndir þess efnis heilshugar.

Alfreð Þorsteinsson var í fréttunum í vikunni eins og svo oft áður. Sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur reyndi hann að verja óafsakanlega hækkun gjaldskrár Orkuveitunnar. Vegna hita á Íslandi hefur notkun dregist svo mikið saman að nauðsynlegt var að hækka verðið á heita vatninu að mati Alfreðs. Það má þá væntanlega gera ráð fyrir því að verðið lækki aftur í haust og í vetur – eða hvað?. Líklegra má þó telja að í kuldakasti komandi vetrar hækki gjaldskráin enn og aftur vegna mikillar notkunar heits vatns sem mun valda auknu álagi á kerfinu. Maður hlýtur að spyrja sig hvort hugsanlega sé verið að greiða fyrir ónýtt parket í nýju húsi og glötuð fjárfestingarævintýri á borð við ljósleiðaragutl og risarækjueldi.

Ef maður nú bara gæti sýnt óánægju sína í verki og skipt um orkuveitu. Nei, það er ekki hægt – ekki enn að minnsta kosti. Þó er von á að ný lög um orkusölu verði samþykkt á komandi Alþingi en með þeim er hverjum sem er gert kleift að selja orku til hvers sem er. En þangað til verður maður að stóla á Alfreð – óskabarn borgarinnar.

Mikið hlýtur það annars að vera gott að vera í svona einokunaraðstöðu eins og Alfreð er í. Þegar salan minnkar að þá er verðið hækkað og þegar salan eykst er verðið hækkað. Lögmálið um framboð og eftirspurn þarf greinilega ekki að gilda um alla. Fimm komma átta prósent hækkun er það í þetta skiptið. Gaman væri nú ef að allir Reykvíkingar tækju sig saman um að minnka heita vatnsnotkun hjá sér um 5,5% til að vega upp á móti hækkun Orkuveitunnar. Þá væri Alfreð enn í sama farinu og áður – ætli hann myndi þá hækka verðið enn frekar? Þetta gæti snúist upp í þrjóskukeppni milli Alfreðs og borgarbúa. Líklega myndu borgarbúar þurfa að láta í minni pokann í þetta sinnið, allavega ef keppnin dregst fram á vetur.

Orkuveitan er annars ákaflega sérstakt fyrirtæki. Fyrirtækið er sem stendur í einokunaraðstöðu og hefur byggt upp digra sjóði í gegnum tíðina. Það má líkja því að vissu leyti við Landssímann, sem í gegnum árin var eitt um hituna á markaði þar sem eftirspurnin gat varla minnkað, sama hversu hart var í ári. Nú er útlit fyrir að samkeppni á orkumarkaði verði leyfð með lögum frá Alþingi. Maður hlýtur því að spyrja sig hvort ekki sé kominn tími til að Reykjavíkurborg, sem er langstærsti eigandi Orkuveitunnar, með yfir 92% eignarhlut, einkavæði Orkuveituna. Eigið fé Orkuveitunnar var tæpir 38 milljarðar í árslok 2002 og því má reikna með að undir eðlilegum kringumstæðum fengjust a.m.k. sem nemur því fyrir Orkuveituna. Heildarskuldbindingar Reykjavíkurborgar, með lífeyrisskuldbindingum, voru í árslok 2002 rétt rúmlega 38 milljarðar. Það er því ljóst að það sem Reykjavíkurborg fengi fyrir sinn hlut færi langleiðina með að greiða skuldir borgarinnar og jafnvel ríflega það. Það sem myndi sparast árlega í vaxtagreiðslum af 38 milljörðum mætti svo nota til að lækka útsvar borgarbúa.

Það hlýtur að vera vilji borgarbúa að stjórnmálamenn hætti í fjárfestingaleik með peninga almenningsfyrirtækis eða eyði þeim ekki í risavaxin skrifstofuhús. Enn fremur vilja borgarbúar borga lægri skatta. Sala á Orkuveitunni myndi uppfylla báðar þessar óskir. Sem Reykvíkingur myndi pistlahöfundur styðja hugmyndir þess efnis heilshugar.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)