Listin að hætta á toppnum

Að velja rétta tímann til að hætta á toppnum er vandmeðfarin list og hefur reynst mörgum garpinum þrautin þyngri..

Margir hæfileikamenn á sínum sviðum fyllast ofmetnaði þegar aldurinn færist yfir, hugsa með sér: „Ég hef þetta enn í mér“ eða „ég skal sýna þessum ungu oflátungum í tvo heimana.“ Þetta endar yfirleitt með því að þeir taka skóna af hillunni og ætla að sýna hvað í þeim býr en svo fer yfirleitt allt á versta veg.

Söngsveitin Abba upplýsir í viðtali við Daily Mirror að þeim hafi verið boðnir 76 milljarðar fyrir að fara í endurkomutónleikaferð en höfnuðu. Þau höfnuðu því vegna þess að þau vildu ekki valda aðdáendum sínum vonbrigðum og „gátu ekki uppfyllt væntingar allra þeirra rósrauðu minninga“ eins og sænsku kjötbollurnar orðuðu svo snyrtilega. Fleiri, íþróttamenn sem og tónlistarmenn, mættu taka þau til fyrirmyndar.

Einstaka menn, eins og Eric Cantona fyrrverandi Manchester United leikmaður, hafa séð sóma sinn í að hætta á réttum tíma.

Dæmi um hið andstæða eru mýmörg. Michael Jordan eyðilagði H.C. Andersen-legan endi á ferlinum eftir að hafa skorað sigurkörfu á móti Utah Jazz í lokaleiknum í úrslitum NBA með því að spila tvö ár í ruglinu hjá Washington Wizards. Muhammed Ali hélt áfram að berjast fram á ellilífeyrisaldur og uppskar Parkinson-veiki.

Hins vegar eru til dæmi um velheppnaðar endurkomur eins og þegar George Foreman vann aftur heimstmeistaratitilinn í þungavigt, hálfsjötugur maðurinn, en þau eru örfá.

Menn ættu að þekkja takmörk sín, hætta áður en yngri menn henda þeim svo fast í helgan stein að þeim verkjar í rófubeinið og taka upp golf eða boccia eða e-r hættuminni íþróttagreinar.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)