Baráttan fyrir lögmálum frumskógarins

lögmál frumskógarinsBarátta harðra frálshyggjumanna fyrir lögmálum frumskógarins heldur áfram. Raunar náði hún áður óþekktum hæðum um helgina í Helgarsproki Andríkis.is. Þar setur Andríki fram harða gagnrýni á Samkeppnisstofnun.

lögmál frumskógarinsBarátta harðra frálshyggjumanna fyrir lögmálum frumskógarins heldur áfram. Raunar náði hún áður óþekktum hæðum um helgina í Helgarsproki Andríkis.is. Þar setur Andríki fram harða gagnrýni á Samkeppnisstofnun.

Helgarsprokið hefst með eftirfarandi hætti: „Þess eru engin dæmi í sögunni að „samkeppnisyfirvöld“ hafi komið neytendum að gagni með afskiptum sínum af einkafyrirtækjum á opnum markaði. Hvorki á Íslandi né annars staðar.“ (Þeir skafa ekki af hlutunum í Helgarsprokinu.) Síðan er fjallað af miklum tilfinningaþrunga um það hvernig „áætlunarbúskapur“ samkeppnisyfirvalda veldur fyrirtækjum og neytendum „ómældu tjóni“ á hverju ári með afskiptum sínum.

Ekki er gott að segja hvað Andríki hefur fyrir sér hvað þetta varðar. Hitt er ljóst að fáir sérfræðingar í hagfræði samkeppnismála myndu taka undir þennan málflutning. Þótt hagfræðingar séu ósammála um ágæti margra þeirra aðgerða sem samkeppnisyfirvöld grípa til er tvennt sem allir eru sammála um. Það er annars vegar að samráð skaði neytendur og eigi því að vera ólöglegt og hins vegar að samrunar sem búa til einokunarfyrirtæki skaði neytendur og eigi því að vera ólöglegir.

Flest af því sem Samkeppnisstofnun Íslands hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum hefur snúið að því að framfylgja banni á þessu tvennu. Starf Samkeppnisstofnunar kemur því neytendum að gagni þar sem það dregur úr samráði fyrirtækja á Íslandi og kemur í veg fyrir að einokunarfyrirtæki verði til við samruna. Samráð og einokun virðast vera sérstaklega útbreidd og alvarleg vandamál á Íslandi, sakir smæðar hagkerfisins. Starf Samkeppnisstofnunar er því sérstaklega mikilvægt hér á landi.

Þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem öfga-frjálshyggjumenn fetta fingur út í starfsemi Samkeppnisstofnunar. Raunar gera þeir það nánast í hvert einasta skipti sem stofnunin beitir sér. Þessi gagnrýni varpar mikilvægu ljósi á það samfélag sem öfga-frjálshyggjumennirnir sækjast eftir að búa í.

Þeir sækjast ekki eftir að búa í samfélagi þar sem öflug samkeppni kemur í veg fyrir valdbeitingu og arðrán og tryggir hámarksvelmegun fólks. Nei, þeir sækjast eftir að búa í samfélagi takmarkalauss frelsis þar sem einokunarfyrirtæki leika lausum hala og beita því valdi sem þau hafa eins og þeim sýnist. Skítt með velmegun þegar maður getur verið frjáls í frumskóginum.

Miðað við málfluttning Andríkis að undanförnu í öðrum málum, svo sem varnarliðsmálinu og Falun Gong málinu, kemst maður ekki hjá því að efast um að ritstjórnarmeðlimir á Andríki séu frjálshyggjumenn vegna þess að þeim er annt um að réttur einstaklinga sé ekki fótum troðinn. Þvert á móti virðast þeir hafa dulda ást á valdi. Ef til vill berjast þau fyrir takmarkalausri frjálshyggju vegna þess að þau vita að í anarkísku samfélagi þar sem lögmál frumskógarins ráða ríkjum eru það þeir sterku sem lifa af. Eitthvað sem þeim þykir cool.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.