Er Gore aðalmaðurinn, eða hvað?

Nú eru rúmir níu mánuðir síðan meirihluti þeirra sem gengu að kjörborði í bandarísku forsetakosningunum merktu við nafn Alberts Gores á kjörseðlinum. Hann var þá nálægt því að verða forseti Bandaríkjanna og ef ekki væri stuðst við s.k. kjörmannakerfi væri Al Gore líklega í stól Georges W. Bush í dag – nema hvað Bush er auðvitað í mánaðarleyfi frá skyldustörfum á búgarði sínum í Texas.

Nú eru rúmir níu mánuðir síðan meirihluti þeirra sem gengu að kjörborði í bandarísku forsetakosningunum merktu við nafn Alberts Gores á kjörseðlinum. Hann var þá nálægt því að verða forseti Bandaríkjanna og ef ekki væri stuðst við s.k. kjörmannakerfi væri Al Gore líklega í stól Georges W. Bush í dag – nema hvað Bush er auðvitað í mánaðarleyfi frá skyldustörfum á búgarði sínum í Texas. En lítið hefur spurst til Gores síðan eftirmála kosninganna lauk og hann kvaddi heimsbyggðina með harmþrunginni röddu og að því er virtist raunverulegum svipbrigðum. Um liðna helgi hélt Gore stjórnmálanámskeið fyrir menntaskólanemendur í Tennessee-ríki, þar sem hann lét þau orð falla að hann myndi sækjast eftir útnefningu Demókrataflokksins í forsetakosningunum árið 2004.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, hefur Gore tekið upp nýjan gjörbreyttan stíl, hvað ytra byrðið varðar að minnsta kosti. Í síðustu kosningum var Gore legið á hálsi fyrir að vera stöðugt að breyta um persónuleika (hinn ofurrólegi, hinn æsti, hinn skilningsríki, hinn harði o.s.frv.) en nú virðist birtingarmynd þessarar persónuleikaleitar Gores hafa náð hámarki – kannski eitthvað skylt því að nú fer endursögn kvikmyndarinnar Apaplánetunnar sigurför um Bandaríkin.

En að öllu gamni slepptu, þá urðu margir demókratar forvirða við þessa yfirlýsingu Gores. Undanfarna mánuði hafa demókratar og repúblikanar deilt um mörg mikilvægustu grundvallaratriði í bandarískri pólitík. Og hvar hefur leiðtoginn Al Gore verið? Blandaði hann sér í umræðuna um skattalækkanir, sem hann taldi í sl. kosningum vera ávísun á efnahagslegt stórslys? Eða lagði hann lóð sitt á vogaskálarnar þegar harðast var deilt um umhverfismálin, það mál sem mun vera honum hvað hugleiknast? Nei, og kannski er ástæðan yfir því að hann hefur enga vigt lengur, engin lóð til að leggja á vogaskálarnar.

Al Gore er örugglega búin að vera – og ætlar Deiglan hér með að verða fyrst fjölmiðla á Vesturlöndum til að gefa út pólitískt dánarvottorð Alberts Gores. Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst sú, að hann tapaði kosningunum – kosningum sem hann átti að vinna, kosningum sem demókratar áttu undir engum kringumstæðum að geta tapað miðað við efnahagsástandið í Bandaríkjunum. En það hefur auðvitað áður gerst að frambjóðandi sem beðið hefur lægri hlut í forsetakosningum hafi komið til baka og orðið forseti. Það gerði repúblikaninn Richard Nixon árið 1968 en hann tapaði fyrir John F. Kennedy í einum jöfnustu kosningum bandarískrar stjórnmálasögu árið 1960 – þá var Nixon líka varaforseti. Margir segja að Al Gore hafi tapað af því að hann stóðst ekki samanburðinn við félaga sinn Bill Clinton. Samanburðurinn við harðjaxlinn Nixon er honum líka í óhag og nákvæmlega engar líkur eru á að hann eigi slíka endurkomu sem að ofan er getið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.