Á hlaupum

skokkÁ góðviðrisdögum í Reykjavík má oft sjá fólk í stuttermabolum að hlaupa án augljóss tilgangs. Hvert er þetta fólk að fara og hvers vegna er það að flýta sér svona mikið?

skokkNú eru einungis tvær vikur í Reykjavíkurmaraþonið. Þó að hlaupið sé ekki stór viðburður á heimsvísu hefur það engu að síður markað sér sterka stöðu í dagatali Reykjavíkurborgar, sérstaklega nú seinustu árin þegar ákveðið var að tengja það við menningarnóttina. Höfundur ætlar að spara sér háfleygar yfirlýsingar um tengsl hins andlega við hið líkamlega en það er alveg örugglega skemmtileg lífsreynsla fyrir fólk sem hefur komið hingað frá útlöndum til að þreyta maraþonhlaup á norðlægum slóðum að mæta síðan fjölbreyttri menningardagskrá um kvöldið. Hugsanlega geta þá einhverjir ekki-hlaupandi fjölskyldumeðlimir fundið eitthvað sér til dundurs um helgina.

Það er orðið að einhverju óformlegu viðmiði að borg verði að hafa glæsilegt maraþonhlaup til að geta talist heimsborg. Það er engin tilviljun að New York-maraþonið er eitt vinsælasta maraþon í heimi en árlega taka 40.000 manns þátt í því hlaupi og, takið eftir, komast færri að en vilja. Til að gera sér grein fyrir hvílíkur fjöldi það er og hvers vegna fleirum sé ekki hleypt að, má til dæmis benda á að ef allir keppendurnir væru látnir haldast í hendur myndi sú halaröð auðveldlega ná frá rásmarkinu að endamarkinu, eða þá 42 km. sem hlaupið er.

Nafnið maraþonshlaup á rætur sínar að rekja til ársins 490 f.k. Grískur hermaður, Feidippídes (stafsetning á ábyrgð höfundar og líklegast röng), hljóp þá tæpa 40 km. frá bænum Maraþon til Aþenu til að bera fréttirnar af sigri Grikkja á Persum. Sagan segir að hann hafi hrópað „Niki!“ (sigur) áður en hann hné niður og dó.

Við endurreisn Ólympíuleikanna í Aþenu árið 1896 var nýju lífi blásið í goðsögnina og keppendur látnir hlaupa 40 km leið milli bæjanna. Bandarísku þátttakendunum í leikunum fannst hugmyndin að slíku langhlaupi svo skemmtileg að strax á leiðinni heim fóru þeir að leggja á ráðin um sambærilegt hlaup í Bandaríkjunum. Þannig hófst saga Boston-Maraþonsins, elsta skipulagða borgarmaraþonsins. Vegalengdin flökti svo smávegis næstu árin uns hún var negld niður niður í 42,195 km (26 mílur, 385 stikur) á Ólympíuleikunum í London 1908. Sagan segir að aukametrarnir (eða stikurnar, sögum ber ekki saman) hafi bæst við því skipuleggjendur vildu að hlaupinu lyki á torginu fyrir framan Buckingamhöll, svo konungsfjölskyldan gæti fylgst með endasprettinum.

Fæstir þeirra sem hlaupa eftir tvær vikur munu reyna við heilt maraþon. Í fámennari hlaupum, eins og Reykjavíkurmaraþon óneitanlega er, reyna aðstandendur að auka þátttökuna með því að bjóða upp á aðgengilegri vegalengdir. Í Reykjavíkurmaraþoni er þannig hægt að hlaupa heilt maraþon, hálfmaraþon og 10 km, auk 7 og 3 km skemmtiskokks. Maraþon krefst töluverðs undirbúnings, hálfmaraþon einnig en flestir menn í góðri þjálfun ættu að geta hlaupið 10 km án mikils undirbúnings. Þá eru 3 km skemmtileg vegalengd fyrir fólk sem leggur ekki almennt stund á hlaup en vill skokka eða ganga smá spöl í góðu veðri.

Undirritaður skorar á fólk til að velja sér vegalengd við sitt hæfi og taka þátt í að skapa skemmtilegan viðburð. Vonandi þó að enginn þurfi að deila örlögum áðurnefnds Feidippídesar því þótt nafn hans sé nú sveipað dýrðarljóma fékk hann lítið að njóta frægðarinnar, látinn um aldur fram. Það má einnig segja að sá sé nú ekki mikill íþróttamaður sem deyr þegar þrautin er á enda. Við megum þó ekki gleyma því þegar við hlaupum eftir Lækjargötunni að Feidippídes var flytja hernaðarlega mikilvægar upplýsingar og eflaust þess vegna sem hann flýtti sér svona mikið. Við nútímahlauparar flýtum okkur aðeins vegna þess að okkur langar til þess. Markmiðið er heldur ekki sigur í orrustu. Okkur langar að ljúka áfanga sem fær aðra til að spurja: „Af hverju?“ Ekki skemmir fyrir ef áfanginn er jafn kjánalegur og raun ber vitni. Að hafa hlaupið í hring.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.