Skotið á vopnin

Vopnaleit í ÍrakÍ kjölfar átakaloka í Írak héldu teymi sérfræðinga á vegum bandaríska hersins inn í landið í þeim tilgangi að staðsetja og gera óvirk hvers kyns kjarnorku-, efna- og lífefnavopn. Leitin að gereyðingarvopnum hefur ekki enn borið þann árangur sem vonir stóðu til um, en ef til vill eru aðrar leiðir, vænlegri til árangurs, sem gætu skotið vel búnum eftirlitsmönnum ref fyrir rass.

Vopnaleit í ÍrakÍ kjölfar átakaloka í Írak héldu teymi sérfræðinga á vegum bandaríska hersins inn í landið í þeim tilgangi að staðsetja og gera óvirk hvers kyns kjarnorku-, efna- og lífefnavopn.

Hafður var í för ýmiss sérhannaður búnaður, en þar á meðal voru t.d tæki sem að á augabragði efnagreina andrúmsloft m.t.t eitraðra lofttegunda, önnur sem að með rafdrætti og litskiljun ákvarða með fljótlegum hætti skaðleg efni og eitruð, kjarnsýrugreinar til leitar að DNA röðum miltisbrands, auk gammageislarófsmæla sem greina innihald lokaðra íláta, svo fátt eitt sé nefnt.

Leitin að gereyðingarvopnum hverskonar, og um leið að friðþægjandi réttlætingu á undangengnum stríðsrekstrarhamagangi í Írak, hefur ekki enn borið þann árangur sem vonir stóðu til. Hvort um sé að kenna ógreiðfæru landflæmi og skorti á samstarfsvilja heimamanna, eða því einfaldlega að leitin hafi verið til einskis gerð í upphafi skal látið liggja milli hluta. En ef til vill eru aðrar vænlegri leiðir til árangurs, sem gætu skotið vel búnum eftirlitsmönnum ref fyrir rass.

Árið 2002 gerði bandaríski herinn tilraunir með afar hraðskreiðar flaugar sem voru hannaðar til þess einmitt að færa sönnur á tilvist gereyðingarvopna. Flaug er þá skotið að ætluðum geymslustað, og síðan gefa ofurnæmir nemar sem flaugin ber innanborðs samstundis staðfestingu á því hvort að gereyðingarvopn er þar að finna eður ei. Nemarnir eru þá mismunandi eftir þeirri gerð vopna sem leitað er eftir.

Þessi búnaður gerir þannig vopnaleit án vandkvæða hvað varðir leyfi og samvinnu mögulega. Þó að ýmsum spurningum varðandi tæknilega framkvæmd sé ósvarað, komi raunverulega til notkunar flauganna, og varúðar m.t.t mögulegra pólítískra hræringa í kjölfarið beri að gæta, herma fregnir engu að síður að Bandaríkjaher sé að íhuga hugmyndina gaumgæfilega.

Hönnun flaugarinnar gerir henni kleyft að fara um nokkra metra af steypu án þess þó að innbyggðir nemar hennar skaddist. Þetta er auðvitað mikilvægur eiginleiki þar eð gereyðingarvopn eru oftast talin geymd í byrgjum eða verksmiðjuhúsnæði. Flaugin er gerð úr sérstaklega harðgerri nikkel-kóbalt stálblöndu, og er 230 mm löng og 45 mm í þvermál. Tilraunir hafa leitt í ljós að sé henni skotið á 1200-1400 m/s hraða geti hún farið gegnum 1 meter af steinsteypu og komið aftur út tiltölulega heil á 1000 m/s. Að auki er yfirborð hennar alsett djúpum grópum eða rákum sem ‚kljúfa’ steypuna líkt og uggar fisksins kljúfa vatn, en þannig eru möguleikar flaugarinnar á að halda stefnu sinni þrátt fyrir árekstra við veggi eða aðrar fyrirstöður auknar. Helsta vandamálið virðist liggja í gerð nemanna, og í því að þeir haldist heilir allt til enda.

Bent hefur þó verið á að e.t.v væri þetta engin stórkostleg viðbót við þær aðferðir sem nú þegar eru notaðar. Þeir sem vopnin feli muni einfaldlega grafa þau dýpra. Aðrir benda á, að það eitt að skjóta slíkum eftirlitsflaugum gæti flokkast undir stríðsverknað. Flaugarnar gætu þannig einnig mögulega orðið valdar að mannfalli á þeim stöðum sem leitað er á. Enn fremur gætu þær þurft að rjúfa umbúðir líffræðilegra og efnafræðilegra miðla til að geta skynjað þá, en þá um leið hleypt þeim út í umhverfið.

Það er augljóslega að mörgu að huga varðandi tæknina í ljósi þeirrar áhættu er varðar bæði hagkvæmni og siðferði í stóru myndinni. En möguleikinn er eftir sem áður fyrir hendi, og óhætt að álykta að sjálfsagt hafi ýmsu í gegnum tíðina verið kostað til í slakari hugmyndir en þessa þegar klukkan tifar.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.