Þetta eina sem útaf bar…

Fólk upplifir verslunarmannahelgar með mismunandi hætti. Sumir eru fullir tilhlökkunnar en aðrir svitna. Hversu langt á að ganga í forræðishyggju um hegðun fólks þessa helgi?

Verslunarmannahelgin hefur afar litla þýðingu í mínum huga. Þar sem ég ólst upp var hún í raun ekki til sem slík, þótt hvergi sé hún betur nýtt en einmitt þar. Þar heitir hún Þjóðhátíð, og er notuð sem tímaviðmið í tali milli manna jafnt og áramót. Atburðir verða fyrir eða eftir Þjóðhátíð.

Atvik er upp koma á þessum tímamótum, eða öllu heldur á útihátíðum um verslunarmannahelgar, hafa verið í deiglunni undanfarna daga og vikur. Hugmyndir hafa komið upp um bann á útihátíðum, hækkun lágmarksaldurs þátttakenda og fleiri er ganga út á að takmarka aðgengi ungs fólks að slíkum skemmtunum.

Þótt öllum gangi gott til, þá gleymist það oft að slík boð og bönn leysa ekki vandann. Í umræðunni hefur til að mynda ekki verið nefnt að bann við sölu áfengis til unglinga hefur lítil sem engin áhrif á aðgengi þeirra að því. Er þá ekki réttast að banna að unglingar fari yfirleitt út úr húsi þessa helgi?

Annað sem virðist gleymast er að þetta er ekki eina helgin sem unglingar drekka eða eru eftirlitslausir. Um hverja helgi safnast þeir saman í heimahúsum eða miðbænum til að skemmta sér og neyta áfengis. Foreldrar þeirra fara úr bænum eða til útlanda og á meðan leika þeir lausum hala. Hvernig hyggjast menn bregðast við því, kannski væri best að vista unglingana á sérstökum heimilum ef foreldrarnir bregða sér af bæ?

Þeir sem hafa upplifað Þjóðhátíð að hætti heimamanna í Vestmannaeyjum, vita að það er fyrst og fremst fjölskylduskemmtun, ekki síður en bindindismótin í Galtalæk. Þar skemmta foreldrar, börn, afar og ömmur sér saman, yfirleitt án teljandi vandræða. Það er rétt að þar, eins og á öðrum útihátíðum eru það yfirleitt unglingar sem koma annars staðar að og eru ekki undir eftirliti foreldra sem lenda í óhöppum. En það er þó mjög lítill hluti þeirra. Langflestir skemmta þeir sér vel án vandræða.

Það er sjálfsögð krafa að skipuleggjendur útihátíða bjóði upp á góða aðstöðu, öruggt umhverfi og löggæslu. Þar hafa skipuleggjendur Þjóðhátíðar sýnt gott fordæmi. Hitt er annað mál að hegðun og breytni unglinga verður ekki best stjórnað með lögum og reglugerðum, heldur með góðum ráðum frá foreldrum þeirra.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)