Bara réttlaust skemmtiefni?

Fyrstu helgina í júlí festi einhver á filmu ungt par í samförum í bifreið á landsmóti hestamanna. Myndasmiðurinn ákvað síðan að dreifa myndunum á netinu. Umræddar myndir ganga nú, sem eldur í sinu, á milli manna með tölvupósti. Deiglan fjallar um réttarstöðu myndasmiðsins og fórnarlambanna.

Fyrstu helgina í júlí festi einhver á filmu ungt par í samförum í bifreið á landsmóti hestamanna. Myndasmiðurinn ákvað síðan að dreifa myndunum á netinu. Umræddar myndir ganga nú, sem eldur í sinu, á milli manna með tölvupósti. Jafnframt hafa nokkrir vefmiðlar birt myndirnar.

Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins veitir mikla vernd gegn innrásum í einkalíf borgaranna. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að allir skuli njóta friðhelgis einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í þessu samhengi er rétt að benda á það að “heimili” í skilningi 71. gr. stjórnarskrá nær yfir bifreiðar. Í augum stjórnarskránnar er því umrædd myndataka sambærileg við það að liggja á gluggum íbúðar og taka myndir af fólki í samförum innan hennar. Þetta er atriði sem vert er að hafa í huga áður en við blessum háttsemi myndasmiðsins.

Almenn hegningarlög veita einnig töluverða vernd gegn innrásum í einkalíf borgaranna og fjallar XXV. kafli þeirra eingöngu um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Nokkur ákvæði kaflans geta átt við háttsemi myndasmiðsins, sérstaklega 229. gr. sem segir að hver sá sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

Parið á myndunum hefur að einhverju leiti boðið upp á þetta með því að stunda kynlíf á þessum stað. Engu að síður nýtur það verndar stjórnarskrár og almennra laga. Það eru nefnilega engin lög sem banna það að vera fullur og vitlaus, ótrúlegt en satt. Það er ekkert sem segir að ef menn geri sig að fífli undir áhrifum áfengis án þess að skaða aðra sálu, þá falli stjórnarskrárvarinn réttindi þeirra úr gildi og leyfilegt sé að sýna allri heimsbyggðinni athæfið í þeim eina tilgangi að hlæja að því.

Það er einfaldlega ekki hægt að líta fram hjá því að myndatakan og birting myndanna hefur engan málefnalegan tilgang. Eini tilgangurinn er meiðandi. Hann er að vanvirða og gera lítið úr fólkinu á myndunum. Fólkið á myndunum var ekki að skaða neinn. Myndatakan var án þeirra vitundar og hægt er að fullyrða að þau hefðu ekki samþykkt hana né meðferð og dreifingu myndanna. Af lestri stjórnarskrár og almennra hegningarlaga mætti ætla að fólkið á myndunum gæti nú leitað réttar síns og komið málinu til yfirvalda. Því miður er það lítill möguleiki.

Það er nefnilega rétt að geta þess að, þrátt fyrir að lagastaðan sé skýr og eigi að vernda borgarana fyrir svona óþarfa og meiðandi innrásum í einkalíf þeirra, þá er nokkuð ljóst að lítill vilji er hjá ákæruvaldinu til að veita þessa vernd. Menn muna eflaust eftir svipuðu atviki sem átti sér stað í Hafnarfirði. Þar festi verkamaður það á filmu þegar par var í samförum í bifreið á afskekktu vinnusvæði og setti myndirnar á netið. Samkvæmt heimildum sem Deiglan telur traustar þá lagði parið fram kæru til lögreglunnar í Hafnarfirði sem rannsakaði málið. Embætti lögreglunnar í Hafnarfirði ákvað að ákæra ekki fyrir þessa háttsemi þrátt fyrir skýran lagabókstaf. Málið fór síðan fyrir embættis ríkissaksóknara sem samþykkti ákvörðun embættisins. Það er því ljóst að skv. núverandi viðhorfi innan ákæruvaldsins þá er fólkið á myndunum réttlaust þrátt fyrir skýrar lagaheimildir þeim í hag.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.