Starfsöryggi ofar fagmennsku?

Jafnvel starfsmenn fréttastofu öruggasta og sanngjarnarsta miðils heims virðast geta sýnt hlutdrægni þegar kemur að þeirra eigin hagsmunum.

Í gærkvöldi var rætt um málefni Ríkisútvarpsins í Kastljósinu á Ríkissjónvarpinu. Þar komu ,,stjórnmála-menn framtíðarinnar” eins og stjórnendur þáttarins, þau Kristján Kristjánsson og Eva María Jónsdóttir nefndu gestina. Tilefni umræðunnar var sú hugmynd sem hefur verið rædd nokkuð undanfarið að Ríkisútvarpið verði útilokað frá auglýsingamarkaði til að jafna samkeppnisstöðu í greininni.

Gestirnir gengu mislangt í skoðunum sínum. Einn þeirra gat hugsað sér að banna flutning leikinna auglýsinga í sjónvarpi og útvarpi landsmanna en áfram yrðu fluttar tilkynningar og skjáauglýsingar, annar vildi útiloka ríkismiðlana algjörlega frá auglýsingamarkaði. Báðir voru þeir á því að ríkismiðlarnir hefðu mikilvægu hlutverki að gegna sem aðrir gætu með engu móti sinnt og því væru frekari breytingar ekki nauðsynlegar. Þriðji gesturinn hafði sérstöðu í þættinum, því hann taldi að einkaaðilar gætu sinnt hlutverkum ríkismiðlana jafnvel eða betur en nú er gert og kysi ríkið svo gæti það styrkt sérstaklega menningarlegt hlutverk þeirra og gert sérstakar ráðstafanir til að tryggja að öryggishlutverk ríkismiðlana færist yfir á einkamiðlana.

Sérstaða þriðja gestsins, Sigurðar Kára Kristjánssonar, mótaðist ekki einungis af skoðanaágreiningi við hina gestina tvo, þá Sigfús Ólafsson og Björgvin G. Sigurðsson. Hún mótaðist einnig mjög sterkt af þeim greinilega ágreiningi sem var á milli hans og þáttastjórnendanna tveggja. Eftir að þeir Sigfús og Björgvin höfðu úttalað sig um hið mikilvæga lýðræðislega hlutverk ríkismiðlana og hlutleysi fréttastofa þeirra var fremur kaldhæðnislegt að sjá forkastanlega framkomu þeirra Kristjáns og Evu Maríu. Það var engu líkara en að þau ættu von á að Sigurður Kári væri með uppsagnarbréfin þeirra í vasanum, slík virtist skelfing þeirra við hugmyndir hans vera. Hlutleysið var ekki meira en svo að þau sáu meðal annars ástæðu til að vera með orðhengilshátt og útúrsnúninga um hverjir væru í raun vinsælustu sjónvarpsþættirnir og sögðu að hugmyndir Sigðurðar gengju hreinlega ekki upp.

Þessi vinnubrögð Kristjáns og Evu Maríu vöktu undrun, enda hafa þau oftar en ekki staðið sig ágætlega. Þarna var öll fagmennska fokin út í veður og vind og persónulegir hagsmunir þeirra réðu ferðinni. Starfsöryggi ofar fagmennsku á óvinsælasta vinnustað landsins. Stjórnendur þáttarins virðast hafa sett sér það markmið að grafa undan málflutningi þeirra er vilja hlut ríkisins í fjölmiðlarekstri minni. Slík vinnubrögð eru vítaverð þegar siglt er undir fölsku flaggi hlutleysis, fagmennsku og lýðræðislegrar umræðu.

Í mínum huga sýndu þau Kristján og Eva María fram á hvaða hættum það býður heim að fjölmiðlar eða fréttamenn telji sig yfir gagnrýni hafna. Hagsmunum okkar er ekki best borgið með því að fólk geti í skjóli stjórnvalda komið hugmyndum sínum á framfæri sem heilögum sannleika heldur einungis með virkri samkeppni og það að leiðarljósi að enginn er hafinn yfir gagnrýni og enginn geti útvarpað skoðunum sínum sem hinu eina sanna og rétta. Ríkisstarfsmenn eru engu hæfari til að segja satt en aðrir.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)