Hverju var verið að mótmæla í Genúa?

Í fúlustu alvöru þá er ótrúlegt að einhverjir hafi verið að mótmæla í Genúa þegar litið er yfir þau mál sem rætt var um þar í borg nú um helgina. Aðalmálið til umræðu var niðurfellingu skulda til þróunarríkja. Þar að auki var rætt um AIDS og umhverfismál. Ekki var minnst einu orði á málefni sem snúa einungis að samskiptum auðugu ríkjanna innbyrðis.

Þegar mótmæli blossuðu upp í Seattle á meðan á fundi Alþjóða-viðskiptastofnunarinn-ar (WTO) stóð fyrir nokkrum árum var maður ef til vill ekki sammála kröfum mótmælenda en samt var nokkuð ljóst út á hvað mótmælin gengu.

Í Seattle átti að leggja drög að næstu lotu fríverslunarsamninga á vegum WTO, arftaka GATT. Og þótt einhverjir ólátabelgir hafi leynst á meðal mótmælenda var ljóst að langflestir þeirra sem þar komu við sögu stunduðu friðsæl mótmæli gegn einhverjum þáttum í væntanlegu samningaferli WTO, þ.e. því sem átti að ræða á fundinum.

Sumir mótmælenda töldu að þróunarríki færu halloka í samningaferlinu þar sem samningar næðust í stórum dráttum einungis um fríverslun með vörur sem Bandaríkjamenn og Evrópabúar hafa hlutfallslega yfirburði í að framleiða. Þeir mótmælendur höfðu óneitanlega nokkuð til síns máls.

Aðrir mótmælendur töldu að þróunarríkin færu halloka þar sem ekki væru gerðar sömu gæðakröfur varðandi vinnuaðstæður og umhverfismál í þróunarríkjunum og í hinum vestræna heimi. Þeir mótmælendur höfðu mun minna til síns máls. Mótmæli þeirra voru þó ekki út í bláinn.

Þá mótmæltu bandarísk verkalýðsfélög fríverlsun vegna þess að hún leiðir til fækkunar á störfum í ákveðnum geirum bandaríska hagkerfisins. Mótmæli þeirra voru sannarlega út í bláinn en samt að mestu friðsöm.

Síðan í Seattle hafa hins vegar einkennilegir hlutir gerst. Í sífellt auknum mæli hafa mótmælin hætt að snúast um stefnu auðugra ríkja. Og nú er svo komið að engin leið er að komast að því um hvað mótmælin snúast. Upp að vissu marki eru þau í raun bara útrás vinstri-öfgamanna fyrir hatri sínu á markaðsbúskap. En að mun meira leyta hafa þau snúist upp í að vera útrás ofbeldisseggja fyrir þörf sinni fyrir því að brjóta rúður. Maður veltir því fyrir sér hvort minni ólæti verði á knattspyrnuvöllum nú þegar ólátabelgir hafa aðra staði til þess að láta ljós sitt skína.

Í fúlustu alvöru þá er ótrúlegt að einhverjir hafi verið að mótmæla í Genúa þegar litið er yfir þau mál sem rætt var um þar í borg nú um helgina. Aðalmálið til umræðu var niðurfellingu skulda til þróunarríkja. Þar að auki var rætt um AIDS og umhverfismál. Ekki var minnst einu orði á málefni sem snúa einungis að samskiptum auðugu ríkjanna innbyrðis. Ég er viss um að samtökin sem stóðu fyrir mótmælunum í Seattle hefðu haldið skrúðgöngu til heiðurs umræðuefnum fundarins ef ekki hefði verið fyrir alla ólátabelgina. Það er hins vegar gott að vita til þess að G8 hefur ákveðið að halda næsta fund sinn á afskekktum stað í Kanada. Vonandi leiðir það til þess að þessari vitleysu linni.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.