Að halla réttu máli

Það hefur nokkuð borið á því undanfarin misseri í umræðu um gang bandaríska hagkerfisins síðustu tuttugu árin að ekki sé rétt farið með staðreyndir. Þannig birtist til dæmis umfjöllun um þetta mál á Andríki í gær þar sem talsvert er um rangfærslur. Hér er farið yfir nokkrar af þessum rangfærslum og réttar tölur birtar lesendum Deiglunnar til upplýsingar.

Það hefur nokkuð borið á því undanfarin misseri í umræðu um gang bandaríska hagkerfisins síðustu tuttugu árin að ekki sé rétt farið með staðreyndir. Þannig birtist til dæmis umfjöllun um þetta mál á Andríki í gær þar sem talsvert er um rangfærslur.

Í grein Andríkis er gangur efnahagslífsins í Bandaríkjunum á meðan Reagan var við völd borinn saman við gang þess þegar Clinton var við völd. Greinarhöfundur hyggst færa fyrir því rök að efnahagsstefna Reagan hafi verið farsælli en efnahagsstefna Clintons og nefnir máli sínu til stuðnings mismunandi vöxt nokkurra mikilvægra hagstærða. Að því er ég kemst næst fer greinarhöfundur í öllum tilvikum með rangt mál.

Fyrst er hagvöxtur borinn saman. Samkvæmt Andríki var hagvöxtur 3,2% á ári á meðan Reagan var við völd en ekki nema 2,5% á meðan Clinton var við völd. Þjóðhags-reikningar í Bandaríkjunum eru gefnir út af The Bureau of Economic Analysis. Þegar flett er í gegnum þá á heimasíðu stofnunarinnar er auðvelt að reikna út að hagvöxtur á meðan Reagan var við völd var í raun 3,4%. En hagvöxtur á meðan Clinton var við völd var 3,7%.

Samkvæmt Andríki jókst framleiðni um 0,4% á ári á stjórnartíð Clintons, en um 1,5% í tíð Reagan. Framleiðnitölur í Bandaríkjunum eru gefnar út af The Bureau of Labor Statistics. Á heimasíðu þeirra er auðvelt að sjá að framleiðni jókst í raun um 2,0% á meðan Clinton var við völd en aðeins um 1,5% á meðan Reagan var í hvíta húsinu.

Samkvæmt Andríki fjölgaði störfum í Bandaríkjunum um 2% á ári á meðan Reagan var við völd en aðeins um 1,1% á ári í tíð Clintons. Tölur um fjölda starfa í Bandaríkjunum eru einnig birtar af The Bureau of Labor Statistics. Samkvæmt tölum þeirra fjölgaði störfum reyndar um 2,0% á ári á meðan Reagan var við völd en um heil 2,4% á ári í valdatíð Clintons.

Andríki ber einnig saman meðal fjölskyldutekjur í Bandaríkjunum. Þær töldur eru einnig nokkuð undarlegar. En ég fann því miður engar opinberar tölur um þessa hagstærð á netinu. Það er reyndar svolítið skrítið að Andríki hafi notað ofangreinda mælikvarða því þetta eru þeir mælikvarðar sem koma hvað best út fyrir Clinton af öllum hagstærðum sem mér dettur í hug.

Í þessum pistli ætla ég ekki að leggja mat á það hvort mismunandi gengi hagkerfisins á þessum tveimur tímabilum orsakist af mismunandi efnahagsstefnu forsetanna tveggja. Þetta eru ekki réttu mælikvarðarnir til þess að gera það. Það er hins vegar mikilvægt að umræða sem þessi sé ekki lituð af röngum staðhæfingum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.