Mjór er mikils vísir

Síðustu daga hafa verslanir á höfuðborgarsvæðinu boðið hrefnukjöt til sölu. Það eru í sjálfu sér engin stórtíðindi, því hrefnukjöt hefur fengist í íslenskum verslunum af og til þegar hvalreki hefur orðið á strendur landsins, eða dýr festast í veiðarfærum. Það er miklu frekar tilkoma kjötsins sem er athyglisverð og í raun sannkallað fagnaðarefni.

Síðustu daga hafa verslanir á höfuðborgarsvæðinu boðið hrefnukjöt til sölu. Það eru í sjálfu sér engin stórtíðindi, því hrefnukjöt hefur fengist í íslenskum verslunum af og til þegar hvalreki hefur orðið á strendur landsins, eða dýr festast í veiðarfærum. Það er miklu frekar tilkoma kjötsins sem er athyglisverð og í raun sannkallað fagnaðarefni.

Hrefnukjötið er norskt að uppruna og meira að segja er eftirlit með upprunanum svo strangt að DNA-sýni verða tekin úr kjötinu í verslunum og send til rannsóknar til að sannreyna hvort kjötið sé ekki örugglega af „norskum“ hrefnum. En í öllu falli þá er um merkilegan áfanga að ræða í baráttunni fyrir skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins. Það er skilyrði fyrir slíkum veiðum að hægt sé að selja afurðirnar. Og sú staðreynd að Vesturbæingar geta keypt norskt hvalkjöt í Melabúðinni og Breiðhyltingar í sinni Nóatúnsverslun sýnir að milliríkjaverslun með hvalaafurðir er raunhæfur möguleiki.

Hitt er svo annað mál, að það er auðvitað tóm della fyrir okkur Íslendinga að kaupa hvalkjöt af Norðmönnum. Skammt undan ströndum Íslands eru einhver gjöfulustu hvalamið veraldar og engin heilbrigð rök sem mæla gegn sjálfbærri nýtingu þeirra. Innflutningur á norsku hrefnukjöti til Íslands minnir því á gamla frasann um kaffiinnflutning til Brasilíu. Það má ekki gleymast að alvöru hvalveiðar voru á sínum tíma afar arðbær atvinnuvegur. Þjóðarbúið hafði af þeim talsverðar útflutningstekjur, þær tryggðu tugum manna vel launaða atvinnu og þau fyrirtæki sem stunduðu hvalveiðar högnuðust vel.

Fyrsta skrefið í að hefja hvalveiðar að nýju gæti verið til sjálfsþurfta, þ.e. til að mæta eftirspurn á innlendum markaði, sem virðist vera töluverð ef marka má viðtökur við norska hrefnukjötinu. Síðan yrði farið í vinna markaði. Á sínum tíma var næstum allt hvalkjöt Íslendinga selt til Japan og víst er að þar er eftirspurnarmarkaður eftir hvalkjöti sem seint verður mettaður.

Þessi eini gámur af norsku hrefnukjöti sem skipað var á land í Sundahöfn fyrr í vikunni gæti því orðið upphafið að nýju blómaskeiði milliríkjaverslunar með hvalaafurðir. Mjór er oft mikils vísir.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.