Af dómum

Algengt er að fólk sé dregið í dilka eftir skoðunum. Það hefur í för með sér að einstaklingur verður að taka á sig skoðanir hópsins þótt hann sé ekki sammála nema hluta af þeim.

Í opnu og lýðræðislegu þjóðfélagi ætti að vera auðvelt að ræða mál og taka afstöðu án þess að vera dreginn í dilka í kjölfarið. Staðreyndin er hins vegar allt önnur eins og dæmin sanna og stundum er nóg að þekkja þann sem heldur fram tiltekinni skoðun til þess að vera settur í sama hóp. Dálkahöfundar á hinum ýmsu vefmiðlum fara ekki varhluta af þessu og þannig mætti til dæmis ætla að undirritaður væri hlynntur Evrópusambandinu miðað við skrif sumra penna á þessum vef.

Þegar við tilheyrum ákveðnum hópi er óhjákvæmilegt að við smitumst af gildismati og skoðunum hans. Í upplýsingasamfélagi nútímans þar sem aragrúi skilaboða berast okkur á hverjum einasta degi verðum við að taka afstöðu, annars erum við ekki hluti af kaffihúsaspjallhópunum þann daginn. Við veljum okkur öll einhvers konar lærimeistara, hvort sem það eru foreldrar eða Mogginn, og með þeirra hjálp og eigin hyggjuviti vegum við og metum það sem gerist í hinum stóra heimi.

Fyrir nokkrum árum var nánast ómögulegt fyrir fólk að gagnrýna það sem þeirra stjórnmálaflokkur gerði. Íslendingar voru húsbóndahollir og það er ekki langt síðan að ungt fólk sem vildi ná langt í stjórnmálum þorði að hafa aðra skoðun en forystan. Meira að segja þingmenn geta kvartað án þess að stofna nýja flokka í kjölfarið. Að vísu finnst mér stundum að til séu mörg þúsund lítilla flokka sem allir hafa sínar áherslur.

Við höfum hins vegar ekki náð svona langt í þjóðfélagslegri umræðu. Þannig er nánast ómögulegt að taka afstöðu í viðkvæmu máli án þess að vera settur í hólf. Ef ég fagna einhverju sem Ólafur Ragnar sagði þá hlýt ég að styðja hann og ef Bush lætur eitthvað gáfulegt út úr sér þá hlýt ég að vera á móti fóstureyðingum. Þessi aðferð, að setja allar skoðanir sem við erum á móti undir einn hatt og gera þann sem tekur undir einhverja þeirra ábyrgan fyrir hinum, er leiðigjörn, órökrétt og síst til framdráttar því þjóðfélagi sem við viljum búa í.

Enn fremur blandast þau gildi sem við aðhyllumst oft raunveruleikanum á óraunverulegan hátt svo úr verður einn alls herjar hrærigrautur. Er hægt að styðja ákveðna aðgerð sem samtímis stríðir gegn og er í samræmi við okkar skoðanir? Eða er slík aðgerð ekki til?

Hin eilífa deila raunsæishyggju og hughyggju umkringir hinn lifandi heim og kæfir í fæðingu skoðanir sem eiga ekki heima í öðrum hvorum flokknum. Þeir sem reyna að brúa bilið verða umsvifalaust fyrir barðinu á eineygðum þursum sem aldrei sjá annað en skuggamyndir hellisins. Hin eina rétta skoðun er sem betur fer ekki til og enginn ætti að falla í þá gryfju að halda öðru fram.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)