Var Stalín hægri-öfgamaður?

Af einhverjum ástæðum hefur sú vitleysa orðið lífseig í Evrópu að nasismi og fasismi séu “hægri” stefnur.

Af einhverjum ástæðum hefur sú vitleysa orðið lífseig í Evrópu að nasismi og fasismi séu “hægri” stefnur. Enn í dag eimir af þessu og flytja fjölmiðlar gagnrýnislaust fréttir af því að “hægri”öfgamenn hafi staðið fyrir hinum og þessum óskundanum í nafni fordóma og útlendingahaturs. Afleiðing þessara undarlegu skilgreingar er m.a. sú að víða í Evrópu eru vart til stjórnmálaflokkar sem kenna sig við hægri stefnu af ótta við tenginguna við alræðisstjórnir fasista og nasista fyrr á öldinni.

Mér er ekki kunnugt um uppruna þessarar skilgreiningar en ég á erfitt með að verjast þeirri tilhugsun að hér sé um vísvitandi blekkingar að ræða því einstaklingur með lágmarksþekkingu á stjórnmálaviðhorfum hægrimanna sér á augabragði hversu fráleitt það er að halda því fram að þau eigi eitthvað skylt við þjóðernissósíalisma og fasisma. Þær vondu stjórnmálastefnur snúast báðar um þjóðnýtingu þegnanna og gríðarlegt vald ólýðræðislegra stjórnmálaafla, þær krefjast mikillar miðstýringar, ríkisútgjalda, og skilyrðislauss fráhvarfs frá grundvallarréttindum eins og tjáningarfrelsi, félagafrelsi og atvinnufrelsi. Öllum, sem hafa hina minnstu hugmynd um hugmyndafræði frjálshyggjunnar og hægri stefnunnar, ætti að vera fullvel ljóst að þetta er lýsing á andhverfu hægristefnunnar. Þeir, sem þrátt fyrir þetta þráast við og reyna að bendla hægrimenn við nasisma og fasisma, eru einfaldlega annað hvort illa upplýstir eða vísvitandi að taka þátt í blekkingarleik.

Þjóðerinssósíalisminn í Þýskalandi, kommúnisminn í Sovétríkjunum og fasisminn á Ítalíu og Spáni eru greinar af sama meiði. Þessar stjórnmálastefnur stríða gegn frelsi einstaklingsins og rétti fólks til þess að stjórna eigin lífi – hægristefnan er hins vegar grundvölluð í virðingu fyrir einstaklingnum og trú á frelsi hans. Ef við hins vegar sættum okkur við þá skilgreiningu á hægristefnu sem fjölmiðlar halda að okkur þá liggur það í augum uppi að Stalín og Maó voru, eins eins og Mussolini og Hitler, ekki kommúnistar heldur hægriöfgamenn.

Nú gæti einhverjum þótt sem þessar áhyggjur mínar af hugtakaruglingi séu orðhengilsháttur og smámunasemi. En ástæða þess hversu áhrifaríkur heilaþvottur svona hugtakabrengl getur verið er einmitt að fólk sættir sig við hann. Áhrifin geta þó verið mikil, eins og sjá má t.d. í Þýskalandi þar sem enginn stjórnmálaflokkur kennir sig við hægristefnu. Kannski liggur ástæðan að einhverju leyti í því að þegar fréttamaður hefur nýlokið við að segja þýsku þjóðinni að hægriöfgamenn í nýnasistahópi hafi brennt nokkrar moskur í dag þá hlýtur það að vera fremur óheppilegt fyrir stjórnmálamann ef næsta frétt fjallar um að hann hvetji til þess að tekin verði upp hægristefna í efnahags- og viðskiptamálum. „Hvers konar menn eru þeir eiginlega þessi hægri menn,“ gæti sjónvarpsáhorfandinn spurt sig? Jú það eru víst þeir sem vilja lækka skatta og auka frelsi en gallinn er náttúrlega þessi hvimleiða tilhneiging þeirra til þess að brenna moskur og misþyrma útlendingum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.