Hvar eru hugsjónirnar?

Jimmy SwaggartÞað er mikilvægt að yfirlýstir hugsjónamenn séu samkvæmir sjálfum sér. Ef hugsjónamenn tala digurbarkalega um grundvallarhugsjónir en brjóta síðan gegn þeim í daglegu lífi sínu líkjast þeir prédikara sem hvetur aðra til dyggða en stundar sjálfur syndsamlegt líferni. Orð þeirra verða lítils virði og í raun verður hegðun þeirra hugsjóninni frekar til hnjóðs en gagns.

Jimmy SwaggartÁ sjöunda og áttunda áratugnum voru margir ungir einstaklingar sem eyddu æsku sinni í að boða alræði öreiganna og niðurrif kapítalismans. Voru margir þeirra svo sannfærðir um málstaðinn og harðir í afstöðu sinni að þeir gripu til ýmis konar aðgerða til að berjast fyrir þessum hugsjónum sínum. Það verða alltaf til slíkir einstaklingar með háar hugsjónir og burt séð frá áliti manns á málsstaðnum sjálfum þá eru viðkomandi hugsjónarmenn oftast virðingarverðir fyrir ósérhlífna baráttu fyrir skoðunum sem þeir trúa á.

Í lýðræðisríkjum hefur það yfirleitt þótt eftirsóknarvert að vera hugsjónamaður og hafa e-n æðri tilgang til að berjast fyrir. Þetta hefur þótt það eftirsóknarvert að stundum taka einstaklingar upp á því að lýsa því yfir að þeir séu hugsjónamenn án þess að mikil innistæða sé fyrir því. Eins og með margt annað þá er eina leiðin til að sjá hvaða mann fólk hefur að geyma að dæma það af gjörðum sínum en ekki eigin yfirlýsingum. Af þeim ástæðum er hlegið í dag að þeim vinstri róttæklingum sem búa núna í tugmilljóna einbýlishúsum og eru orðnir allt sem þeir börðust gegn fyrir 30 árum. Þeir hafa gert andstæðingum sínum mikið gagn með þessum lifnaðarháttum sínum og sjálfir rekið síðasta naglann í líkkistu úreltra skoðana sinna.

Yfirlýstir hugsjónamenn verða einfaldlega að vera samkvæmir sjálfum sér því annars geta þeir gert málstað sínum meiri skaða en nokkurn tíma gagn. Eins og fram kom í pistil eftir Andra Óttarsson sem birtist á Deiglunni þann 1. júlí 2003 þá hefur sú dapurlega staða komið upp að nokkrir yfirlýstir frjálshyggjumenn eru farnir athugasemdalaust að dásama stofnun íslensk hers þegar það liggur fyrir að slík ráðstöfun feli í sér tugmilljarða aukaútgjöld fyrir íslenska skattgreiðendur og gífurlega aukningu í umsvifum ríkisins. Einstaklingar sem börðust hatrammlega gegn fæðingarorlofinu þrátt fyrir að það væri eitt stærsta jafnréttismál í sögu íslenska lýðveldisins eru allt í einu farnir gagnrýnislaust að dásama þessi gífurlega fjárútlát og umsvifsaukningu ríkisins. Reyndar er rétt að geta þess að sumir þeirra hafa nú dregið í land með þessar yfirlýsingar og fullyrða nú að kostnaðareftirlit eigi að vera til staðar en hins vegar hefur ekkert nýtt komið fram frá þeim sem gæti hugsanlega réttlætt stofnun hers.

En ósamkvæmnin leynist því miður víðar. Það virðist nefnilega vera þannig að um leið og hugsjónirnar fara að snerta líf viðkomandi þá fari þær um leið að gleymast. Þannig hafa margir einstaklingar sem börðust hatrammlega gegn títtnefndu fæðingarorlofi steingleymt málstaðnum um leið og lítill erfingi fæddist og tekið fæðingarorlof án þess að blikna. Allt í einu gleymast öll rök þeirra um skaðsemi fæðingarorlofsins og þeirri meinsemd sem þeir fullyrtu að það væri. Öll sjónarmið þeirra um óþarfa ríkisstyrki til fólks sem þurfi ekki á peningunum að halda virðist skyndilega hætta að eiga við þegar þeir sjálfir taka við skattpeningunum.

Kenningarnar og hugsjónirnar virðast því eiga að gilda alls staðar nema í lífi sumra af helstu stuðningsmönnunum. Það er eins og þeir telji sig yfir það hafnir. Við sjáum einstaklinga sem hafa boðað lágmarksríki í sinni smæstu mynd að vinna hjá opinberum stofnunum sem þeir fullyrða á öðrum vettvangi að eigi ekki tilverurétt! Á sama hátt eru sumir óhræddir við að leita til félagslega kerfisins án þess að þurfa nokkuð á hjálp að halda. Menn virðast kæra sig kollótta um hræsnina sem fylgir því að halda því fram að ríkið eigi bara að aðstoða þá sem þurfa á því að halda en vera á sama tíma að mjólka félagslega kerfið um allar bætur sem völ er á.

Í pistli eftir Andra Óttarsson um Ayn Rand sem birtist á Deiglunni þann 5. mars 2003 þá var farið í gegnum hugmyndir hennar og mótsögnina sem hörðustu áhangendur hennar geta lent í:

Eins og gefur að skilja þá hefur Ayn Rand og heimspekikenning hennar verið mjög vinsæl hjá íslenskum frjálshyggjumönnum í gegnum tíðina, sérstaklega innan ungliðahreyfingarinnar. Hins vegar er ekki hægt að líta fram hjá því að skoðanir hennar eru oft í mótsögn við þessa aðalfylgismenn hennar hér á landi. Eitt það versta sem Ayn Rand vissi voru málamiðlanir einstaklinga með eigin lífsskoðanir. Erfitt er að sjá að hluthyggja samrýmist stjórnmálastarfi sem byggist algjörlega á ýmiss konar málamiðlunum um allt sem skiptir einhverju máli en Ayn Rand var meinilla við stjórnmálamenn eins og kemur t.d. vel fram í Atlas Shrugged þar sem þeir eru mesta meinsemdin í þjóðfélaginu.

Þrátt fyrir að harðir frjálshyggjumenn í stjórnmálum lendi stundum í mótsögn við skoðanir helstu kennismiða frjálshyggjunnar þá verður að teljast eðlismunur á slíkum málamiðlunum vegna stjórnmálastarfs og þeirra sem við erum farin að sjá upp á síðkastið. Flestir eru sammála um að málamiðlanir í stjórnmálastarfi geta verið nauðsynlegar til að ná árangri og koma öðrum góðum málum að. Hins vegar er allt annað upp á teningnum þegar einstaklingar kjósa sjálfir ótilneyddir að gera málamiðlanir með eigin skoðanir og líf. Þá eru þeir ekki að gera málamiðlanir með neitt annað en eigið sjálf. Eins og kemur fram í ritgerðinni The Cult of Moral Grayness eftir Ayn Rand:

When compromise is your standard, your virtue is the number of values you’re willing to betray.

Stundum skemma hörðustu og öfgafyllstu einstaklingarnir fyrir þeim hófsamari með málflutningi sínum. En það veldur málstaðnum ekki minni skaða ef þeir sem eru harðastir í skoðunum sínum eru ekki samkvæmir sjálfum sér og lifa alls ekki eftir þeim skoðunum sem þeir eru að boða. Frjálshyggjan er ein skynsamasta lífsskoðun sem hægt er að finna og innan hennar rúmast mörg sjónarmið. Sumir hafa valið sér öfgakenndari og harðari nálgun en aðrir og er ekkert nema gott um það að segja enda er þetta frjálst val hvers og eins. Hins vegar er það algjört lykilatriði að þær grundvallarskoðanir sem eru sameiginlegar hjá öllum frjálshyggjumönnum nái sem mestri útbreiðslu. Hugsanir sem kenna okkur m.a. að hver sé sinnar gæfu smiður og að við eigum ekki að reiða okkur á ríkisvaldið heldur okkur sjálf. Vonandi fara hörðustu frjálshyggjumennirnir ekki að gera grundvallarskoðununum sama skaða og gömlu vinstri róttæklingarnir hafa gert sínum málstað með lifnaðarháttum sínum.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)