Stríðsþokan í Írak

Stríðsþokan í ÍrakNú er ljóst að ráðgjafar Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, ýktu hættuna sem stafaði af Írak í aðdraganda Persaflóastríðs hins síðara. Þetta eru ljót, en þó alls ekki óvænt, tíðindi. Í aðdraganda stríðins var fjölmörgum hæpnum fullyrðingum varpað fram af stjórnvöldum Bretlands og Bandaríkjanna til þess að sannfæra almenning um að stríð við Írak væri réttlætanlegt. Gekk áróðursstríðið svo langt að fyrr en varði hafði tekist að sannfæra meirihluta Bandaríkjamanna um að Saddam Hussein hafi verið persónulega ábyrgur fyrir hryðjuverkunum 11. september 2001.

Stríðsþokan í ÍrakHinar fjölmörgu lygar og ýkjur sem ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Bretlands létu frá sér í aðdraganda stríðsins snérust að miklu leyti um meint tengsl Íraks og Al Qaeda annars vegar og hins vegar stórlega ýktar áhyggjur af hugsanlegri kjarnorku- og efnavopnaeign Íraks. Fyrir alla þá sem höfðu fyrir því að kynna sér málin var tengingin á milli Íraks og Osama bin Laden alla tíða mjög hæpin, enda hefur Osama bin Laden ítrekað lýst því yfir á undanförnum árum að eitt helsta markmið sanntrúaðra múslima væri að steypa hinni „guðlausu“ stjórn Husseins af stóli í Írak. Þá voru yfirlýsingar um að Al Qaeda hefði bækistöðvar í Norður – Írak lítil vísbending um tengsl Baghdad stjórnarinnar við hryðjuverkasamtökin, enda voru hinar meintu bækistöðvar einmitt á svæði sem ríkisstjórn Íraks hafði alls ekki á valdi sínu.

Hvað gjöreyðingarvopn áhrærir var ýmsu tjaldað til þess að reyna að færa sönnur á tilvist þeirra. Notuð var áratugsgömul háskólaritgerð sem röksemd í breskri skýrslu og djarflega var lagt út af gervihnattamyndum í ræðu Colin Powell í Sameinuðu þjóðunum. Raunar hefur það komið fram í fjölmiðlum að Powell hafi orðið svo argur yfir því að þurfa að framreiða svo ótraust gögn á vettvangi SÞ að hann hafi í nokkur skipti misst stjórn á skapi sínu við undirbúning ræðunnar. Sú ræða var uppfull af ótraustum röksemdafærslum og voru gloppurnar í henni svo áberandi að Hans Blix, þáverandi yfirmaður Vopnaeftirlits SÞ, neyddist til að setja ofan í við utanríkisráðherra öflugasta heimsveldisins á opnum fundi.

Það er ákaflega dapurt að vita til þess að ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjamanna beri ekki meiri virðingu fyrir sannleikanum er þetta. Reyndar er einnig hægt að halda því fram að framkoma stórveldanna gagnvart umheiminum beri töluverðan vott um skort á sjálfsvirðingu – a.m.k. virðast leiðtogar þeirra litlu skipta hvort þær upplýsingar sem frá þeim fara séu sannar, upplognar eða ýktar.

Eftir að Bandaríkjamenn tilkynntu um að stríðið í Írak væri búið fóru þeir að beina sjónum sínum að öðrum heppilegum löndum til þess að frelsa. Aðdáendur stríðsátaka voru margir byrjaðir að hlakka til þess að á eftir vori í Baghdad yrði það sumar á Sýrlandi. Nú beina Bandaríkjamenn sjónum sínum einnig að Íran og hafa fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafið máls á því að frelsun þess sé nauðsynleg. Nú virðist það hins vegar ætla að verða þrándur í götu ný-íhaldsmanna í Bandaríkjunum að íraskir andstæðingar herstjórnarinnar hafa ekki lært þá mannasiði að hætta að berjast eftir að búið er að tilkynna um stríðslok.

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001 gerðu flestir sér grein fyrir að Vesturlönd þyrftu að grípa til aðgerða. Ljóst er að þegnar margra þeirra ríkja fóstra hryðjuverk eru þess ekki megnugir að koma á breytingum án utanaðkomandi aðstoðar. Það er einörð skoðun Deiglunnar að samfélög þar sem lýðræði, markaðsfrelsi og mannréttindi eru ríkjandi séu alltaf mannvænni en þau þar sem þegnum er neitað um þau réttindi. Það er einnig skoðun Deiglunnar að í ákveðnum tilvikum geti alþjóðasamfélagið þurft að beita hervaldi til þess að aðstoða þjakaðar þjóðir til þess að öðlast betra líf og bjartari framtíð.

Það er hins vegar alveg ljóst að Bandaríkin og Bretland hafa gerst sek um mikla vanvirðu við þessi réttindi með framkomu sinni í garð eigin þegna og samfélags þjóðanna í málefnum Íraks. Grundvallarsjónarmið um ábyrgð og skyldur stjórnvalda voru virt að vettugi í aðdraganda stríðsins.

Forsendur fyrir því að alþjóðasamfélagið gripi til aðgerða í Írak vegna ógnarstjórnar Saddam Hussein hafa lengi verið til staðar. Innrásin í Írak virðist því miður lítið hafa í raun haft með þær forsendur að gera. Önnur sjónarmið og aðrir hagsmunir réðu þar ferðinni. Hinn óhugnanlegi farsi, sem aðdragandi Íraksstríðsins var, hefur því að líkindum fært margar þjóðir heims lengra frá því að öðlast frið, frelsi og mannréttindi; ekki nær. Þetta er dapurleg staðreynd og líklegt er að langt muni líða þar til Bandaríkin og Bretland geti beitt sér á alþjóðavettvangi án þess að mæta mikilli tortryggni hjá heimsbyggðinni.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)