Í silkimjúkum blænum

ÞjóðhátíðEnn rennur verslunarmannahelgin upp. Þjóðvegir og tjaldstæði fyllast, landinn ærist og flestir fara að heiman. Ýmislegt ræður för. Sumir elta veðrið en aðrir eru háðir hefðinni. Eitt er það þó sem gnæfir yfir annað í hefðum verslunarmannahelgarinnar.

ÞjóðhátíðUm allt land hafa verið haldnar ýmiskonar hátíðir undanfarin ár, allt frá bindindismótum til vopnaskaks. Fjöldi og gerð hátíðanna hefur verið breyst nokkuð frá ári til árs. Einna lengst hefð er fyrir bindindismótinu í Galtalæk, en sú hátíð hefur yfirleitt verið meðal þeirra stærstu.

Sú elsta og stærsta, og án efa sú allra vandaðasta er hins vegar Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum. Á hverju ári fara þangað nokkur þúsund manns af fasta landinu til að skemmta sér með heimamönnum. Þjóðhátíðin á sér langa sögu og hefur verið haldin síðan 1874.

Fyrir Vestmannaeyinga hefur Þjóðhátíðin mjög sérstaka merkingu. Flestir hafa þeir tekið þátt í hátíðarhöldunum frá fæðingu og eiga markar litríkar og skemmtilegar minningar. Þeir mega því fæstir við að missa af einni einustu hátíð.

Þessa helgi færist bæjarlífið úr sjálfum bænum í Herjólfsdal, þar sem bæjarbúar reisa hústjöld sem mynda þorp með skipulegum götum og húsnúmerum. Þar syngja þeir saman og skemmta sér fram undir morgun. Stemmningin á Þjóðhátíð er ólík því sem gerist á öðrum útihátíðum, því hún er í raun nokkurs annars eðlis. Þetta er hátíð bæjarbúa. Þeir sem ekki upplifa þann hluta hátíðarinnar fara mikils á mis.

Allt bendir til að Þjóðhátíð í ár verði mjög vel heppnuð. Veðurstofan spáir vel og jafnvel þótt veðrið yrði ekki gott, hyrfi sólin ekki úr hjörtum hátíðargesta, það sannaðist fyrir ári síðan. Einnig er líklegt að einn hornsteina Þjóðhátíðarinnar muni vanta í ár, en Árni Johnsen hefur stjórnað brekkusöngnum, hápunkti hátíðarinnar í fjöldamörg ár. Auk þess hefur hann verið kynnir og komið mikið að stjórnun dagskrárinnar. Vestmannaeyingar eru þó þekktir fyrir að láta ekkert stöðva sig. Enda á Þjóðhátíðin rætur til þess að rekja að Eyjamenn komust ekki á Þjóðhátíð á Þingvöllum og héldu því sína eigin.

Deiglan kveður úr Herjólfsdal og óskar landsmönnum öllum góðrar ferðahelgar og gleðilegrar Þjóðhátíðar.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)