Duttlungar veðurs og manna

RegnbogiÁ meðan að veðrabrigði geta víða haft mikil áhrif t.d í kjölfar uppskerubresta, þá er íslenskt samfélag blessunarlega laust við það að eiga í hættu þess háttar skakkaföll í kjölfar brigðulla veðra. Einna helst virðist veðrið gegnum tíðina hafa haft hvað mest áhrif með því að móta árstíðabundið lundarfar þjóðarinnar. Fer íslensk tilvera e.t.v svolítið eftir veðri?

RegnbogiMismunandi veðráttur svæða heimsins fara eftir hreyfingum og hitabreytingum í lofthjúp annars vegar, og svo því hvernig hvert svæði snýr að sólu, þ.e. hvort geislun sólarinnar lendi beint þar á eða á ská. Þannig hlutast til með hlýrri svæði og kaldari, að þau hlýrri er t.d að finna við miðbaug þar sem þau fá geislunina beint á sig, og að önnur kaldari, eins og t.d land jökla og ísa sem fær sína geislun á ská, er að finna á norðurslóðum.

Á meðan veðrabrigði geta á mörgum landsvæðum haft ótrúlega mikil áhrif t.d í kjölfar uppskerubresta, þá er íslenskt samfélag blessunarlega nokkuð laust við það að eiga í hættu þess háttar skakkaföll í kjölfar brigðulla veðra. Einna helst virðist veðrið gegnum tíðina hafa haft hvað mest áhrif með því að móta árstíðabundið lundarfar þjóðarinnar-eins og vatn holar stein.

Veðrið og meintir duttlungar þess virðast þannig hafa náð dálítið mögnuðum tökum á þjóðinni. Þegar tíðin er köld og dimm er sem grámygluleg dula leggist yfir og yfirbragðið virðist einkennast af framtaksleysi og dofa. Þegar tíðin er hinsvegar hlý og björt, og sér í lagi þegar sætir óspáðu góðviðri er hins vegar eins lokið hafi verið upp myrku herbergi, þannig að loks lýsi á og sjáanlegur verði allur sá kraftur, frumleiki og útgeislun sem þar býr.

Þetta er þó kannski ekki svo furðulegt ef horft er á þetta frá lífeðlisfræðilegu sjónarhorni. Birtumagn hefur óumdeilanlega áhrif á manneskjuna, enda er algengt að fólk þjáist af árstíðabundinni andlegri vanlíðan, skammdegisþunglyndi eða jafnvel sumarþunglyndi. Áhrif birtumagns eru því óhrekjanleg. Því mætti ætla að hér á landi öfganna væru slíkar árstíðabundar lægðir mjög algengar. Raunin er hinsvegar sú að tíðnin er lægri hér en t.d á austurströnd Bandaríkjanna. Tilgáta þessu tengd greinir frá því að þar sem Íslendingar hafi búið einangraðir í 1000 ár við erfiðar aðstæður, hafi átt sér stað ákveðið náttúruval. Þannig að þeir sem að áttu erfiðara um vik í leik og starfi sökum árstíðabundinna geðlægða, hafi einfaldlega átt minni möguleika á því að koma erfðaefni sínu áfram og tilhneigingin því þynnst út. Þetta er vissulega pæling, -en hvað er þá málið með veðrið?

Kannski er bara ógnarlega þægilegt að gefa sig einhverju óviðráðanlegu á vald. Hversu þægilegt er það t.d að losna við mismerkilegar ákvarðanatökur, þegar einfaldlega er hægt að láta veðrið ráða! Hversu þægilegt er að láta það bara í hendur veðurguðanna hvenær farið verði í hina og þessa heimsóknina, hvenær þessi atburður eða hinn muni eiga sér stað eða hvort verkefnin sem bíða verði leyst í dag eða á morgun, í vor eða í haust? Þannig getur líka verið afskaplega þægilegt í ljósi ‘mýtunnar’ að kenna veðrinu um aðgerðarleysi, leti eða aðra tilfallandi lesti. Það getur vissulega tekið á að þurfa að haga lífi sínu eftir duttlungum veðurguðanna.

Íslensk tilvera virðist á þennan hátt hafa tilhneigingu til að fara svolítið eftir veðri.

Að velja sér bústað á landi misviðra ræðst örugglega af einhverju allt öðru en veðurfari og því er víst heillavænlegast að einbeita sér að þeim sömu hlutum,og láta duttlunga veðurguðanna heldur verða krydd hvers dags frekar en það sem gefur þeim tóninn.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.