Grétar Mar forðast vigtina

Mönnum þykja lögin misheilög en þó eru flestir sammála um að þeir sem gegna ábyrgðarstöðum þurfi að vera traustir og trúverðugir. Forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins gefur ekki mikið fyrir lögin.

Um daginn gerðist nokkuð sem fór furðu hljótt í fjölmiðlum og virtist ekki freista fréttahauka landsins mikið, enda hafa þeir verið önnum kafnir sveimandi yfir annarri bráð. Á dögunum gekkst forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins nefnilega við því að hafa tekið þátt í brottkasti í starfi sínu sem skipstjóri. Segja má að Grétar Mar Jónsson, forsvarsmaður íslenskra skipstjórnarmanna, hafi varla getað valið betri tíma til að játa á sig þetta lögbrot því hann hefur sloppið nokkuð vel frá því.

Grétar Mar sagðist hefða teki þátt í brottkasti en það hefði sem betur fer ekki verið í miklum mæli. Aðspurður um hvort hann hefði látið landa afla framhjá vigt, neitaði hann að svara en sagði að þetta væri eins og að spyrja vegfarendur á Laugaveginum hvort þeir hefðu skotið undan skatti. Þetta eru sérstök ummæli og fæ ég ekki betur séð en Grétar sé að gefa í skyn að honum þyki skattsvik og kvótasvindl fremur léttvæg afbrot, kannski svona eins og að stinga upp í sig vínberi – framhjá vigt – í Hagkaup.

Það að Grétar Mar vilji ekki svara spurningunni um löndun framhjá vigt er í besta falli grunsamlegt. Með því gefur hann sterklega í skyn að hann hafi jafnframt því að kasta brott fiski, einnig landað afla framhjá vigt eða gefið upp sem aðra tegund. Heimildarmaður Deiglunnar staðfesti þennan grun og sagði að Grétar Mar hafi meðal annars landað afla framhjá vigt. Kannski finnst Grétari Mar að það sé allt í lagi að brjóta kvötalög, þar sem hann sjálfur er andvígur þeim.

Þetta vekur upp spurningar um hvort Grétar Mar er rétti maðurinn til að veita sjómönnum forystu. Trúverðugleiki hans hefur í það minnsta minnkað. Það verður áhugavert að sjá hvernig starfsbræður hans taka á málinu og hvort þeim finnst rétt að hafa talsmann sem hefur brotið af sér með þessum hætti.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)